132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[16:34]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er hv. þingmaður farinn að tala gegn raforkulögunum, Evrópusinninn sem vill ganga í Evrópusambandið. Telur hann að við hefðum getað komist hjá því að innleiða þessa tilskipun? Það var bókstaflega ekki hægt og enn síður ef við hefðum gengið í Evrópusambandið.

Hvað varðar hækkun hjá mörgum vil ég líka spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji að það hafi verið rangt að útvíkka flutningskerfið þannig að suðvesturhornið tekur óneitanlega meiri þátt í jöfnun á raforkuverði. Eins og kemur fram í skýrslunni nemur þetta 2–4%. Það væri forvitnilegt að heyra hvort honum finnst það rangt. Þetta eru bara staðreyndir sem liggja fyrir.

Hvað varðar einstök fyrirtæki þá voru þau mörg á algjörum sérkjörum í gamla kerfinu, eitthvað sem hafði viðgengist í áratugi jafnvel. Nú er allt uppi á borðinu og orkufyrirtækin notuðu tækifærið um síðustu áramót þegar þau þurftu að fara í gjaldskrána og gjörbreyta henni eða fara í gegnum hana alla að afnema ýmis sérréttindi og sérkjör sem fyrirtæki höfðu.