132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:31]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við höldum áfram umræðu um frumvarp til vatnalaga. Ég kom inn á það í fyrri ræðu minni að nafnið á þessu frumvarpi er reginmisskilningur. Þarna er verið að höfða til gamalla laga sem sett voru árið 1923 og voru mun víðtækari en það frumvarp sem hér er lagt fram. Ég fór einmitt yfir það í fyrri ræðu minni að komið hafa nokkrar tillögur um breytingu á nafninu á þessu lagafrumvarpi.

Það er mjög skýrt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í iðnaðarnefnd leggja til að frumvarpinu verði vísað frá. Það er að mörgu leyti meingallað. Í 1. gr. stendur: „Markmið þessara laga er skýrt eignarhald á vatni.“

Í rauninni er þetta fyrsta skrefið að því að einkavæða vatn á Íslandi og það er í fullkominni andstöðu við það sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir að stefnt skuli að. Sameinuðu þjóðirnar tilnefndu heilan áratug, áratuginn 2005–2015 sem áratug vatnsins. Þess vegna er dálítið furðulegt að hæstv. iðnaðarráðherra skuli á öðru ári þessa áratugar leggja fram þetta frumvarp til vatnalaga sem er í augljósri andstöðu við yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem við Íslendingar höfum undirgengist. Og ég hélt reyndar að við værum stolt af þeim yfirlýsingum. Það skal því engan undra þó fjölmörg félagasamtök geri athugasemdir við frumvarpið og leggi til að það nái ekki fram að ganga.

Nokkur samtök stóðu fyrir ráðstefnu sem bar yfirskriftina Vatn fyrir alla og fór fram síðastliðið haust. Það var mjög merkileg ráðstefna og hefur verið fjallað dálítið um hana í fyrri ræðum og er ástæða til að ítreka að þetta eru samtök á mjög breiðum grunni. Þarna voru t.d. þjóðkirkjan, BSRB, Náttúruverndarsamtökin, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, svo ég nefni einhver, Mannréttindaskrifstofan, Unifem á Íslandi, Öryrkjabandalagið, Landvernd o.fl. Í tilefni af þessu er kannski ástæða til að árétta að af þessu tilefni var skrifaður leiðari í Morgunblaðið þann 1. nóvember 2005 og yfirskrift hans var Rétturinn til vatns. Með leyfi forseta ætla ég að lesa þennan leiðara:

„Það kann að virðast lítil þörf fyrir því að ræða sérstaklega um aðgang að vatni á Íslandi. Staðreyndin er hins vegar sú að um þriðjungur mannkyns býr um þessar mundir við vatnsskort og nýtur því samkvæmt skilgreiningu ekki grundvallarmannréttinda. Um helgina var haldin ráðstefna undir yfirskriftinni Vatn fyrir alla. Samhliða ráðstefnunni gáfu samtökin BSRB, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar, Kennarasamband Íslands og SÍB út sameiginlega yfirlýsingu til að vekja athygli á mikilvægi vatns og sérstöðu. „Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum,“ segir í yfirlýsingunni. „Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þvílíkan búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar.“ Leggja samtökin til að sett verði í stjórnarskrá ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings, sem taki til réttinda, verndunar og nýtingu vatns.

Nigel Dower, kennari í þróunarsiðfræði við Háskólann á Akureyri, sagði á ráðstefnunni að aðgangurinn að vatni væri lykilatriði í réttinum til lífs. Rétturinn til vatns tæki til þess, sem þyrfti til að tryggja heilbrigt líf og mannlega reisn.

Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlaði árið 2002 að 1,7 milljarða manna skorti aðgang að hreinu vatni og um 2,3 milljarðar manna þjáðust af sjúkdómum, sem rekja mátti annars vegar til óhreins vatns og hins vegar hárrar verðlagningar á vatni. Seinna vandamálið hefur farið vaxandi, ekki síst vegna einkavæðingar á vatnsveitum í löndum á borð við Indland. Páll H. Hannesson, alþjóðafulltrúi BSRB, sagði í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni um helgina að rannsóknir sýndu að reynslan af einkavæðingu vatns í þróunarlöndunum hefði yfirleitt verið slæm. Skort hefði á samkeppni og fyrirtæki hefðu ekki fjárfest eins mikið og búist hefði verið við í nývirkjum og viðhaldi auk þess sem verð á vatni hefði hækkað.

Tvö ríki, Úrúgvæ og Holland, eru nú í þann mund að banna einkavæðingu vatns með lögum. Í báðum tilfellum er ekki aðeins kveðið á um að ekki megi einkavæða vatnsveitur, heldur einnig að ekki megi fela einkaaðilum rekstur vatnsbóla.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst 2005 til 2015 áratug alþjóðlegra aðgerða til að tryggja vatn til lífsviðurværis. Í ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 2004 er það markmið sett að fækka þeim um helming, sem ekki hafa aðgang að eða efni á öruggu drykkjarvatni.

