132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[14:05]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Sú umræða sem hefur farið hér fram í morgun og í dag um sveitarstjórnarmálin er mjög gagnleg og skýrslan sem við þingmenn höfum fengið í hendur er líka gagnleg. Það er hárrétt sem hér hefur komið fram að það er upplýsandi, bæði fyrir þing og þjóð, að svona umræða fari hér fram, helst árlega. Það er vissulega ástæða til að hún fari fram því að hér í þessum sölum er einmitt uppspretta margra þeirra vandamála sem eru í sveitarstjórnarmálum og hafa verið í gegnum tíðina. Það er vegna þess að menn hafa ekki haft framsýni í sölum Alþingis til að búa sveitarstjórnum og sveitarfélögum í landinu þá umgjörð sem gæti skilað bestum árangri.

Auðvitað hafa menn viðurkennt þetta, viðurkennt að taka þyrfti á þessum málum en menn hafa svo sem ekki komist miklu lengra en það. Það hefur ekki verið tekið á þeim málum sem skipta þarna miklu, sem varða starf sveitarfélaganna, hlutverk þeirra og skipulag. Það má segja að menn hafi talað töluvert en framkvæmt lítið. Það er líka tvískinnungur í umræðunni, afskaplega óheppilegur tvískinnungur. Menn hafa talað um lýðræði og belgt sig út með því að það væri eitthvert óskaplegt lýðræði fólgið í því að menn hefðu einhvers konar neitunarvald um það að gera sveitarfélögin öflug og stærri. Það neitunarvald er núna miðað við 50 íbúa lágmarkið, getur þess vegna verið meiri hluti upp á kannski rúmlega 20 manneskjur sem ræður því að ekki verður af sameiningu sveitarfélaga. Þetta er mjög undarlegt lýðræði og Alþingi Íslendinga ætti ekki að standa að því að halda því að fólki að lýðræðislínan liggi þarna. Hún hlýtur að liggja annars staðar.

Á Alþingi Íslendinga hafa menn það hlutverk að ákveða hvar þessi lína á að liggja. Ég held að hún eigi að taka mið af því að íbúunum sé veitt sem best þjónusta, fengist sé við það að þeir sem eiga saman atvinnu- og þjónustusvæði axli líka sameiginlega ábyrgðina af því að reka sveitarfélögin. Alþingi hefur í mörgum tilfellum orðið til þess að reka fleyg á milli íbúa með ákvörðunum um hluti eins og að setja niður verksmiðjur og orkuver eða með því að fara út í framkvæmdir sem hafa fært fámennum sveitarfélögum fjármuni. Önnur sveitarfélög sem eru kannski í nágrenninu hafa ekki hlotið tekjur af þessum ákvörðunum og í framhaldi af því hefur ástandið orðið þannig að ekki hefur verið við það komandi að ræða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem í hlut eiga, einfaldlega vegna þess að sumir fá peninga í vasann en aðrir ekki. Í langflestum tilfellum er þetta vegna þess að ríkið hefur tekið þessar ákvarðanir.

Síðan höfum við horft upp á skipulagsslysin verða ár eftir ár. Vítin eru til að varast þau, menn geta t.d. horft hér á höfuðborgarsvæðið, hvernig svefnbæir sem hafa nýtt sér þjónustuna, t.d. hér í borginni, hafa vaxið og dafnað og út frá þessu hefur orðið til óhagkvæmni. Menn byggja t.d. miðbæi út um allt. Núna er í uppsiglingu skipulagsslys við Akrafjallið. Það er gott dæmi um að menn hafa ekki gætt að sér í þessu, þar voru fjórir hreppar sem samtals eru með rúmlega 500 manns. Eftir öll þessi ár og eftir fjölmargar sameiningarkosningar komust þeir að þeirri niðurstöðu að nú ættu þeir að sameinast. Þetta er svo fyrsta verkefnið, að samþykkja í þessu 500 manna sveitarfélagi að fara í nýja byggð sem liggur á mörkum þessa byggðarlags og Akraneskaupstaðar. Þessi byggð á að hýsa 400 manns. Í þessu sveitarfélagi er rekinn grunnskóli uppi í Leirársveit og á undanförnum árum hefur það verið helsta hlutverk sveitarsjóðs Innri-Akraneshrepps t.d. að borga fyrir flutning á börnum upp í þennan skóla. Þessir litlu hreppar, eins og þingmenn vita, hafa farið með nánast alla sína fjármuni, alveg upp í 90%, í það að borga fyrir skólaþjónustuna.

