132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

510. mál
[13:13]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Framhaldsskólanám er nú orðið hluti af hinu almenna námi. Okkur þótti nokkurs konar viðburður á sínum tíma þegar skólaskyldan var lengd til 16 ára aldurs. Núna er sjálfræðisaldurinn kominn í 18 ár og því mjög eðlilegt að fræðsluskyldan sé lengd að 18 ára aldri. Framhaldsskólinn ætti í rauninni að vera hluti af hinu almenna grunnnámi og ætti þess vegna að vera í hverri heimabyggð.

Stefna Vinstri grænna er alveg klár. Hún er sú að nemendur eiga að eiga kost á því að sækja framhaldsskólanám heiman að frá sér svo fremi nokkur kostur sé. Það er dýrt að fara að heiman til náms og þetta brýtur upp félagslegar einingar samfélagsins. Brýnt er að framhaldsskóli verði við utanverðan Eyjafjörð og allir þingmenn kjördæmisins hafa nú flutt það mál þannig að ég skil ekki hvað hv. þingmaður þarf að spyrja hæstv. ráðherra. Allir þingmenn allra flokka í Norðausturkjördæmi hafa flutt þetta mál.

Vinstri grænir hafa flutt mál um framhaldsskóla í Mosfellsbæ en það gengur ansi hægt að koma því máli áfram. Ég held að við þurfum bara að fá Vinstri græna í stól menntamálaráðherra, frú forseti.