132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:36]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að veita afar stutt andsvar vegna síðustu orða hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um að hann hafi lesið í viðtali við mig að ég væri á móti þessu frumvarpi. Það er hreinasti misskilningur. Ég styð þetta, enda hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt áherslu á að smá og meðalstór fyrirtæki megi dafna og að starfsemi frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja megi vera sem mest. Þetta er liður í því að auðvelda frumkvöðlum og þeim sem vilja hefja nýjan atvinnurekstur að stofna fyrirtæki og félög. Þess vegna fagna ég þessu frumvarpi.

Í umræðum hér um allt annað mál, nefnilega stórfellda hækkun á ýmsum gjöldum sem ríkið innheimtir, t.d. á ríkisborgararétti fyrir nýja Íslendinga, gerði hins vegar samflokksmaður hv. fyrsta flutningsmanns þessa frumvarps, sjálfstæðismaðurinn hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, einhverjar athugasemdir við það að ég gerði athugasemdir við þessa hækkun upp á 700–800%. Það kom hins vegar ekki fram í máli mínu að ég væri á móti því að lækka þetta gjald. Ég fagna því þvert á móti.