132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[19:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi þrífösun á rafmagni: Bæði snarhækkaði rafmagnið á þeim aðilum sem búa við þetta einfasa rafmagn og auk þess ganga úrbætur miklu hægar en vilyrði voru gefin fyrir í skýrslunni og við höfum oft rætt hér á Alþingi áður. Þetta gengur mun hægar þannig að þetta leggst með tvennum þunga á þessa notendur.

Það er náttúrlega hæstv. ráðherra að meta það hvort hún er í fílabeinsturni. En ég las hér upp allmargar yfirlýsingar frá Samtökum atvinnulífsins, frá sveitarfélögum og frá verkalýðshreyfingunni um mat þeirra á framkvæmd hinna nýju raforkulaga, sem hæstv. iðnaðarráðherra segist svo ánægð með. Eðlilegra hefði verið að hæstv. ráðherra hefði lýst ákveðnum fyrirvörum og nefnt það sem ekki hefur gengið vel, jafnvel getið þess að hún væri döpur yfir því sem ekki hefur náð fram að ganga. Nei, hún lýsir yfir þvílíkri ánægju með þetta að ég kemst ekki hjá því að benda á áðurnefndar yfirlýsingar. Mér finnst hæstv. ráðherra, hvort sem hún er í fílabeinsturni eða inni í lokaðri stofu eða hvar sem hún vill vera, ekki vera í raunhæfu sambandi ef hún treystir sér til þess að blása algjörlega á athugasemdir atvinnulífsins og launþegasamtakanna, sveitarfélaganna og fleiri. Við vitum að þær eiga rétt á sér. (Gripið fram í: En hún er í fílabeinsturni.)

Það er svo sem hægt að tala um ýmislegt annað eins og einkavæðingaráhugann á Rarik og Landsvirkjun. Ég minni á það, frú forseti, hér í lokin að þetta var sagt þegar Landssíminn var hlutafélagavæddur, þá átti nú alls ekki að selja hann. Ég dreg það því alls ekkert í efa að hæstv. ráðherra meini það þegar hún segir það núna að það eigi ekki að selja Rarik, en hvað hæstv. ráðherra segir á morgun, það er svo aftur annað mál. Við þekkjum sögu Símans.