132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norðurskautsmál 2005.

576. mál
[17:55]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi skýrsla Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2005 er að ýmsu leyti merkileg. Það sem ég ætlaði að draga athyglina að og ræða aðeins um er fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál sem var haldinn í Washington, dagana 1. og 2. mars 2005.

Ég sé þegar ég les fundargerð þessa fundar að þar stendur á einum stað, með leyfi hæstv. forseta:

„Að loknum fundi nefndarinnar fóru fram fundir í kanadíska sendiráðinu þar sem fjölmargir fulltrúar bandaríska þingsins gerðu grein fyrir vinnu innan þingsins sem varðar loftslagsbreytingar. Þeir sögðu að villandi væri að einblína eingöngu á Kyoto-sáttmálann. Fjölmörg lönd sem skrifað hefðu undir sáttmálann stæðu ekki við hann og tilgangslaust væri að gagnrýna stöðugt Bandaríkin fyrir að vilja ekki skrifa undir það sem fólk vissi að þau gætu ekki staðið við. Önnur ríki virtust hins vegar ekki eiga í erfiðleikum með að skrifa stöðugt undir sáttmála sem þau ætluðu síðan greinilega engan veginn að framfylgja, því væri öðrum stundum nær að líta í eigin barm. Nokkur hiti var í fundarmönnum þegar þetta var rætt og sitt sýndist hverjum.“

Þetta er athyglisverð fundargerð og það væri kannski ástæða til þess að fá það fram hvort Íslendingar hefðu verið nefndir í þessu sambandi sem hluti af þeim þjóðum sem skrifa undir sáttmála án þess að ætla sér að standa við þá. Nú veit ég ekkert hvort menn hafi haft einhverjar upplýsingar um hvernig staðið er að málum af þessu tagi hér á Íslandi en það er að koma í ljós núna að íslenska ríkisstjórnin og stjórnvöld í landinu hafa alls ekki staðið sig gagnvart Kyoto-sáttmálanum. Undanfarnar vikur hafa ráðherrar verið að kynna nýja aðferð við að lesa sáttmálann, þ.e. íslenska ákvæðið. Nú er sagt að íslenska ákvæðið þýði að frá landinu megi fara útblástur sem svarar til 1,6 milljóna tonna af CO 2 á hverju ári, þ.e. að meðaltali yfir það tímabil sem um er að ræða.

Þegar málin eru svo athuguð nánar þá standa þau þannig að íslenska ríkisstjórnin gaf yfirlýsingu þegar Kyoto-bókunin var staðfest hér á Alþingi um að það stæði ekki til að nýta sér möguleika til að gefa út heimildir fyrir losun eða versla með slíkar heimildir innan lands eða milli landa hvað Ísland varðar. Þetta er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og að hún ætlaði sér sem sagt ekki að gefa út neinar heimildir fyrir losun. Þetta þýðir á einföldu máli að fyrirtæki sem ætla að fara að framleiða ál hér á landi eða einhverjar aðrar vörur sem valda CO 2 útblæstri þurfa ekki á neins konar leyfi að halda til þess að blása því upp í himinhvolfið. Og það sem verra er er að í reglum eða lögum hér í landinu eru hvergi neinar hömlur á því hversu mikið þetta getur orðið. Hinn nýi skilningur um hver mörkin í sáttmálanum séu, þ.e. eins og ríkisstjórnin eða a.m.k. sumir ráðherrarnir lesa hann núna, að meðaltalið sé yfir allt tímabilið, þýðir þá að mörkin séu bundin við að heildarútblástur verði ekki meiri en þetta að meðaltali.

