132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norrænt samstarf 2005.

574. mál
[14:28]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðsins kynni ég skýrslu Íslandsdeildarinnar um norrænt samstarf fyrir árið 2005. Mig langar að öðru leyti að vísa til skýrslunnar sem finnst í heild á þskj. 832 og þar er mjög ítarlega fjallað um störf Íslandsdeildarinnar.

Í skýrslunni er líka fjallað um starfsemi nefnda Norðurlandaráðs, fundi ráðsins, sameiginlega fundi með Eystrasaltsráðinu á Norðurlandaráðsþinginu og um skipan ráðsins og fyrirkomulag um starfsemi og samstarf ráðsins og ráðherranefndarinnar. En því starfi hefur núna hæstv. samstarfsráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, gert grein fyrir.

Í upphafi ársins 2005 skipuðu Íslandsdeildina, auk þeirrar sem hér stendur, sem var formaður, hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir varaformaður, Rannveig Guðmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Sigurður Kári Kristjánsson. Síðan var kosin ný Íslandsdeild í byrjun október við upphaf 132. þings og þá var eina breytingin sem varð á skipan aðalmanna sú að Kjartan Ólafsson tók við af Sigurði Kára Kristjánssyni. Um varamenn í Íslandsdeild, bæði þá og síðar, vísa ég til skýrslunnar.

Á fundi Íslandsdeildar 5. október var sú sem hér stendur kosin formaður aftur, hv. þm. Drífa Hjartardóttir var kosin varaformaður og Stígur Stefánsson alþjóðaritari hefur gegnt starfi ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á því starfsári sem hér er til umræðu.

Íslandsdeildin kom saman til fundar fjórum sinnum á árinu og að venju var þátttaka okkar í fundum á þingi Norðurlandaráðs undirbúin á þeim fundum. Auk þess voru fjölmörg mál á dagskrá og svo fór þar auðvitað fram gagnkvæm upplýsingamiðlun meðlima Íslandsdeildar um stöðu mála í einstökum nefndum og vinnuhópum Norðurlandaráðs.

Á þessum fundum var líka rætt ítarlega um undirbúning og skipulag 57. þings Norðurlandaráðs sem fram fór í Reykjavík 25.–27. október, en samkvæmt venju og hefð er Norðurlandaráðsþing haldið hér á landi fimmta hvert ár. Við ræddum síðan töluvert um eftirfylgni við tilmæli Norðurlandaráðs, sem er nýtt, en eftir breytingarnar sem gerðar voru á skipulagi ráðsins 2002 hefur verið lögð aukin áhersla á nánari tengsl milli þjóðþinga ríkjanna og á hlutverk landsdeilda við að fylgja tilmælum Norðurlandaráðs eftir heima í héraði. Við tókum upp það nýmæli á þessu starfsári að þýða tilmæli Norðurlandaráðs á íslensku og senda þau fastanefndum Alþingis en hugmyndin á bak við þá ráðstöfun er sú að fastanefndirnar fái tilmælin, ef þær vilja, sér til upplýsingar um það starf sem fram fer á Norðurlandaráðsþinginu. Með þessu er fastanefndunum, hverri á sínu málefnasviði, jafnframt gefinn kostur á að fylgja eftir þeim málum sem rædd eru og unnið er að á vettvangi Norðurlandaráðs.

Íslandsdeildin hélt einn fund með Sigríði Önnu Þórðardóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda, og fór hann fram í október á síðasta ári. Við héldum þann fund í aðdraganda Norðurlandaráðsþingsins í Reykjavík. Þar var fyrst og fremst verið að ræða þingið sjálft, dagskrá þingsins, skipulag og helstu umræðuefni.

Íslandsdeildin fundaði líka með upplýsingaskrifstofu Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndinni þar sem farið var yfir skipulag fjölmiðlamála á þinginu í Reykjavík. Þar var m.a. rætt hvernig vekja mætti athygli fjölmiðla og tryggja í tengslum við þingið sem mesta og besta umfjöllun um norræn málefni í það heila.

