132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:18]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og glöggt kom fram í niðurlagi andsvars hv. þingmanns felur þetta frumvarp í sér hömlur við því eða vinnur gegn því að sjálfseignarstofnunum sé gert kleift að efna til nýrra námsgreina með skólagjöldum. Tilgangurinn með þessu frumvarpi er að í sjálfseignarstofnunum verði ekki hægt að bjóða upp á háskólamenntun með skólagjöldum nema viðkomandi námsgreinar séu kenndar í ríkisskólunum. Með þessu er auðvitað verið að torvelda háskólastarf, torvelda háskólamenntun og þarf ekki að fjölyrða um það.

Hitt þykir mér hálfbroslegt þegar hv. þingmenn Vinstri grænna eða Samfylkingarinnar brigsla mér um það að ég hafi ekki viljað styðja háskólanám á Akureyri og ég vil … (ÖS: Þú vildir það.) Það er hægt að yfirbjóða alla, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Þér er það að vísu ekki jafnlagið og þeim sem hóf þessa umræðu. Auðvitað er alltaf hægt að yfirbjóða menn en ég get fullvissað hv. þingmann um það að vel verður séð fyrir því að Háskólinn á Akureyri geti unnið á heilbrigðum grundvelli.