132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:05]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs meðan hv. þm. Pétur Blöndal flutti ræðu sína um fundarstjórn forseta. Þar vitnaði hv. þingmaður í samtal sem við áttum, mjög huggulegt samtal yfir salatbarnum hérna frammi í gær og mig langaði til að nefna það hér áður en ég fer yfir önnur atriði að menn skyldu gæta sín á því hvað þeir segja yfir salatbarnum hérna frammi fyrst menn eru farnir að vitna í það sem opinber samtöl í ræðustóli Alþingis.

Virðulegi forseti. Sömuleiðis langar mig til að spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi skilið orð hv. þm. Péturs H. Blöndals eins og ég, að hv. þingmaður væri að fara fram á eða leggja til að þingsköpum Alþingis yrði breytt til samræmis við athyglisgáfu hans, en þannig skildi ég það. Hann hafði skilgreint hana um 15 mínútur en ég vil benda á að í skólum landsins er börnum treyst til þess að sitja í kennslustund í 40 mínútur og Pétur H. Blöndal ætti því ekki að eiga í erfiðleikum með að sitja í a.m.k. 40 mínútur undir ræðum þingmanna hér eins og börn í skólum landsins.

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur verið farið fram á, þ.e. að gert verði hlé á þessari umræðu og að iðnaðarnefnd verði kölluð saman, vegna þess að þó svo að málið hafi verið tekið út úr hv. iðnaðarnefnd, þar sem ég sit, var alveg ljóst að um það var ekki sátt og við lögðum til að málinu yrði vísað frá. Í millitíðinni hafa komið fram nýjar upplýsingar sem skipta mjög miklu máli fyrir framgang málsins. Þar er annars vegar mál sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi og tók upp í gær, þ.e. að náðst hefði samkomulag milli Noregs, Íslands og Liechtensteins um það hvernig beri að standa að lögleiðingu vatnatilskipunarinnar og það nægir mér ekki sem þingmanni og sem aðila sem á sæti í hv. iðnaðarnefnd að umhverfisráðherra hæstv. komi hér upp og segi okkur að þessi mál séu alls óskyld. Það nægir mér bara ekki og það er skylda mín sem þingmanns að fá að ganga úr skugga um það sjálf hvort svo sé og því tel ég eðlilegt að nefndin komi saman og fari yfir það samkomulag sem gert var í ljósi umræðunnar hér.

Því tel ég okkur ekki geta haldið þessari umræðu áfram með þeim hætti sem verið hefur og því verði iðnaðarnefnd að koma saman. Þá vil ég líka taka undir í öðru lagi að það verði að fara yfir orð Karls Axelssonar sem komu fram í fjölmiðlum í gær varðandi tengsl þessa máls við atriði tengd Kárahnjúkavirkjun.