132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Áfengisauglýsingar í útvarpi.

507. mál
[13:45]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur lagt fyrir mig fyrirspurn um áfengisauglýsingar í útvarpi og þar er spurt hvernig ég hyggist beita mér fyrir því að bann við auglýsingum sé virt í Ríkisútvarpinu. Ég leitaði til Ríkisútvarpsins eftir svari við þessari fyrirspurn og upplýsingum um málið, og í svari þess kemur fram að gerðar eru athugasemdir við framsetningu fyrirspurnarinnar. Með fyrirspurninni er að mati þeirra hjá Ríkisútvarpinu gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið virði ekki bann við áfengisauglýsingum. Ég tek í rauninni undir það. Það má segja að í fyrirspurn hv. þingmanns felist ákveðin ályktun í þá veru að Ríkisútvarpið sé að brjóta landslög. Þessu er sérstaklega mótmælt af Ríkisútvarpinu. Auglýsingadeild útvarpsins hefur að þeirra sögn oft brugðist við með því að banna birtingu auglýsinga sem sannarlega brjóta í bága við lög. Samkvæmt áfengislögum telst áfengi hver sá neysluhæfur vökvi sem í er að rúmmáli meira en 2,25% af hreinum vínanda. Þetta er það viðmið sem auglýsingadeild Ríkisútvarpsins hefur unnið með og auglýsingar á bjór sem ekki telst áfengi samkvæmt skilgreiningunni að ofan, eru því heimilar. Auglýsendur, eins og við þekkjum vel, ganga mislangt í því að leitast við að misnota þessa heimild, vilja sumir meina. Full ástæða er til að auglýsingadeild Ríkisútvarpsins verði á varðbergi þegar slíks verður vart. Ríkisútvarpið er hins vegar ekki í stöðu til að búa til aðra skilgreiningu á áfengi en þá sem lögin segja til um. Þrátt fyrir þetta hefur auglýsingadeildin, eins ég gat um áðan, oft brugðist við með því að banna birtingu áfengisauglýsinga þegar því hefur verið við komið.

Af svari Ríkisútvarpsins tel ég ljóst að þar er bann við áfengisauglýsingum virt, ef miðað er við áfengislögin eins og þau eru núna. Því er ekki um lögbrot að ræða. Það er hins vegar oft og tíðum matsatriði hvað er áfengisauglýsing og hvað ekki. Þar verður að mínu mati að höfða til samvisku og siðferðiskenndar auglýsenda og fjölmiðla. Ég vil líka geta þess, og benda hv. þingmönnum á, að hér fyrir hinu háa Alþingi liggur fyrir frumvarp frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni og fleirum um einmitt þetta tiltekna efni, um áfengisauglýsingar og þá getur hv. Alþingi að sjálfsögðu tekið afstöðu til þessa máls sem virðist brenna á mjög mörgum.