132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:28]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stend við fullyrðingar mínar varðandi ósannindi og vil ítreka að hér fór hv. þingmaður aftur með ósannindi. Hann talar um að fyrirspurn hafi verið til skammar og að fjármálaráðuneytið hafi endurprentað hana. Þetta eru hrein og klár ósannindi, alveg hrein og klár ósannindi. Hann hefur ekkert fyrir sér í þessu. Það rétta er að fyrirspurnin hafði verið vitlaust skrifuð upp. Ég vildi hafa spurninguna öðruvísi. Hún var endurprentuð vegna þess að það náðist ekki að svara henni í fyrra skiptið sem hún var lögð fram. Það er þingmanninum ekki sæmandi, þó svo ég viti ekki hvaða standard hann setur sjálfum sér, virðulegi forseti, að tala með þessum hætti.

Það liggur alveg hreint og klárt fyrir hver þróunin hefur verið í skattamálum. Ef menn í fullri alvöru halda — eins og hv. þingmaður, þó það muni að vísu mjög litlu, en látum það liggja á milli hluta. En þú getur ekki látið persónuafsláttinn fylgja launavísitölunni. Það segir sig sjálft. Við höfum náð þeim árangri að hækka laun verulega. Er réttlæti í því að skattprósentan fylgi því eftir? Ef launahjöðnun hefði orðið, segjum að laun hefðu lækkað, hefðu mál þá verið í góðu lagi? Segjum að laun hefðu lækkað í landinu, segjum að við hefðum haldið illa utan um stjórn landsmála. Ef þessi einstaklingur sem ég var að vísa í hefði verið með 200.000 kr. en færi niður í 100.000 kr. og borgaði þá ekki 16% heldur 2%, hefði það þá verið einhver sérstök gjafmildi hjá ríkisstjórninni? Hefði ríkisstjórnin þá lækkað skatta? Þessi málflutningur gengur ekki upp og það þýðir ekkert að vísa hér í aðila úti í bæ um að röksemdir skuli standa. Menn verða sjálfir að færa rök fyrir máli sínu. Það hefur hv. þingmaður ekki gert.