132. löggjafarþing — 80. fundur,  8. mars 2006.

Boðun þingfundar.

[18:17]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil bara koma því hér að að mér þykir góð ráðstöfun hjá hæstv. forseta að leyfa þessa umræðu í kvöld. Ég var sjálf á forsetastóli í gær og hlustaði á ræðurnar. Mér þóttu þær heldur einkennilegar þar sem lesið var endalaust upp úr umsögnum. Lítil efnisleg umræða má segja að hafi verið um málið nema hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni sem mér þótti afskaplega gott að hlusta á. (Gripið fram í.) Ég held að þingmenn ættu þá bara að fagna því að fá að tala endalaust um þetta mál. Sumir hafa talað hér í fimm klukkutíma, aðrir einn og hálfan til þrjá og margir eru enn á mælendaskrá og aldrei að vita nema við önnur setjum okkur á mælendaskrá ef við teljum að við komumst einhvern tímann að. En stjórnarandstaðan ætlar að einoka þennan ræðutíma algjörlega með því að halda hér maraþonræður (Gripið fram í: … þingflokkana.) sem ég held að hv. þingmenn (Gripið fram í.) græði ekki mikið á, að tala í fimm klukkutíma og halda uppi málþófi.

Ég held að þetta hafi verið góð ráðstöfun hjá forseta og tel að það sé gott að þeir sem vilja ræða þetta mál geti bara rætt það hér út í nóttina. Verði þeim að góðu. (SigurjÞ: Farin heim?)