132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Heimildir lögreglu til að leita uppi barnaníðinga.

[11:56]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli mínu hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að lögreglu sé heimilt að beita tálbeitu ef svo ber undir þannig að það er engin spurning um að þetta er heimilt í réttarkerfi okkar þótt ekki gildi um það sérstakur lagabókstafur.

Ég vil í tilefni af þessum umræðum minna hv. þingmenn á að væntanlegt er frumvarp frá mér sem snertir þær greinar almennra hegningarlaga sem lúta að kynbundnu ofbeldi og þar verður sérstaklega fjallað um málefni er varða vernd barna fyrir slíku áreiti eða kynferðislegu áreiti hvers konar þannig að þingmenn hafa þá tækifæri til að ræða þau mál sérstaklega á vettvangi þingsins.

Einnig vil ég skýra þingmönnum frá því að það er líka væntanlegt frá mér frumvarp varðandi svokölluð tölvubrot, það er verið að taka mið af samningi Evrópuráðsins um glæpi á netinu m.a. og þar verða ákvæði sem eiga að auðvelda yfirvöldum að taka á málum og fylgjast með því ef menn misnota netið m.a. í því skyni að hafa ósæmilegt samband við börn. Hæstv. samgönguráðherra flutti í fyrra frumvarp sem var samþykkt á þingi um leiðir til þess að skrá notkun á netinu og heimildir til þess að geyma efni eða geyma slíkar tengingar og ég man ekki betur en stjórnarandstaðan hafi lagst gegn því frumvarpi á sama hátt og gert var líka þegar ég kom hér og var að ræða um greiningardeildina. Þá lögðust þeir þingmenn sem hér standa nú og telja að það eigi að beita þessum sérstöku rannsóknarúrræðum í einstökum málum a.m.k., gegn því að sett yrðu þau ákvæði í lög sem gert er ráð fyrir í lögunum um nýskipan lögreglumanna.