Tilgangur einkavæðingar er fyrst og fremst að tryggja neytendum betri þjónustu og kjör með tilstuðlan samkeppni, ekki að færa einokun frá einni hendi yfir á aðra. En það hlýtur einnig að vera mikið álitamál hvort hægt sé að einkavæða auðlind á borð við vatn og má yfirfæra þá umræðu yfir á umræðuna um auðlindir hafsins og spyrja hvort ekki sé rétt að líta á vatn sem þjóðareign. Nú stendur yfir nefndarstarf um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rétt er að við þá endurskoðun verði áskorunin, sem kemur fram í yfirlýsingu félagasamtakanna fyrir helgi um vatn fyrir alla, tekin til alvarlegrar skoðunar. Þótt á Íslandi sé gnægð vatns verða Íslendingar að sýna að þeir kunni að umgangast þessa mikilvægu auðlind af virðingu og alúð.“

Þetta var, frú forseti, úr leiðara Morgunblaðsins hinn 1. nóvember 2005. Ég held að það væri meira við hæfi að hér á hinu háa Alþingi mundum við feta í fótspor Hollendinga og Úrúgvæ og banna einkavæðingu á vatni með lögum. Það held ég að væri mun skynsamlegri nálgun en þetta frumvarp til vatnalaga sem hér liggur fyrir og við ræðum.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og reyndar þingmenn Samfylkingar og Frjálslynda flokksins einnig höfum bent á að ef þörf er á að endurskoða þessi ágætu lög, vatnalögin sem gilda nú í dag og eru að grunninum til frá árinu 1923, þá beri að gera heildarendurskoðun en ekki að einungis þetta frumvarp sem samið er uppi í iðnaðarráðuneyti með hagsmuni virkjana, stórvirkjana sennilega, að leiðarljósi, sé haft til hliðsjónar. Í forgangi ætti auðvitað að vera að fyrst sé fjallað um vatnsvernd og væri eðlilegt að umhverfisráðuneytið mundi taka það að sér og að eftirlit með þessum nýju lögum verði á hendi Umhverfisstofnunar. En í þessum lögum er gert ráð fyrir að eftirlitið og umsjón með þessu verði á hendi Orkustofnunar. Það segir okkur auðvitað hver hugurinn og tilgangurinn með þessum vatnalögum er. Þau eru greinilega miðuð við þessar þarfir. Í umræðunni í dag og í gær á ráðstefnu sem haldin var sérstaklega um þetta kom m.a. fram að spurning er hvort þetta frumvarp breytir réttarstöðu t.d. við Kárahnjúka. Það kann að vera skýringin á því hversu mikið liggur á að koma þessu frumvarpi í gegnum þingið að settir eru á kvöldfundir kvöld eftir kvöld og á tímum sem ekki voru ætlaðir til þingfunda. Þess vegna erum við hér á laugardegi, laugardagseftirmiðdegi, að ræða þetta frumvarp til vatnalaga. Mikið hlýtur að liggja á og maður hefur verið að velta því fyrir sér af hverju liggi svo á. Af hverju liggur hæstv. iðnaðarráðherra svona mikið á að frumvarpið þeysist í gegnum þingið?

Það hefur verið farið fram á að iðnaðarnefnd verði kölluð saman vegna þess að það eru fleiri upplýsingar sem hafa komið fram sem ætti að taka tillit til en við þeim óskum hefur því miður ekki verið orðið.

Það hefur fleira verið rætt og skrifað um þessa ráðstefnu Vatn fyrir alla sem fjölmörg samtök stóðu fyrir og ber að þakka það að þau tóku þetta mál upp og gerðu því góð skil. Ég er sjálfur sannfærður um að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki að vatn á Íslandi verði einkavætt.

Í fréttaskýringu sem Þórður S. Júlíusson skrifar í Blaðið þann 19. nóvember sl. og ber yfirskriftina Evrópa næsti markaður vatnsfyrirtækja segir, með leyfi forseta:

„Einkavæðing er umdeilanleg og sitt sýnist hverjum um kosti þeirrar aðferðarfræði. Hér á Íslandi hefur hún verið talin vel heppnuð að mörgu leyti og búið er að einkavæða nánast allt sem hægt er utan hornsteina almannaþjónustunnar. Þjónustuliðir eins og rafmagns- og vatnsveitur hafa þó verið einkavæddar víða um heim með afar misjöfnum árangri. Blaðið kynnti sér árangurinn, ástæður þess að farið hefur verið út í slíkar rekstrarbreytingar og hvað mundi gerast á Íslandi ef þær verða að veruleika hér á landi.

