132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[18:30]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki að hv. þingmaður gangi að því gruflandi að ég styð að sjálfsögðu stefnu Framsóknarflokksins og vinn eftir þeim ályktunum sem flokksþing hans samþykkir hverju sinni. Það liggur alveg fyrir. Hv. þingmaður þarf ekki að ganga að því gruflandi eins og ég segi, hæstv. forseti, hvort sem er í þessu máli eða öðrum.

Ég vil hins vegar nota tækifærið og ítreka þakkir mínar fyrir þessa góðu umræðu. Hér hafa komið fram hugmyndir um að hv. félagsmálanefnd taki þessa skýrslu til sérstakrar umræðu og ég fagna því. Ég vonast einnig til þess að við getum haft þennan háttinn á reglulega hér á Alþingi, hvort sem það verður nú á hverju ári eða annað hvort ár — en ég ítreka þakkir mínar fyrir góða umræðu.