132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kjaradeila ljósmæðra.

[10:38]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Nú berast enn einu sinni fregnir af uppnámi í heilbrigðiskerfinu, í þetta sinn vegna deilu ljósmæðra við Tryggingastofnun ríkisins. Samningur milli ljósmæðra og TR rann út fyrir tveimur nóttum. Í kjölfarið hefur heimaþjónusta ljósmæðra við sængurkonur lagst af, sem hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Í fyrsta lagi mun þjónusta við mæður, börn og fjölskyldur minnka og jafnvel hverfa og nú þegar hefur þjónusta við mæður minnkað og eftirlit með félagslegum aðstæðum ungbarna horfið en það má alls ekki vanmeta.

Í öðru lagi mun sængurlega kvenna á Landspítalanum lengjast að meðaltali um tvo sólarhringa vegna þessa. Einn sólarhringur á sængurkvennadeild Landspítalans er dýrari en ein heil vika hjá starfandi ljósmóður í heimaþjónustu. Þetta ástand leiðir því af sér umtalsverðan kostnað fyrir hið opinbera.

Í þriðja lagi skerðir þetta ástand valfrelsi foreldra á mismunandi þjónustu en nóg hefur verið gert af því með niðurlagningu á hinni svokölluðu MFS-einingu.

Í fjórða lagi mun fæðingardeild spítalans fyllast hratt og auka álag á aðrar deildir hans, svo sem bráðamóttöku og barnaspítalann, þar sem skoðun og aðstoð ljósmæðra heima fyrir verður ekki lengur til staðar. Þetta mun aftur auka kostnaðinn í kerfinu í heild sinni.

Fyrra launatilboð ljósmæðra sem TR hafnaði hefði kostað ríkið um 2 millj. kr. á ári til viðbótar. Sé farið eftir kostnaðargreiningu þjónustunnar mun nýr samningur hafa í för með sér 15 millj. kr. viðbótarkostnað á ári eða aðeins um rúma milljón á mánuði. Þetta eru ekki háar upphæðir í ljósi þess kostnaðar sem verður til þegar þessi þjónusta leggst af eins og staðan er núna. Þetta er því enn eitt dæmið um það þegar hið opinbera lítur ekki á heildarmyndina og eins og venjulega líður almenningur, í þessu tilviki foreldrar og ungbörn, fyrir það. Mig langar því að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hver sé staðan í samningaviðræðum við ljósmæður og hvernig hann muni beita sér gegn því ófremdarástandi sem nú hefur skapast í heilbrigðiskerfinu og þeim aukna kostnaði sem þar myndast vegna þessa.