132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Styrkir til ættleiðingar.

[15:23]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svar hans, og svo árétta það að þetta er hvorki einkamál mitt og forsætisráðherra né einkamál nokkurs sérstaks flokks.

Ég ætla ekki út í efnislega umræðu um þetta mál en það er hins vegar ljóst að þetta þekkist alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum, þar njóta þeir styrkja sem ættleiða börn erlendis frá og þar eru þeir studdir til þess með fjárstyrk frá hinu opinbera. Það sem við erum að tala um í rauninni er að jafna aðstöðu þessa fólks miðað við þá foreldra sem eignast börn sín á þennan svokallaða eðlilega eða venjulega hátt. Áherslan er á jafnræði og ég tel þessu máli til framdráttar að fyrir liggi hvaða þingnefnd, eða réttara sagt hvaða ráðuneyti, eigi að veita efnislega úrlausn í málinu.