132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Útræðisréttur strandjarða.

491. mál
[14:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það er að mörgu leyti sorglegt að heyra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hæstv. ráðherra taka hér til máls, flokks sem einhvern tíma kenndi sig við einkaframtak að hann skuli vera hér í þeim sporum að meina mönnum að bjarga sér, meina mönnum að róa út frá jörðum sínum og reyna að koma í veg fyrir að þeir nýti eignarlönd sín.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þessu máli má skipta í tvennt: Annars vegar réttinn til að nýta eignarlöndin, 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði og síðan rétt til að sækja enn lengra, frá fornu fari. Ég er á því að það sé lágmarkið að Sjálfstæðisflokkurinn virði að bændur geti veitt í fjöruborðinu hjá sér. Mér finnst það vera alveg út úr öllu korti að menn séu að bera við einhverju kerfi, kvótakerfi, einhverju haftakerfi til þess að meina mönnum að nýta eignarlönd sín. Mér finnst það með ólíkindum. Þetta kerfi var fundið upp til fiskverndar og til að byggja upp fiskstofna en raunin hefur verið önnur. Niðurstaðan er sú að þorskaflinn er helmingi minni nú en fyrir daga kerfisins þannig að árangurinn er enginn og það á að nota þetta kerfi sem afsökun í að berja á fólki sem vill bjarga sér í hinum dreifðu byggðum landsins. Mér finnst það vera ömurlegt spor sem hæstv. ráðherra er í.

Hann nefnir hér að kvótinn hafi verið bundinn á fiskiskip. Þetta er alveg með ólíkindum og það má velta því upp vegna þess að við erum að ræða landbúnaðarmál hvort kvótinn í landbúnaði eigi að vera bundinn traktorum. Eigum við ekki að fara að tala um þessi mál af einhverri skynsemi og reyna að finna einhverja lausn á þessu í stað þess að vera bundinn í kvóta bæði á höndum og fótum?