Mig langar, frú forseti, að víkja nokkrum orðum að nefndum Norðurlandaráðs og segja stuttlega frá starfi forsætisnefndar, sem er sú nefnd sem ég á sæti í, og mig langar líka af því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir er utan þings að fjalla í nokkrum orðum um störf forseta Norðurlandaráðs á árinu. Hvað varðar störf annarra nefnda vísa ég í skýrsluna og jafnframt geri ég ráð fyrir að þeir hv. þingmenn sem eiga sæti í þeim nefndum, en málefnanefndirnar eru fimm, komi hér á eftir og fjalli um starfið innan þeirra.

Kosið var í embætti og hinar fimm málefnanefndir fyrir starfsárið 2005 árið áður, eða á 56. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í nóvember 2004. Á þeim tímapunkti var hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kosin forseti Norðurlandaráðs og sú sem hér stendur varaforseti og við höfum síðan átt sæti í forsætisnefnd Norðurlandaráðs.

Í efnahags- og viðskiptanefnd sátu Drífa Hjartardóttir sem formaður og Steingrímur J. Sigfússon sem varaformaður, í velferðarnefnd Arnbjörg Sveinsdóttir, í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Sigurður Kári Kristjánsson, en hann átti sæti í borgara- og neytendanefnd og einnig í eftirlitsnefnd. Með því að Kjartan Ólafsson kom inn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs í stað Sigurðar Kára Kristjánssonar tók hann sæti í þeim nefndum sem Sigurður Kári Kristjánsson hafði setið í.

Starfið fer fram víðar en í þessum málefnanefndum Norðurlandaráðs en auk nefndarsetu þar áttu meðlimir Íslandsdeildar sæti í vinnuhópum á vegum þess auk þess sem þingmenn hafa setið í stjórnum stofnana og ráða sem þeir eru tilnefndir í af Norðurlandaráði. Rannveig Guðmundsdóttir gegndi þannig stöðu áheyrnarfulltrúa Norðurlandaráðs hjá þingmannanefnd um norðurskautsmál, ég gegndi formennsku í stjórn Norræna menningarsjóðsins, Þuríður Backman sat í stjórn norrænnar samstarfsmiðstöðvar um málefni fatlaðra og Steingrímur J. Sigfússon átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs hverju sinni. Allar landsdeildirnar og allir flokkahóparnir eiga fulltrúa í forsætisnefnd, en hlutverk forsætisnefndar er öðru fremur að annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni og hún hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við þing ráðsins.

Forsætisnefnd hélt sjö fundi á árinu en auk þess fóru fram sameiginlegir fundir forsætisnefndar og ýmissa annarra aðila, m.a. hefðbundnir fundir nefndarinnar með norrænu forsætisráðherrunum og utanríkisráðherrunum á þingi Norðurlandaráðs. Rannveig Guðmundsdóttir stýrði starfi á öllum þessum fundum og jafnframt stýrði hún fundum nefndarinnar sem forseti Norðurlandaráðs.

Forsætisnefnd fundaði hér á landi 7.–8. mars á síðastliðnu ári í boði Íslandsdeildar, samkvæmt þeirri venju að forsætisnefnd haldi marsfund sinn í því landi sem fer með embætti forseta hverju sinni. Auk þess var gengist fyrir málstofu um jafnréttismál á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sem er eins og við vitum 8. mars, en hún var haldin að frumkvæði íslensku fulltrúanna, þ.e. okkar í Íslandsdeild Norðurlandaráð. Á henni var fjallað um þrjú þemu frá norrænum sjónarhóli: Konur og atvinnulíf, konur og stjórnmálin, og karla og jafnréttisbaráttuna.

Af helstu málum er forsætisnefnd fjallaði um á árinu fyrir utan hefðbundin störf langar mig að nefna það sem á vissan hátt bar nokkuð hátt og það voru viðræður við forseta norrænu þjóðþinganna um stöðu og framtíð norræns samstarfs en þær umræður höfðu staðið yfir frá því í maí árið 2004. Í þessum viðræðum var ýmislegt rætt um það hvernig hægt væri að styrkja norrænt samstarf. Þar var m.a. rætt um að efla tenginguna milli starfsins sem fer fram í Norðurlandaráði og þess starfs sem fer fram í hverju þjóðþinganna. Þá voru ræddar leiðir til að tryggja skilvirkni í starfi Norðurlandaráðs auk þess sem hlutverk ráðsins í þingmannastarfi í Norður-Evrópu var skoðað og komist að niðurstöðu um hvert það skyldi vera.

