132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Stjórnarskipunarlög.

55. mál
[14:47]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er um mál að ræða sem ég er sannfærður um að meiri hluti þjóðarinnar styður. Ég er nokkuð viss um að ef þingmenn létu samvisku sína ráða, hver og einn, væri meiri hluti á þingi fyrir þessu máli en það er eins og að flokksaginn ráði mjög miklu, menn séu teymdir út í ógöngur og jafnvel stuðning við stríð í fjarlægum heimshlutum þvert á samvisku sína. Maður heyrir a.m.k. menn missa af og til út úr sér að þetta hafi verið óráð. Ég minnist þess t.d. að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi í einum þættinum haft orð um einhverjar efasemdir um þessar aðgerðir íslenskra stjórnvalda en síðan hafi hann mætt í þingsalinn og þá hafi verið búið að kúska hann til og eftir það sagði hann sína skoðun í takt við flokksforustuna.

Ég er á því að þetta sé mjög gott mál sem þingið ætti að samþykkja og það væri örugglega mikill léttir fyrir stjórnvöld að hafa svona samþykkt á bak við sig. Þegar erlendir sendimenn voldugra ríkja, svo sem eins og Bandaríkjanna, pressa viðkomandi ráðherra til að styðja eitthvað sem er vafasamt og jafnvel þvert á samvisku viðkomandi hæstvirtra ráðherra gæti verið mjög gott að hafa einmitt þetta skjól fyrir viðkomandi ráðherra sem gætu sagt: Þetta þarf að fara fyrir þingið. Það er eins og að menn hafi einfaldlega misst móðinn til að vera á móti þessu stríði, á móti ofureflinu, þessum voldugu ríkjum, þegar á hólminn var komið.

Við verðum líka að líta til þess að sumir hv. ráðamenn missa fótanna. Ég vil minnast sérstaklega á hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson af þessu tilefni, hann hefur fest í vitleysunni, jafnvel leitað að réttlætingu þessara mistaka sinna í staðinn fyrir að koma hingað í ræðustól og segja einfaldlega að hann hafi gert mistök, sjái eftir því og biðji þjóðina afsökunar á gjörðum sínum. Menn hafa ekki kjark til þess og það er mjög miður.

Það var t.d. sorgardagur hér þegar starfsmenn íslenska ríkisins fundu eitthvað sem þeir töldu að væru efnavopn. Þá var að heyra að ráðamenn þjóðarinnar væru sigri hrósandi yfir fundinum. Þetta er mjög vafasamt og ég er á því að samþykkt þessa frumvarps mundi auðvelda ráðherrum framtíðarinnar störf sín.