132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Útvarpslög.

79. mál
[14:14]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það að ég held að þessi breytingartillaga sé þess eðlis að hún eigi að ná fram að ganga. Ég held það. En það er sjálfsagt að velta upp öllum hliðum á málinu. Þetta beinir kannski sjónum að því sem mestu máli skiptir, þ.e. stöðu íslenskrar tungu í umhverfi margmiðlunar og miðlunarflóðs sem yfir börnin, unglingana og þjóðina dynur. Ungmenni nota náttúrlega netið í svo miklu meiri mæli og þeir horfa lítið á sjónvarpsstöðvarnar hefðbundnu. Ég held því að enginn skaði sé skeður þó þessum boðum og bönnum verði aflétt og sjónvarpsstöðvunum leyft að senda út viðburði eins og fótboltaleiki þó ekkert sé að því að beina þeim tilmælum til þeirra að þegar því er við komið þá fylgi einhver þjónusta við þá hlustendur sem skilja ekki tungumálið sem þulurinn talar. Mjög margt eldra fólk hefur ekki nægan málskilning til að geta fylgst með og það getur skemmt fyrir því þó svo það sé miklu skemmtilegra fyrir þá sem skilja tunguna að losna við stöðugt ofanítal íslensks þular sem getur gjöreyðilagt útsendinguna hvort sem um er að ræða Júróvisjón eða aðrar menningarútsendingar. Það er mjög misjafnt hvernig til tekst þó ég sé ekkert að dæma einstaka Júróvisjónþuli. Þeir hafa flestir verið fínir og ágætir, (Gripið fram í.) misjafnir. Hins vegar getur þetta skemmt fyrir.

Aðalmálið er að fækka boðunum og bönnunum og leggja ekki steina í götu fjölmiðla ef það er óþarfi. Það er sjálfsagt að taka inn í þetta að á íslenskum fjölmiðlum eigi að hvíla skyldur til að standa vörð um íslenskuna, og þeir gera það. En að öðru leyti held ég að þetta sé ágætt mál og við (Forseti hringir.) eigum að samþykkja það.