Til að efla tengslin við þingin var ákveðið að bjóða forsetum þjóðþinganna til árlegra viðræðna um forgangsröðun í starfi ráðsins til að tryggja betur samhæfingu. Jafnframt var ákveðið að fulltrúum þingnefnda þjóðþinganna yrði boðið á nefndarfundi á vegum Norðurlandaráðs þegar hægt væri að koma því við og þegar tilefni þætti til en samhliða þeirri ákvörðun var ákveðið að fækka hinum stóru sameiginlegu fundum sem áður höfðu verið.

Loks var ákveðið að leitast við að tryggja að nefndarseta þingmanna í Norðurlandaráði svari til nefndarsetu þeirra í þjóðþingunum, sem getur verið mjög erfitt í framkvæmd því að þar þurfa menn fyrst og fremst að horfa til þess hvernig menn skiptast eftir flokkahópum, eftir pólitík, eftir landsdeildum og síðan þarf að taka tillit til kynjahlutfallsins. Því til viðbótar er reynt að hafa þetta þannig að menn sitji í nokkuð sambærilegum nefndum á vettvangi Norðurlandaráðs og þeir gera á sínu eigin þjóðþingi.

Í janúar voru flóðin í Suðaustur-Asíu, sem urðu í lok árs 2004, til umræðu á fundum forsætisnefndar. Það var niðurstaða nefndarinnar að reynslan af þeim náttúruhamförum sýndi að hægt væri með betra skipulagi að bæta norræna samvinnu um neyðarhjálp þegar hamfarir verða annars staðar í heiminum og hættuástand skapast. Það er litið svo á að þetta muni gagnast Norðurlandabúum hvar sem er í hinum stóra heimi og geri jafnframt aðgerðir á hamfarasvæðum skilvirkari. Á vegum forsætisnefndar starfaði jafnframt ákveðinn vinnuhópur um samfélagsöryggi á breiðum grunni sem ég átti sæti í.

Á árinu vann sameiginlegur vinnuhópur forsætisnefndar Norðurlandaráðs og forsætisnefndar Eystrasaltsþingsins að skýrslu um framtíð og skipulag samstarfs þessara tveggja samtaka í ljósi breyttrar pólitískrar stöðu við Eystrasaltið eftir stækkun ESB og NATO til austurs. Lokaskýrsla þessa hóps var síðan lögð fyrir sameiginlegan fund ráðanna tveggja, þ.e. Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins. Í þeirri skýrslu er m.a. byggt á því að löndin eigi ýmsa sameiginlega hagsmuni innan ESB/EES-samstarfsins og að þau geti nýtt samtakamátt sinn til að halda þeim sameiginlegu hagsmunum á lofti.

Á árinu 2005 tók forsætisnefnd málefni sem varða stöðu sjálfstjórnarsvæðanna í norrænu samstarfi til sérstakrar umræðu. Í dag hefur þegar farið fram nokkur umræða um þessa áherslu. Rótin að þessari umfjöllun forsætisnefndar var ósk Færeyinga um fulla aðild að ráðinu en þeir settu þá ósk sína fram á árinu 2003. Segja má að þessi umræða og athyglin á henni hafi gosið upp í kjölfar heimsóknar Anders Fogh Rasmussens, forsætisráðherra Danmerkur, til Færeyja í ágústmánuði á síðasta ári.

Málefni sjálfstjórnarsvæðanna var tekið upp á árlegum fundi með forsætisráðherrum á þingi Norðurlandaráðs og síðan þróaðist málið þannig að forsætisráðherrarnir fólu norrænu samstarfsráðherrunum að gera úttekt á því hvernig efla mætti hlutverk sjálfstjórnarsvæðanna í norrænu samstarfi. Það er í rauninni lagaleg úttekt og menn horfa til þess annars vegar hvað heimilt er innan Helsinki-sáttmálans eins og hann er og hins vegar með tilliti til stjórnarskrár Dana. Í kjölfarið er svo gert ráð fyrir pólitískri ákvarðanatöku og umræðu um málið.

