132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[13:29]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns vil ég þakka fyrir þessa skýrslu, sem að mestu leyti er mjög fróðleg, og þær umræður sem hér hafa verið ásamt innleiðingu hæstv. ráðherra um málið.

Hvað varðar samstarf Norðurlandanna á ýmsum sviðum vildi ég helst gera að umræðuefni starf sem snýr að hluta til að umhverfismálum, og tengist þar af leiðandi hæstv. ráðherra sem umhverfisráðherra, en einnig að því er varðar samstarf Norðurlandanna og framtíðarhagsmuni ríkja við Norður-Atlantshaf. Þetta snýr, eins og ég lít á málið og vil reifa það hér, að lofti og hafi, að veðurkerfi veraldar, kannski hægt að orða það í einu orði, að veðurkerfinu.

Eins og kemur fram á bls. 32 í skýrslunni starfa vinnuhópar, m.a. samstarfsnefnd um loftslagsmál, á vegum umhverfis- og orkumálaráðuneytanna. Það kemur víða fram í skýrslunni, m.a. á bls. 30 er minnst á vinnunefnd um umhverfi hafs og lofts og um verkefni sem snúa að slíkum málum.

Á bls. 29 segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisráðherrar lögðu einnig áherslu á að norrænt innlegg komi inn í tillögur ESB um heildstæða stefnumótun um málefni hafsins.“

Þetta málefni skiptir okkur Íslendinga afar miklu máli og reyndar allar þjóðir við norðanvert Atlantshaf. Samspil lofts og lagar hefur mikil áhrif á veðurkerfi og þar með búsetuskilyrði á norrænum slóðum. Við búum að því, Íslendingar, ásamt norrænu þjóðunum, að Golfstraumurinn fellur hér að landinu sem heitur yfirborðsstraumur og vermir þar af leiðandi landið okkar og gerir það að verkum að veðurkerfi okkar er eins og það er. Hið sama á við um Færeyjar, Noreg, Danmörku og Norðvestur-Rússland, ásamt Grænlandi, því að hluti af straumnum gengur þangað yfir, að þessi straumur hefur veruleg áhrif á búsetuskilyrði í norðanverðri veröldinni og þar með á veðurkerfið allt og á umhverfismál, eins og þau koma fyrir í heilu lagi.

Það hefur verið orðað svo að hjarta þessa mikla straums, Golfstraumsins, væri hér norður af Íslandi þar sem hinn hlýi sjávarmassi sykki til botns þegar straumurinn kólnaði og gengi síðan til suðurs, breytti algjörlega um stefnu sem djúpstraumur með botninum, annars vegar í Grænlandssundi milli Íslands og Grænlands og hins vegar austan Íslands sem djúpstraumur milli Íslands og Færeyja og svo aftur á milli Færeyja og Hjaltlandseyja. Þetta straumakerfi gengur svo suður allt Atlantshaf og þaðan suður fyrir Afríku og yfir í Indlandshaf o.s.frv., leitar síðan aftur til yfirborðsins og kemur sem heitur straumur til baka. Þetta er hið mikla kerfi Golfstraumsins sem gerir það að verkum að við búum hér við okkar aðstæður.

Ég var á síðastliðnu hausti viðstaddur stutta ráðstefnu vestur á Ísafirði þar sem verið var að kynna hugmynd að því að stofna til markverðra rannsókna á breytingum á veðurkerfi veraldarinnar, þ.e. samspili strauma og varmaskiptingu lofts og lagar. Ég tek þetta hér upp, hæstv. forseti, vegna þess að vikið er að þeim málum í þessari skýrslu og það vill svo til að hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda er jafnframt umhverfisráðherra hér á okkar landi og hefur vafalaust mikinn áhuga á þessum málum heildstætt eins og þau eru nú til umræðu í veröldinni.

Því var hreyft á þessum fundi vestur á Ísafirði að þar sem Vestfirðirnir eru nánast eins nálægt Golfstraumnum og hægt væri, annars vegar þegar hann fellur til norðurs sem hlýr sjór og hins vegar þegar hann fellur sem straumfoss með botninum suður Grænlandssund, væri upplagt að efna til rannsóknastarfs sem gæti átt höfuðstöðvar sínar í því byggðarlagi, Ísafirði. Þaðan væri mjög heppilegt að stunda rannsóknir m.a. í Grænlandssundinu og við ströndina á streymi straumsins, breytingum hans og einkanlega hreyfingu djúpsjávarins sem menn vita ákaflega lítið um.

