132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:08]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tel að þrennt hafi komið fram í dag sem veldur því að þessum fundi ætti að hætta eða fresta og gefa ráðrúm til þess að ræða saman í iðnaðarnefnd og víðar. Í fyrsta lagi hafa hv. þingmenn sem hér hafa talað nefnt það og einnig sagði hæstv. umhverfisráðherra — sem er nú gengin úr salnum sem og aðrir ráðherrar — að lokum frá því, eftir þráspurningar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að niðurstöðu í vatnsverndarmálinu væri náð. Lagafrumvarp hefur legið fyrir í drögum í umhverfisráðuneytinu nú í tvö ár hygg ég samkvæmt upplýsingum og greinargerðum vatnalagafrumvarpsins, frá því í vetur og frá því í fyrravetur, og það er ekkert því til fyrirstöðu lengur að leggja það frumvarp fram. Eins og menn vita er hægt að leggja slík frumvörp fram hvenær sem er. Ef það þarf að bíða er eðlilegt að þetta máli bíði með því.

Ég endurtek það og ítreka að því miður er ekki hægt að treysta þeim upplýsingum sem koma frá ráðherranum um það að þessi frumvörp stangist ekki á eða skarist ekki með nokkrum hætti og ákaflega ólíklegt að þau geri það ekki vegna þess að frumvarpið að hinum nýju vatnalögum tekur beinlínis til vatnsnýtingar og vatnsverndar með nokkrum hætti.

Í öðru lagi kom fram í fréttum í gær og á þeim fyrirlestri eða fundi sem ég átti ekki kost á að sækja í gærdag, enda stóð þá yfir þingfundur, þó að ég hafi þurft að bregða mér annað á löngu boðaðan fund á skrifstofu minni, að Kárahnjúkavirkjun og árfarvegaskipti í tengslum við hana virðast vera einhvers konar undirstaða þessa máls og ekki hafa fengist skýr svör sem ég hef heyrt, við því frá höfundi frumvarpsins, Karli Axelssyni lögfræðingi, með hvaða hætti það er. Það er eins og hann hafi ekki mótað það til frásagnar hvað þar veldur. En við höfum verið að spyrja mikið að því hvernig standi á því að það þurfi að flýta sér svona með þetta frumvarp og þetta virðist þá vera ein ástæðan eða sú eina sem komin er, fyrir utan metnaðarmál einstakra ráðherra og þingmanna.

Í þriðja lagi hefur svo komið í ljós að hæstv. forsætisráðherra virðist ekki vera ljóst hvernig stendur á þessu frumvarpi, a.m.k. kom hann hér upp í stólinn áðan og talaði um að það væri fyrst og fremst um formbreytingu að ræða, og ég vil fá það skýrt frá forsætisráðherra hvað annað felst þá í því en formbreyting vegna þess að um þetta höfum við verið að ræða og m.a. einkum þetta orðalag „fyrst og fremst um formbreytingu að ræða“. Þegar sjálfur forsætisráðherra tekur svo til orða hljótum við að eiga rétt á að vita hvað hann meinar með því.