Á liðnu starfsári, 2005, gegndi Rannveig Guðmundsdóttir, hv. 2. þm. Suðvest., starfi forseta Norðurlandaráðs og sú sem hér stendur var varaforseti. Hlutverk forseta er einkum að leiða og samhæfa störf forsætisnefndar, stjórna fundum nefndarinnar og ekki síst að koma fram fyrir hönd Norðurlandaráðs gagnvart öðrum alþjóðastofnunum. Forsetinn hefur jafnframt mikilvægu hlutverki að gegna varðandi stefnumótun í málefnum skrifstofu Norðurlandaráðs, auk þess að vinna mjög náið með framkvæmdastjóra skrifstofunnar.

Mér finnst við hæfi, frú forseti, að geta þess sérstaklega í þessari umræðu að Rannveig Guðmundsdóttir gegndi starfi sínu sem forseti Norðurlandaráðs mjög vel og af miklum sóma og með skörulegum hætti. Ég vil nota tækifærið og þakka henni fyrir sérlega vel unnin störf. Meðal þeirra verkefna sem hún tók að sér og stóð að á árinu má nefna að hún hélt þrívegis til Pétursborgar í Rússlandi. Fyrst til að taka þátt í þingi Samveldis sjálfstæðra ríkja, sem er samráðsvettvangur þingmanna frá fyrrum ríkjum Sovétríkjanna. Þá sótti hún alþjóðlegan fund um efnahagsmál sem helgaður var efnahagsþróun á norðurslóðum. Og loks tók hún þátt í ráðstefnunni Konur og lýðræði þar sem hún flutti lokaræðu ráðstefnunnar og ræddi þar m.a. um aðgerðir gegn mansali kvenna og fjallaði nokkuð ítarlega um fæðingarorlofslögin sem sérstakt tæki í jafnréttisbaráttunni. Auk þess kom hún sem forseti Norðurlandaráðs fram fyrir hönd ráðsins á ársfundi Vestnorræna ráðsins sem fram fór á Ísafirði og að sjálfsögðu á Norðurlandaráðsþinginu. Ég vildi láta þessa getið og hef þó látið margt annað ótalið sem Rannveig Guðmundsdóttir starfaði að með miklum sóma sem forseti Norðurlandaráðs á síðastliðnu starfsári.

Norðurlandaráðsþingið var haldið í Reykjavík dagana 25.–27. október 2005. Þing Norðurlandaráðs er mjög fjölmenn samkoma en þátttakendur á þessu þingi eru um 800, þar af er 41 norrænn ráðherra, 87 norrænir þingmenn, sem eiga sæti í Norðurlandaráði, auk 20 þingmanna frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi. Íslandsdeild Norðurlandaráðs og alþjóðasvið Alþingis höfðu veg og vanda af skipulagningu þingsins í samstarfi við fjölmarga starfsmenn skrifstofu Alþingis og fleiri. Skemmst er frá því að segja að allt skipulag og framkvæmd þingsins tókst með eindæmum vel og var Alþingi og frábæru starfsfólki þess til mikils sóma.

Of langt er að rekja atburði þingsins hér, ég stikla aðeins á helstu málum þess en vísa að öðru leyti til skýrslunnar á þskj. 832. Af umræðum og málum þingsins má nefna umræðu um endurnýjun norræns samstarfs þar sem rætt var um fyrirliggjandi skipulagsbreytingar á Norrænu ráðherranefndinni og fækkun ráðherranefnda úr 18 í 11, umræðu um samstarf á norðurslóðum þar sem samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um norðurskautsmál var lögð fram og umræðu um jafnréttis- og mannréttindamál þar sem rætt var um tillögu að norrænni samstarfsáætlun í jafnréttismálum 2006–2010. Þá voru á dagskrá þings Norðurlandaráðs rannsóknir og nýsköpun þar sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, mælti fyrir tillögu að norrænni samstarfsáætlun í iðnaðar- og atvinnumálum fyrir sama tímabil, 2006–2010. Markmið þessarar áætlunar er að Norðurlönd haldi stöðu sinni sem leiðandi svæði á heimsvísu hvað varðar hagvöxt og samkeppnishæfni.

