132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Brottfall úr framhaldsskólum.

369. mál
[13:01]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Aðeins varðandi réttu námsskipunina þá er þar ekkert samhengi á milli breytts námstíma og skerðingar náms. Við verðum iðulega að huga að inntaki námsins og ég bendi m.a. á að það stúdentspróf sem var veitt fyrir 15 til 20 árum er að mínu mati jafngilt þótt námstími þeirra sem þeim luku hafi verið eitthvað skemmri en þeirra sem nú eru að útskrifast. Þetta snýst alltaf um inntak námsins og við verðum að nýta þær breytingar sem við höfum gert á skólakerfinu á undanförnum árum til hagsbóta fyrir nemendur og samfélagið.

Það er líka ljóst að ef tekið er tillit til endurkomu nemenda, ef svo má að orði komast, inn í framhaldsskólann er brottfallið frá 16 ára til 19 ára aldurs 7,5%, að teknu tilliti til þessara endurkomunemenda, en tæplega 8%, það hækkar og eykst, ef tekið er tillit til 20 ára aldurs, 16–20 ára.

Síðan vil ég undirstrika það sem ég sagði áðan að það eru fleiri þættir sem við þurfum að skoða og þá sérstaklega þessa þætti sem snúa að lesblindunni, við þurfum að fara gaumgæfilega yfir þá þætti til þess að auðvelda íslenskum ungmennum sem eiga við lesblindu að stríða að komast á nokkuð eðlilegan hátt í gegnum skólakerfið, auðvelda þeim þá göngu.