132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Samstarf Vestur-Norðurlanda um markmið í fiskveiðimálum.

297. mál
[11:36]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóri Blöndal þetta svar. Ég tel að ef slíkt stjórnsvæði yrði tekið upp, eins og ég hef hér verið að reifa og hv. þm. Halldór Blöndal er mér sammála um, væri miklu auðveldara fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið án þess að nokkur hætta væri á því að tapa einhverju af stjórn fiskveiðanna.

Ef Ísland gengi í Evrópusambandið í dag tel ég að það mundi ekki leiða til nokkurs slaka af okkar hálfu, við mundum engu tapa. Aðalsamningamaður Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum, sá sem mótaði núverandi sjávarútvegsstefnu þess, Klaus Grubbe, hefur sjálfur sagt í samtali við Evrópunefnd á formlegum fundi að hann teldi að aflaheimildir Íslendinga gætu hugsanlega aukist. Eftir stendur samt sem áður að ef við gengjum í Evrópusambandið, og þó við réðum öllu eftir sem áður, mundi yfirstjórn ákvörðunar um heildarkvóta á Íslandsmiðum formlega færast til Brussel. Það er erfitt fyrir marga að sætta sig við það. Þess vegna hefur þessi hugmynd verið sett fram, fyrst af núverandi hæstv. forsætisráðherra og undir hana tekið af Samfylkingunni m.a., að sett verði sérstakt fiskveiðistjórnsvæði á norðurslóðum og þau lönd sem undir það falli hafi algerlega stjórn á sínum fiskveiðum. Í krafti grenndarreglunnar innan ESB er þetta kleift.

Hv. þingmaður kann að vera mér ósammála um að þetta gangi samkvæmt Evrópusambandinu en ég vísa til þess að forsætisráðherra Svía, Göran Persson, hefur ekki bara munnlega lýst stuðningi við þetta heldur líka skrifað undir plagg þar sem hann telur að þetta muni ganga. Þess vegna fagna ég því að hv. þm. Halldór Blöndal skuli með þessum hætti stuðla að því að Ísland geti gengið í Evrópusambandið og um leið varið fiskveiðihagsmuni sína.