132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[16:04]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að Íbúðalánasjóður væri sjálfbær. Það er ekki alveg rétt, hann fær ríkisábyrgð á útlán sín. Hann er með ríkisábyrgð á öllum sínum skuldum þannig að hann nýtur þess í því að fá lægri vexti. Hann er því ekki sjálfbær að því leyti.

Ef bestu veðin og bestu lántakendurnir eru teknir út úr Íbúðalánasjóði sagði hv. þingmaður að eftir sætu lakari veð og lakari kjör og það mundi lenda á skattgreiðendunum. Þessi lakari veð og lakari kjör lenda á einhverjum. Núna lenda þau væntanlega á þeim sem eru lántakendur við hliðina á þeim eða á ríkissjóði með beinum eða óbeinum hætti, það breytir því engu. Ég vil að menn horfist í augu við að ef það kostar eitthvað að veita þessi félagslegu lán þá á það að kosta beint, ekki einhvern veginn óbeint, í gegnum einhverja aðra.

Varðandi pólitískt kjörna stjórnendur banka í eina tíð og biðstofurnar og allt það, ég ætla ekki að líkja því saman, frú forseti, hvað það er nú skemmtilegra að fá tilboð þar sem leitast er við að lána manni með lágum vöxtum í samkeppni en að þurfa að standa í biðstofum eftir 50 þús. kr. víxli og vonast til að pólitískt kjörinn bankastjóri þekki mann og viti í hvaða flokki maður er.