Frú forseti. Í starfsáætlun Norðurlandaráðs fyrir árið 2006 er lögð megináhersla á fjögur svið. Í fyrsta lagi á áframhaldandi starf að afnámi landamærahindrana á Norðurlöndum. Í öðru lagi á þróun norræns samstarfs og nánari tengsl Norðurlandaráðs við norrænu þjóðþingin. Í þriðja lagi á alþjóðlegt samstarf sem m.a. beinist að því að efla tengslin við Rússland. Og í fjórða lagi að halda málefnum norðurskautsins á lofti. Síðan hafa málefnanefndirnar fimm að sjálfsögðu hver sínar sérstöku meginmálefnaáherslur í sínu starfi.

Samstarfið á vettvangi Norðurlandaráðs er mikilvægt fyrir hagsmunagæslu Íslendinga og stuðlar að áframhaldandi farsæld íslenskrar þjóðar. Það er því ánægjulegt að forusta Íslands í Norðurlandaráði og framkvæmd Norðurlandaráðsþingsins hér á landi á síðasta ári hafi farist okkur jafn vel úr hendi og raun ber vitni. Við óskum þess öll að það verði liður í að festa norrænt samstarf enn frekar í sessi, það er einn mikilvægasti vettvangur okkar í utanríkismálum.

Við eigum, frú forseti, mikla samleið í Evrópumálum, svo ég nefni þau sérstaklega, með hinum Norðurlöndunum. Stækkun Evrópusambandsins eykur þörfina á að Norðurlöndin hafi samráð um hagsmunamál sín í Evrópusamstarfinu og það á jafnt við um norrænu ESB-löndin og Ísland og Noreg sem hafa valið að tengjast Evrópu með öðrum hætti. Samstarf Evrópuríkjanna bæði breikkar og dýpkar þegar hin tíu nýju aðildarríki eru gengin í ESB. En við skulum líka horfa til þess að stækkun Evrópusambandsins felur í sér ný tækifæri fyrir Norðurlönd. Flest bendir til að samstarf ríkjahópa með sameiginleg gildi og hagsmuni muni aukast til mikilla muna innan Evrópusambandsins eins og þróunin hefur verið og verður fyrirsjáanlega.

Við höfum, frú forseti, valið ólíkar leiðir til þátttöku í yfirstandandi samruna þjóða í Evrópu og vert er að geta þess að Norðurlöndin hafa líka valið ólíkar leiðir til þátttöku innan ESB, t.d. hvað varðar evruna. En hvað sem því líður er Evrópurétturinn mjög fyrirferðarmikill í löggjöf allra Norðurlandanna, bæði þeirra ríkja sem taka þátt í að móta hann og hinna sem standa fyrir utan eiginlega ákvarðanatöku um evrópska löggjöf.

Þrátt fyrir að við höfum valið ólíkar leiðir á ýmsum sviðum þá breytir það ekki því að við höfum mjög svipaða hagsmuni og lífsgildi. Við teljum að þessi lönd geti miklu betur staðið fyrir þeim lífsgildum í sameiningu. Við erum öflug heild sem oft og tíðum hefur haft forustu um breytingar og við höfum líka orðið öðrum fyrirmynd að svæðisbundnu samstarfi.

Ég tel, frú forseti, að með því að vera fyrirmynd hvað varðar þjóðfélagsuppbyggingu, en þannig er nú horft til Norðurlandanna, og fyrirmynd að samstarfi milli þjóða hafi Norðurlönd sem ríkjahópur mjög sterka stöðu til að hafa áhrif á alþjóðavettvangi, bæði ein og sér og líka í samstarfi sín á milli. Þetta norræna samstarf hefur verið okkur einkar happadrjúgt á liðnum árum þó það sé ekki staður eða stund hér til að tíunda margvíslegan ávinning okkar af því.

En svona í samantekt, frú forseti, vil ég fá að segja að þetta samstarf mun eftir sem áður vera okkar mikilvægasti pólitíski samráðsvettvangur í Evrópumálum og jafnframt brú okkar til Evrópu, hvernig sem við kjósum að haga tengslum okkar við Evrópu að öðru leyti.