Ábyrgðin á þessu liggur í sölum Alþingis. Skilaboðin sem voru gefin hér í kringum það átak sem hæstv. félagsmálaráðherra hældi sér af í morgun voru þau að lýðræðislínan lægi við 50 manns, það ætti að viðhalda fyrirkomulagi eins og ég er að lýsa hér. Hvað gerir svo Jöfnunarsjóður sveitarfélaga? Hann borgar t.d. í þessu tilfelli flutninginn á börnunum yfir hlaðið á Grundaskóla á Akranesi upp í sveit, og börnin verða að sitja í bílunum og fara þessa leið í skólann sinn. Það er ekki næsti skóli, það er ekki skólinn sem er í 500 m fjarlægð. Nei, nei, það er skólinn sem er uppi í sveit. Á sama tíma heimta menn norður í Svarfaðardal að fá að skilja sig frá því sveitarfélagi sem samþykkt var að þeir yrðu hluti af vegna þess að þar var verið að leggja niður skóla og þurfti að keyra börnin eins og helminginn af þeirri leið sem ég er að lýsa í skóla inn á Dalvík.

Það vekur líka upp spurninguna: Hvernig stendur á því að lýðræðislínan liggur bara í aðra áttina? Af hverju eru menn á þeirri skoðun að lýðræðislínan við 50 íbúa markið liggi bara þegar um það ræðir að sameina eigi sveitarfélög en ekki þegar mönnum líkar illa og mundu vilja skiljast í sundur? Nei, það má náttúrlega ekki, það gæti ekki gengið, þá sjá menn hætturnar alls staðar. Einhver blokkin gæti tekið upp á því að heimta sjálfstæði sem segir auðvitað sitt um það hvers konar fyrirkomulag þetta er.

Ég verð að segja eins og er að ég get ekki verið kátur yfir þessu. Umræðan á fyrst og fremst heima hérna. Það er ekki hægt að sakast við fólkið í þessum litlu sveitarfélögum. Hún á heima hérna, þessi umræða. Hérna eiga skipulagsslysin upptök sín. Hérna liggur ábyrgðin á því að umræðan fyrir síðasta sameiningarátak snerist um það að þetta væri lýðræðið í landinu, lýðræðið væri fólgið í því að menn ættu að kjósa um þetta. Auðvitað er þetta ekki í lagi. Með þeirri aðgerð sem síðast var farið í er að mínu viti verið að fresta verulega umbótum á sviði sveitarstjórnarmála. Ég er svo sannarlega á þeirri skoðun að sveitarfélögin þurfi að stækka og eflast og þangað þurfi að flytja verkefni. Það þarf að vera hægt að sjá til þess að sveitarstjórnarmennirnir hafi möguleika til að sinna starfi sínu vel. Mörg þessara sveitarfélaga geta ekki einu sinni borgað fólki fyrir að standa í þessu félagslega starfi. Þau þurfa að eflast af svo fjölmörgum ástæðum, þessi sveitarfélög í landinu. Hvað byggðamál varðar er efling og stækkun sveitarfélaganna eitthvert alnauðsynlegasta málið sem hægt er að ganga fram í.

Það er alveg skelfilegt að menn skuli hafa klúðrað því tækifæri sem var fólgið í þessu átaki sem hæstv. ráðherra stóð fyrir og ríkisstjórnin. Það þýðir ekkert að koma í sali Alþingis og halda því fram að þetta hafi, jú, einhver áhrif eftir á. Jú, kannski hefur það einhver áhrif en það hefði verið hægt að gera miklu betur. Þetta seinkar þeim möguleikum sem voru fyrir hendi.

