132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Uppbygging héraðsvega.

310. mál
[16:39]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Dreifð byggð í víðlendum hreppum, það er rétt. Sum af þeim skjölum sem koma hér fram í frumvarpinu eru frá slíkum sveitarfélögum. Önnur eru frá Þingeyjarsveit, sem er enginn jaðarhreppur, og hér er sveitarfélagið Ölfus, sem er nánast nágranni okkar á höfuðborgarsvæðinu okkur til meiri eða minni ánægju eftir atvikum. Ég held að ef þetta gerðist yrði auðvitað að tryggja að fjármagn kæmi til sveitarfélaganna. Kannski eru sveitarfélögin núna of lítil sum hver og jafnvel flest til að anna þessum verkefnum. Þau þarf auðvitað að stækka og efla.

Ég held að þessum málum væri betur komið í höndum sveitarfélaganna. Það sést ágætlega á þessu frumvarpi að sérstaklega mundi það bæta pýramídaveldið í vegamálum og einveldisástandið. Hér eru lagðar fram bænaskrár undirritaðar af hreppstjórnarmönnum eða jafnvel bændum í einstökum sýslum. Þær eru til samgönguráðherra og þær eru til þingmanna sem síðan eiga að sjá um þessi mál með einhverjum fornum fyrirgreiðsluhætti eins og hv. þm. Jón Bjarnason gerir, og láir honum svo sem enginn vegna þess að þannig er nú kerfið. Ég held að það væri miklu heilbrigðara að menn sæju um þetta sjálfir í héraði og væru ekki sífellt á hnjánum gagnvart valdinu í þessum efnum. Ég vænti þess að hv. þm. Jón Bjarnason sé mér sammála um þetta.