Ef við gæfum okkur að slíkur útblástur sem færi fram yfir þetta færi af stað frá landinu, ef fyrirtæki sem fengju starfsleyfi hér á landi og hæfu rekstur innan þess tímabils sem hér um ræðir menguðu meira en þetta að meðaltali, þá hefði ríkisstjórninni tekist þannig til að ekkert væri hægt að gera í málinu. Það er sem sagt leyfilegt að blása meiru út í andrúmsloftið miðað við lög og reglur sem gilda í landinu en þessi samningur gerir ráð fyrir. Þó að ég geri ekki ráð fyrir að það gerist, einfaldlega vegna þess að það stefnir ekki í það, liggur það hins vegar í augum uppi að frágangurinn á málinu er með þeim hætti að ríkisstjórnin getur auðveldlega, og í það stefnir vissulega, staðið frammi fyrir því að það verði búið að taka ákvarðanir og að óbreyttum lögum verði ráðherrarnir að stimpla starfsleyfin fyrir fyrirtæki sem munu, þegar komið fram á árið 2012 og tímabilið er liðið, blása miklu meiru upp í loftið en 1,6 milljónum tonna á ári. Það eru engar reglur í gildi um það að þessi fyrirtæki þurfi á einhverju leyfi að halda fyrir þessu þannig að ríkisstjórnin stendur frammi fyrir því að vera bókstaflega með allt saman niður um sig í þessum málum hvað varðar framhaldið. Hver á að bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið um útblástur sem fer fram yfir þessi 1,6 milljón tonn þegar þetta tímabil er liðið?

Ríkisstjórnin virðist standa frammi fyrir því að ef hún getur ekki fengið útvíkkun á íslenska ákvæðinu þá geti farið svo að íslensk stjórnvöld sitji uppi með ábyrgðina á því að skaffa þessar losunarheimildir og þær munu ekki fást fyrir ekki neitt. Þær eru nú þegar orðnar dýrar í verslun milli aðila í Evrópu. Ég tel fulla ástæðu til að hvetja ríkisstjórnarflokkana til að fara yfir málið og átta sig á hvar menn eru staddir. Afsökunin fyrir því að þetta mál er svona hlýtur að vera sú að menn hafi ekki látið sér detta í hug að íslenska ákvæðið mundi ekki duga út tímabilið. En enginn getur verið viss um að það náist alþjóðlegt samkomulag um að íslenska ákvæðið verði víkkað út. Ef menn ætla sér að láta fyrirtækin skaffa þessar losunarheimildir hlýtur að þurfa að ganga frá því máli þegar fyrirtækin taka ákvarðanir um hefja framleiðslu í landinu. Það eru engir fyrirvarar um slíkt af hálfu stjórnvalda í landinu.

Þetta er algjörlega óábyrg stjórnsýsla sem þarna er á ferðinni. Þetta er miklu stærra mál en svo að menn geti þagað í sölum Alþingis þegar rætt er um það. Ég tel ástæðu til að ræða það undir þessum lið vegna þess að það er alveg hárrétt sem bandarísku fulltrúarnir sögðu. Það er greinilega fullt af ríkjum sem skrifa undir Kyoto-sáttmálann, og þar á meðal Íslendingar, sem ganga þannig frá sínum málum að það lítur greinilega út fyrir að ekki standi til að standa við hann. Þegar litið er til þess að þetta er fyrsta tímabil Kyoto-sáttmálans og að gert er ráð fyrir því í öllu samningsferlinu að nýtt tímabil verði til og að þeir sem séu með í ferlinu taki þátt í því þá er það algjörlega óviðunandi að Íslendingar ætli að taka áhættuna af því að þeir geti ekki skrifað undir óbreytt íslenskt ákvæði fyrir árið 2013 og þar á eftir, en það er gert með þessum hætti. Og ekki bara það heldur stefnir í að óbreyttu að víkka þurfi íslenska ákvæðið verulega mikið út. Ég tel að fara þurfi að svara því í sölum Alþingis hver beri ábyrgðina á þeim viðbótarlosunarheimildum sem þarna er greinilega farið að glitta í vegna þess að það liggur fyrir að verði álver byggt á Bakka og ef af stækkuninni verður í Straumsvík þá eru það ekki 1,6 milljón tonn sem fara upp í loftið árið 2013 heldur 2 milljónir tonna og þá þarf að bæta því við. Og ef búið verður að gera samninginn um Helguvík á þessu tímabili þá vantar fyrir þeirri viðbót líka að óbreyttum lögum. Við verðum þá kannski komin í 2,3 –2,5 milljónir tonna sem færu upp í loftið á ári í staðinn fyrir 1,6 tonn. Til þess þurfa menn heimildir með einhverjum hætti.

Ég veit reyndar ekki hvað Ameríkumenn hafa haft fyrir sér í því að menn hafi skrifað undir Kyoto-sáttmálann og ætluðu sér ekki að standa við hann, en það er greinilegt að menn þurfa að líta aðeins í eigin barm hér á Íslandi hvað þetta varðar. Og það er ekki bara það, ég tel fulla ástæðu til að ítreka að það þarf að fást á hreint hvort ekki sé nauðsynlegt að bregðast við nú þegar til að íslenska ríkið sitji ekki uppi með ábyrgð á því að skaffa þessar losunarheimildir, af því að engir fyrirvarar hafa verið gerðir við þessi fyrirtæki um að þau beri ábyrgð á þeim viðbótarheimildum sem þurfa munu. Ekki verður hægt að koma slíkum reglum á nema með því að breyta lögum. Breyta þarf lögum þannig að menn geti ekki fengið starfsleyfi nema þeir skaffi þá losunarheimildir. Gefa þarf út losunarheimildir til fyrirtækjanna í landinu til að hægt sé að taka á þessu máli. Um það eru engar reglur og á meðan þær eru ekki til eru menn bara á sóknarmarkinu, öllu heldur engu marki. Það er bara frítt spil.

Ég held að íslensk stjórnvöld þurfi að fara yfir þetta. Mér finnst satt að segja, eftir að hafa nefnt þetta nokkrum sinnum í sölum Alþingis, að það hljóti að fara að koma tími á það að menn svari fyrir þetta og segi hvert þeir ætla sér. Talað er í fullri alvöru um að auka losunarheimildir sem svarar líklega upp undir 2,3–2,4 milljón tonn á ári í staðinn fyrir 1,6 að meðaltali á ári, þegar þær hugmyndir sem verið er að tala um eru komnar til framkvæmda. Ætlar ríkisstjórnin að sitja uppi með þann vanda að fyrirtækin hafi bara farið af stað í góðri trú um að þau þyrftu ekki að skaffa neinar losunarheimildir af því að reglurnar á Íslandi segja það? Það á ekkert að úthluta losunarheimildir samkvæmt þessum reglum.

Þetta er ekki boðlegt. Það er í raun og veru algjör nauðsyn að menn bregðist við nú þegar í þessu máli og það er ekki einu sinni víst að það dugi til gagnvart hugmyndinni um annaðhvort álverið á Bakka eða stækkunina í Straumsvík, eftir því hvort verður á undan. Það gæti kostað gríðarlega fjármuni að útvega þessar losunarheimildir ef íslenska ákvæðið verður ekki víkkað út. Og þegar menn fara að velta því fyrir sér hvort Íslendingar fái útvíkkun á sínu ákvæði þá kemur ýmislegt til greina sem menn hafa ekki rætt hér, m.a. það að fjölmörg önnur ríki í heiminum geta framleitt ál með ódýrri orku og gætu notfært sér það að geta úthlutað losunarheimildum. Það er mjög líklegt að mörg þeirra hafi áttað sig á þessu eftir að íslenska ákvæðið varð til og séu tilbúin til að bjóða upp á eitthvað í sínum löndum. Spurningin er þá sú: Er einhver möguleiki á því að Íslendingar fái útvíkkun á sínu ákvæði? Svo þarf að svara hinni spurningunni: Vilja menn á Íslandi bæta við enn þá meiri losunarheimildum en eru komnar? Því hefur ekki verið svarað en ég geri ráð fyrir að stjórnvöld í landinu séu að því leyti til búin að svara því að þau hafa staðið að undirbúningi og skoðun á verkefnum sem valda viðbótarlosun í framtíðinni sem er langt fram yfir íslenska ákvæðið. Það hlýtur að þurfa að finna losunarheimildir fyrir því með einhverju móti, annaðhvort með því að kaupa þær til landsins eða útvíkka íslenska ákvæðið. En eitt er alveg ljóst að menn geta ekki flotið svona áfram eins og ríkisstjórnin gerir núna í þessu máli. Ég tel fulla ástæðu til að hvetja menn til að leiða hugann að þessu í stjórnvaldi landsins.