Sjálfsagt má leiða líkur að því að hin voldugu veldi í veröldinni, eins og Bandaríkjamenn og Sovétmenn, viti talsvert mikið um þennan straum í gegnum rannsóknir sínar, sem snúa þá að stríðstækni þeirra, þ.e. hvernig kafbátar nýta sér djúpstrauma til að ferðast um heimshöfin o.s.frv. Vafalaust er mikil þekking til þó hún sé ekki opin og aðgengileg. En það kann nú að vera að það opnist á næstu árum ef áfram verður friðvænlegt hér á norðurslóðum.

Ég tek þetta hér upp og orða þetta við hæstv. ráðherra og spyr að hverju menn hafi verið að vinna, sérstaklega í þessum málum. Sérstaklega spyr ég hæstv. ráðherra að því hvort hann vildi taka þessi mál upp eins og ég hef verið að nefna þau, m.a. til að styðja við það að slíkri rannsóknastofnun yrði hugsanlega komið á fót á Vestfjörðum í samstarfi við Norðurlöndin og þar mætti leita eftir fjármagni og stuðningi við slíkt verkefni. Þetta snýr að því sem talið er hér upp á bls. 28 í kaflanum um umhverfismál, þar sem talað er um fjögur meginefni, þar sem talað er um hafið, verndun náttúrunnar, sjálfbæra framleiðslu o.s.frv.

Þetta tengist auðvitað málunum á mörgum sviðum. En fyrst og fremst finnst mér það skipta miklu máli fyrir okkur sem þjóð, að gera okkur gild í þessari umræðu og þessari vísindaöflun. Ég tel að það væri hægt að stuðla að því með því að setja slíka stofnun á fót, leita eftir því við önnur Norðurlönd að þau væru tilbúin að styðja slíka stefnumótun og slíka rannsóknarmiðstöð þar sem Norðurlöndin sameinuðust um að reyna að efla rannsóknir á þessum mikla straumi, Golfstraumnum, sem ég tel, og auðvitað fjöldamargir aðrir sem hafa miklu meiri þekkingu en ég, að sé einn meginkrafturinn í veðurkerfi veraldarinnar.

Mér fannst það mjög áhugavert, hæstv. forseti, að hlusta á þetta erindi vestur á Ísafirði og vildi þess vegna koma hér upp við þessa fróðlegu umræðu, sem farið hefur fram í morgun um þessa ágætu skýrslu, og beina nokkrum orðum til hæstv. ráðherra. Ég óska eftir því að hún fari nokkrum orðum um það sem ég hef nefnt hér, að efla rannsóknir á þessu sviði hér á landi. Ég spyr hvort ráðherrann mundi þá taka undir tillöguna sem reifuð var vestur á Ísafirði á síðastliðnu hausti, að þar væri tilvalið að leggja upp með slíkt starf og byggja það upp sem alþjóðastarf sem önnur ríki kæmu að og aðrar stofnanir tengdust. Ekki yrði um einkaframtak okkar Íslendinga að ræða heldur byðum við fram þessa staðsetningu og þann vilja stjórnvalda að vinna að þessum málum, vilja til þess að reisa hér slíkt útver rannsókna sem sneri að því að rannsaka þennan þátt í veðurkerfi veraldarinnar. Ég held að það skipti nú ekki litlu máli fyrir framtíðina hvernig okkur tekst að afla vitneskju um það hvað muni fylgja þeim breytingum sem við vissulega sjáum varðandi hitafar jarðar. Menn tala um bráðnun Grænlandsjökuls o.s.frv, hækkandi sjávarborð, öðruvísi straumkerfi, jafnvel að Golfstraumurinn muni stöðvast eða verða mjög veikur hingað norður eftir, eins og breskir vísindamenn hafa sett fram.

Ég óska sérstaklega eftir því að hæstv. ráðherra hugleiði þessi mál og taki þau upp á sína arma og leggi þeim sérstakt lið til að við getum gert okkur gildandi í þessum verkefnum í framtíðinni.