132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Styrkir til ættleiðingar.

[15:22]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda heyra ættleiðingar almennt undir dómsmálaráðuneytið. Nú er það ekki svo að styrkir séu veittir til ættleiðinga samkvæmt okkar kerfi. Hins vegar hefur farið fram um það umræða alloft á Alþingi og einnig hafa þessi mál verið rædd í ríkisstjórn. Eftir þá athugun sem hefur átt sér stað í forsætisráðuneytinu á þessu máli núna nýlega, og tilefnið var það að málið var rætt í ríkisstjórn, þykir okkur einsýnt að komi til slíkra styrkveitinga, sem ég vil á engan hátt útiloka, eigi slík skipan mála að heyra undir félagsmálaráðuneytið og að aðilar sem eru að leita eftir aðstoð og fyrirgreiðslu í því sambandi eigi að leita þangað.