132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

141. mál
[14:31]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Hæstv. forseti. Afkoma sveitarfélaga er frekar slæm og hefur verið um nokkuð langa hríð og farið versnandi. Ég tek undir með nafna mínum að það er ágætt að auka sjálfsforræði sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa gengið fram í því síðastliðinn áratug að draga til sín aukin verkefni og semja um það við ríkisvaldið hvernig með skuli fara. Ég tel hins vegar að í mörgum tilvikum hafi sveitarstjórnarmenn gengið of hart fram af löngun sinni til að fá aukin verkefni og hreinlega samið af sér. Það virðist vera að svo hafi verið gert vegna þess að eftir því sem umsvif þeirra hafa aukist og þau hafa fengið meira til sín hefur staðan versnað. Einhvers staðar liggur eitthvað á milli hluta.

Þetta frumvarp gerir ráð fyrir því, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, að hækka hlut sveitarfélaga um 1% og hækka með því skattheimtu um 1%. Ég er ekki sammála þessari leið og ég tel að við eigum ekki að létta þeirri ábyrgð af ríkisvaldinu eða af sveitarfélögunum að semja sjálf um mál sín á milli. Það hlýtur að verða að finna réttan flöt á því hvaða verkefni ríkið á að hafa með höndum og hvaða verkefni sveitarfélög eiga að hafa með höndum, og þeir sem það ákveða verða jafnframt að koma sér saman um þá skiptingu sem verður á tekjustofnum til að hægt sé að halda þessu uppi. Ég held að það sé alveg ófrávíkjanlegt.

Það er fleira sem kemur til og veldur vandræðum sveitarfélaga. Ég get t.d. nefnt að þrátt fyrir að fasteignaverð hafi farið mjög hækkandi á þessu svæði og víða í nágrenninu og á stærstu þéttbýliskjörnum annars staðar, svo og á Austurlandi þar sem stóriðja kemur til, hafa tekjur sveitarfélaga víðs vegar í dreifbýli stórlækkað vegna þess að íbúðir hafa stórlækkað í verði og þau hafa ekki haft möguleika á að hafa jafnmiklar tekjur af fasteignasköttum og ella væri. Það er hlutur sem mætti skoða verulega. Því þrátt fyrir að tekjurnar af fasteignasköttunum séu svona lágar eru skyldurnar sem sveitarfélagið hefur við fasteignaeigendur nokkurn veginn þær sömu. Það þarf að annast fráveitumál, gatnagerð og allt það sem til þéttbýlisins heyrir. Svoleiðis að þarna er einn hlutinn.

Það var svolítið merkileg hugmynd sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kom með um tvær fjárhagsáætlanir. Að hafa hámark og lágmark. Út af fyrir sig er það athyglisverð spurning hvort íbúarnir ættu ekki að hafa eitthvert forræði í því sem gert verður. En eins og er er forræði íbúanna fólgið í kosningu manna til þessara hluta á fjögurra ára fresti. Þessi hugmynd er samt alveg þess virði að velta henni fyrir sér og það má segja að hv. þingmaður sé þarna að leggja til einhvers konar þjóðval og þjóðaratkvæði, svona í smærri stíl. Margir eru hlynntir því. En það er ekki nóg að gera fjárhagsáætlanir. Það þarf líka að gera þær sannar og réttar og sjá til að þær standist. Það hefur stundum verið svolítill misbrestur á því hjá sveitarfélögum líka.

En ég vildi nú, frú forseti, fyrst og fremst koma hérna upp til að lýsa því að ég tel þetta ekki rétta leið, að hækka skattana með þessu móti í heildina. Ég tel að sveitarfélögin og ríkið eigi að semja um hlutfall tekna sín á milli eftir því hvaða þarfir eru skilgreindar hvorum megin. Hins vegar gæti ég rætt heilmikið um skattamál yfir höfuð. Frjálslyndi flokkurinn hefur ákveðna stefnu í skattamálum. Við höfum haldið því fram að persónuafsláttur ætti að vera hærri. Við höfum haldið því fram að tekjutengingar t.d. við maka séu of miklar. Við höfum haldið því fram að jaðarskattar séu allt of miklir og við höfum haldið því fram að aldraðir eigi að hafa möguleika á atvinnufrelsi, þ.e. án þegnskylduvinnu. Sú umræða hefur farið fram víða í þjóðfélaginu og hér líka að tekjulágir aldraðir einstaklingar sem eru á bótum frá Tryggingastofnun fá um 1.800 kr. af hverjum 10.000 kr. sem þeir vinna fyrir, umfram þessar bætur sínar. Minnsta kosti þær fyrstu. Þetta er alvarlegt mál og það mætti taka umræðu um skattamál á þessum grunni. En ég vildi koma þessum sjónarmiðum á framfæri.