132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[12:13]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er innilega sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Ég held að það hafi orðið svolítil viðhorfsbreyting til norræns samstarfs á síðustu árum. Ég kannast við það og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem hefur lengri þingreynslu en ég, og þekkir þessa hluti lengra aftur í tímann, veit að menn töluðu norræna samstarfið svolítið niður, að það hefði ekki það gildi sem það hefði haft eftir að Norðurlandaþjóðirnar þrjár gengu í Evrópusambandið. En menn eru farnir að sjá það æ betur að vegna þess þurfum við meira hvert á öðru að halda og auðvitað er ríkur áhugi á því hjá þessum þremur Norðurlandaþjóðum að Ísland og Noregur gangi sömu leið. Ég spái því, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að það verði í framtíðinni. Ég treysti mér ekki til að setja niður einhverjar dagsetningar eða ár í þeirri spá minni en hvort sem af því verður eða ekki þá skiptir þetta samstarf okkur óskaplega miklu máli vegna þess hve EES-samningurinn hefur mikil áhrif hér á landi.

Svo get ég líka nefnt öryggisráðið í þessu samhengi. Við erum nú í fyrsta skipti að taka þátt í þeim hring og njótum fyrst og fremst til þess stuðnings hinna Norðurlandaþjóðanna. Þegar maður fer síðan að velta því fyrir sér hvernig þetta horfir við — það er nefnilega oft þannig að við höfum svolítið gengið út frá þeim árangri sem norrænt samstarf skilar sem sjálfgefnum, en við vildum ekki vera án alls þess á nokkurn hátt. Ég nefni sem dæmi alla Íslendingana sem stunda nám á hinum Norðurlöndunum, ekki síst í Danmörku, og útrás íslenskra fyrirtækja. Ekkert af þessu er sjálfgefið. Þetta er árangur af því mikla samstarfi sem við höfum átt við hinar Norðurlandaþjóðirnar á liðnum árum. Ég vænti þess að áframhald verði á því og menn fari að viðurkenna mikilvægi norræns samstarfs miklu víðtækar en ég og hv. þingmaður gerum hér nú.