132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:38]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því bara. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að gott er að eiga stuðning Vinstri grænna vísan og gott að varamaður Steingríms J. Sigfússonar sé sömu skoðunar og formaðurinn hvað þetta varðar. Ég hins vegar rak augun í það í blaðaviðtali að verið var að tala um það sem skelfilegan hlut að stjórnarþingmenn ætluðu að lækka gjöld á fyrirtækjum. Þess vegna nefndi ég það áðan. Ég fagna því að hér er bara um misskilning að ræða og að hér er stuðningur við málið. Það er hið besta mál. Þá getum við einangrað andstöðuna við hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Það er nú (Gripið fram í.) bara þannig. Við hlustuðum hér á málflutning hv. þm. Jóns Gunnarssonar áðan þar sem hann fann þessu máli allt til foráttu og fór síðan mjög rangt með í umræðu um skattamál. En við munum fylgja þeirri umræðu eftir og henni er hvergi lokið.