132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:14]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir er nú eldri en tvævetur og hún, eins og hæstv. forseti, hafa verið hér mörg ár. Þær vita það alveg eins og hverjir aðrir sem hafa setið hér lengi að þingið gengur eftir ákveðnum brautum. Það er einfaldlega þannig að þegar stjórnarandstaðan reynir það á skinni sínu að vera beitt einhverju því sem stappar nærri ofbeldi við stjórn funda og ásetningu funda hér, þá er því svarað með svipaðri harðneskju. Ég get alveg upplýst hæstv. forseta og hv. þm. Drífu Hjartardóttur um það að ég þarf að segja mikið um þetta mál, ég hef þaulskoðað það og brotið til mergjar frá mínum sjónarhóli og ég hef í hyggju að leyfa hv. þm. Drífu Hjartardóttur að njóta þeirra ávaxta í ræðum í vikunni.

Ég hins vegar, eins og menn vita, er heldur óánægður með það hvernig hæstv. forseti hringlar með starfsáætlun þingmanna eins og það skipti engu máli með litlum fyrirvara að setja á kvöldfundi, látum það vera, en t.d. fundi sem á starfsáætlun þingsins eru beinlínis ætlaðir til annarra hluta og tala síðan um, eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir hefur gert hér áður, að þingmönnum sé ekki of gott að vera á fundum á föstudögum og laugardögum. Okkur er það svo sem ekkert of gott. Í sumum tilvikum er það þannig að menn hafa setið á fundum með löngum fyrirvara, eins og ég í gær. Í öðrum tilvikum er það þannig að menn hafa ákveðnum skyldum að gegna gagnvart fjölskyldum sínum, eins og ég í dag. Þannig er það bara.

Það var þessi forseti sem hér af miklum skörungsskap talaði um að hún ætlaði að beita sér fyrir því að þingið yrði fjölskylduvænni vinnustaður. Þarna úti í horni situr þingmaður sem á fjögurra mánaða gamalt barn sem hann hefur varla séð í vikunni. Er það fjölskylduvænleiki sem hæstv. forseti, Sólveig Pétursdóttir, er að ryðja hér til rúms? (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að hafa sterkari orð um það. (Gripið fram í.) Ég ætla að spyrja hæstv. forseta með tilliti til orða hennar um að reyna að gera þetta að fjölskylduvænum vinnustað: Hvað ætlar hún að halda þessum fundi áfram lengi í dag? Tilefni þess er einfaldlega það að ég sem fjölskyldufaðir hef gefið ákveðnar skuldbindingar litlum stelpum sem ég vildi gjarnan fá að standa við og reyna að haga vinnudegi mínum með tilliti til þess. Ég get upplýst hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson um að ég hafði lofað því að fara á alþjóðlegt skákmót í dag (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … hættu þá að tala …) af því að litla dóttir mín hefur áhuga á skák og það var svo sem ýmislegt fleira sem ég ætlaði að gera.

Virðulegi forseti. Hér hef ég varpað spurningu um framhald þinghaldsins og síðan vil ég ítreka að hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa blekkt þingheim. Þeir hafa sagt að hér sé um formbreytingu að ræða þegar höfundur sköpunarverksins segir að þetta geti breytt réttarstöðu stórvirkjana. (Forseti hringir.) Ef það eru ekki blekkingar þá veit ég ekki hvað það orð þýðir.