132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

510. mál
[13:11]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Þetta er afar athyglisverð og góðra gjalda verð fyrirspurn frá hv. þm. Birki J. Jónssyni og sérstaklega í ljósi þess að árið 1999 bar hv. þm. Jón Bjarnason mjög svipaða fyrirspurn fram til menntamálaráðherra. Og hvar erum við stödd sjö árum seinna, árið 2006? Einmitt í sömu sporum. Það er einhver nefnd sem er að skoða málið en á sem betur fer að skila niðurstöðu þann 1. maí og ég ætla rétt að vona, og auðvitað er allt sem bendir til þess, að sú niðurstaða verði jákvæð. (Menntmrh.: Ertu fylgjandi göngum?) Að sjálfsögðu er ég fylgjandi göngum en við erum ekki að tala um göng hér, hæstv. menntamálaráðherra, þó að þau skipti miklu máli og undirstriki þessa þörf á skólanum.

Ég tek einnig undir það að gera þarf átak í því að byggja framhaldsskóla á landinu, það er hárrétt. Í síðustu viku var einmitt lögð fram þingsályktunartillaga um stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ.