132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[11:31]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vildi kveðja mér hljóðs um fundarstjórn forseta út af tveimur atriðum. Í gær kom hv. þm. Helgi Hjörvar upp í umræðunni um vatnalög sem eru líka á dagskrá í dag — ég sé að hann er ekki mættur — og kvartaði yfir því að hæstv. iðnaðarráðherra væri ekki viðstaddur umræðuna. Mér finnst að forseti eigi að benda hv. þingmanni á það að við vorum ekki að ræða framsögu iðnaðarráðherra. Hún var búin að flytja þá framsögu við 1. umr. Við vorum að ræða nefndarálit hv. iðnaðarnefndar og formaður hennar sat í salnum. Ég vil, frú forseti, ekki taka upp þykkjuna fyrir hv. formann iðnaðarnefndar því að ég held að hann sé alveg fullfær um það og ég treysti honum fullkomlega til þess að svara fyrir nefndarálit meiri hlutans og þær breytingartillögur sem gera átti. Ég treysti líka fulltrúum stjórnarandstöðunnar í hv. iðnaðarnefnd fullkomlega til að svara fyrir sig. Það er því engin þörf á að framkvæmdarvaldið komi hér inn í löggjafarvaldið eins og ákallið hljóðaði.

Þá vildi ég líka, frú forseti, ítreka og árétta það sem ég stakk upp á í gær að hv. þingmenn lýstu því yfir þegar þeir kæmu í ræðustól hversu lengi þeir mundu tala. Af hverju bað ég um það, frú forseti? Það var til þess að umræðan gæti orðið málefnaleg. Það er ekki hægt að fara í andsvar við hv. þingmann sem maður veit ekki hvort mun tala í 10 mínútur eða í fjóra tíma nema maður sitji alla fjóra tímana í þingsal. Ég er þannig gerður að athyglin hjá mér er farin eftir korter og þannig er nú háttað með flest fólk. Það þekkja þeir sem kenna og þess vegna þarf alltaf að brjóta upp kennsluna á 10 mínútna fresti, en það gerist ekki hér í ræðupúlti Alþingis.

Ef menn vilja fá fram málefnalega umræðu ætla ég að biðja forseta að fara fram á það við hv. þingmenn, hún hlýtur að geta það, að þeir tilkynni í byrjun ræðu sinnar hve lengi þeir muni tala. Það er til þess að umræðan geti orðið málefnaleg. Hún verður ekki málefnaleg með því að menn haldi svona ræður. Ég spurði hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að því í gær áður en hún fór í ræðustólinn hversu lengi hún mundi tala. Hún sagði mér að það yrðu einn til þrír tímar. Það reyndist vera svo því að hún hóf ræðu sína kl. 13:45 og lauk henni kl. 15:58.

Þetta kemur í veg fyrir alla málefnalega umræðu. Ég vil líka geta þess að það er mikill vandi að forma hugsun sína í stuttu máli en það er enginn vandi að tala lengi og segja ekki neitt.

Ég ætla að vona að hér sé ekki málþóf í gangi. Ég ætla að vona það, frú forseti, því að það væri ofbeldi minni hlutans gegn meiri hlutanum sem þjóðin hefur kosið á Alþingi og gegn lýðræðinu.