Sú leið sem hæstv. ráðherra nefndi, að lítil sveitarfélög ættu að kaupa þjónustu af öðrum sveitarfélögum, svoleiðis mætti ná einhverri hagræðingu, lýsir bara þeim vandræðagangi sem er uppi. Það vantar bein í nefið á þeim sem eiga að vera hér í forustu. Til hvers eiga sveitarfélög að hafa sjálfstæði og vera svona smá ef þau eru svo vesöl að þau geta ekki veitt þjónustuna? Hvernig ætla menn að ramma inn sveitarfélög í landinu ef það eru ekki þjónustusvæðin? Hvað á þetta að þýða? Ég segi alveg eins og er að mér finnst þetta ekki boðleg umræða, mér finnst þetta ekki koma til greina. Hér í sölum Alþingis eiga menn að bera ábyrgð á því að sveitarfélög í landinu geti veitt þjónustuna. Ef niðurstaðan er sú, sem virðist vera breið pólitísk sátt um, að þjónustuna eigi að auka, hún eigi að verða meiri, það eigi að flytja fleiri verkefni til sveitarfélaganna. Ef menn eru búnir að segja A þá eiga menn líka að segja B. En A og B á ekki að gilda um mismunandi sveitarfélög, A og B á að gilda um framkvæmd ríkisvaldsins til að gera sveitarfélögunum þetta kleift, ekki að búnar verði til tvær sortir af sveitarfélögum.

Ég er ekki þar með að segja að ekki megi byrja að flytja einhver verkefni til sveitarfélaga sem geta tekið við þeim en menn verða að hysja upp um sig buxurnar í þessu máli og sjá til þess að sveitarfélögin í landinu geti tekið við þeim verkefnum sem eiga að fara þangað. Úr því sem komið er tel ég að hæstv. félagsmálaráðherra eigi að setja af stað vinnu, setja niður nefnd, ekki nefnd sem eigi að skila strax heldur nefnd sem fái það verkefni að vinna vel og vandlega að landakorti fyrir sveitarfélögin í landinu. Það landakort ætti að leggja fyrir Alþingi eftir einhver ár, ég ætla ekki að segja hvenær. Umræðan þarf sennilega að halda svolítið áfram og menn þurfa svolítið að fá að gleyma dellunni sem var í gangi í kringum þetta sameiningarferli þar sem menn komu því kirfilega að hjá fólki að lýðræðið í landinu snerist um að menn væru 50 í sveitarfélögum.

Það er ekki eitthvað sem menn geta snúið til baka með á auga lifandi bragði en það er nauðsynlegt að umræðan fari fram um þessi mál og ég skora á hæstv. félagsmálaráðherra að láta nú verða af því að setja nefnd í það að hugsa sveitarfélögin út frá þjónustusvæðum, atvinnusvæðum, landafræðinni — það segir okkur að það getur þurft að styðja við bakið á veikustu sveitarfélögum sem þannig eru í sveit sett að þau geti ekki orðið nógu stór til að standa undir verkefnunum. En menn hljóta með glöðu geði að koma til liðs við þau sveitarfélög sem þannig stendur á fyrir.

En það er erfitt að sætta sig við að menn skuli þurfa að bíða svo lengi eftir endurbótunum sem raun ber vitni og ég segi fyrir mig að mér finnst full ástæða til að draga athyglina að því hve loppið ríkisvaldið hefur verið í þessum málum og hvar ábyrgðin liggur á því ástandi sem er. Ég held að við höfum glatað miklum verðmætum í gegnum tíðina vegna alls konar skipulagsslysa og vegna þess að fólk hefur ekki fengið þá þjónustu í sveitarfélögum sem það hefði annars fengið ef þau hefðu verið öflugri og sterkari. Við höfum verið að tapa í baráttunni um byggð á landsbyggðinni, m.a. vegna þess að sveitarfélögin þar hafa verið veik og vesöl og framtíðin þarf að vera betri. Í henni þurfa að vera öflug sveitarfélög og ég skora á hæstv. ráðherra að koma af stað verkefni sem heitir „Framtíðarsveitarfélag á Íslandi“. Það er ekki verkefni sem hægt er að ljúka alveg á næstunni, það þarf að taka sér tíma í það. Því miður hefur málið tafist.