Alþjóðabankinn hefur alltaf staðhæft að hann neyði ekki einkavæðingu upp á þau lönd sem hjá honum hljóta lán. Rannsóknir ICIJ (International Consortium of Investigative Journalists), sem gerðar voru í samstarfi við bankann, sýna þó að einkavæðing er að verða stærri og stærri hluti af skilyrtri lánastefnu bankans. Gögn frá Alþjóðabankanum sýndu að á árunum 1990 til loka árs 2002 hafi bankinn veitt 276 lán undir heitinu Water Supply Loans og fól í sér breytingar eða einhvers konar áhrif á vatnsaðgengi viðkomandi landa. Í einu af hverjum þrem lánum sem bankinn veitti undir þessum formerkjum var þess krafist að viðkomandi land mundi einkavæða vatnsveitur sínar að einhverju eða öllu leyti áður en lánin voru veitt. Þessi lán falla undir hatt svokallaðra fjárfestingarlána en það eru langtímalán sem bankinn veitir til 5–10 ára í senn.

Alþjóðabankinn veitir einnig svokölluð aðlögunarlán sem eru til skemmri tíma eða 1–3 ára í senn. Á tímabilinu 1996–1999 voru 193 slík lán veitt. Af þeim voru 112, eða 58% þeirra, bundin einhvers konar skilyrðum sem fólu í sér einkavæðingarskyldu á opinberum þjónustufyrirtækjum. Því virðist augljóst að Alþjóðabankinn hafi vissulega lagt sín lóð á vogarskálar einkavæðingar á opinberri þjónustu. Þótt öll lán bankans séu ekki bundin slíkum einkavæðingarskilyrðum þá er stór hluti þeirra það klárlega.

David Hall er prófessor og forstöðumaður deildar við Háskólann í Greenwich sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á mismunandi rekstrarformum innan almannaþjónustu. Hann hélt erindi á Íslandi í gær,“ — sem hefur verið sem sagt 18. nóvember — „þar sem hann talaði um afleiðingar einkavæðingar vatns. Í máli hans kom fram að þau fyrirtæki sem hafa tekið yfir rekstur vatnsveitna í þróunarlöndum sem hafa gengist undir einkavæðingarskuldbindingar vegna lána og annars konar þrýstings alþjóðastofnana vilji flestöll losna út úr þessum rekstri. Auk þess standa þau mörg hver í dómsmálum vegna þess að þau hafa ekki grætt eins mikið og þau bjuggust við. Í Argentínu einni eru t.d. 42 slík mál í gangi þar sem alþjóðleg einkafyrirtæki eru að krefja ríkisstjórnir um skaðabætur fyrir skort á gróða. Þessum málum hefur nú verið vísað til alþjóðlegra gerðardóma og verður niðurstaða þeirra án efa athyglisverð og fordæmisgefandi.

Áhugaverðasta dæmi um einkavæðingu sem er farin að súrna sem David Hall talaði um er líklega staða Jakarta, höfuðborgar Indónesíu. Þar voru vatnsveiturnar einkavæddar og seldar tveimur alþjóðlegum vatnsrisum, franska fyrirtækinu Suez og Thames Water Utilities sem er upprunnið í Bretlandi. Í dag vilja bæði þessi fyrirtæki komast undan skuldbindingum sínum og skila vatnsveitum til stjórnvalda vegna þess að þær eru ekki nægilega arðbærar. Fyrirtækin vilja hins vegar að stjórnvöld segi upp samningum við þau svo þau geti síðan krafist skaðabóta vegna uppsagnarinnar. Stjórnvöld vilja á sama tíma þjóðnýta vatnið að nýju en telja sig ekki geta sagt upp samningum við einkafyrirtækin vegna þess að þau hafa ekki efni á því að borga þeim skaðabæturnar sem þau mundu þá sækja. Báðir aðilar eru því sammála um að þjóðnýta eigi vatnið að nýju en það er samt ekki hægt vegna mögulegra skaðabótakrafna. Þarna hefur því skapast algert sjálfskaparvíti.“ — Í tengslum við þetta er vert að minna á að þingmenn Framsóknarflokksins hafa talað af mikilli fyrirlitningu um þjóðnýtingu en þetta er einmitt reynsla þjóða sem hafa farið út í algera einkavæðingu á vatnslindum.

Áfram segir í fréttaskýringu Þórðar S. Júlíussonar í Blaðinu þann 19. nóvember, með leyfi forseta:

„David Hall segir að þessi vatnsfyrirtæki séu í síauknum mæli að horfa til Evrópu í seinni tíð eftir að hafa að stærstum hluta mistekist í þróunarlöndunum. Þetta er fyrst og fremst vegna þess að það þrífst mun meiri pólitískur stöðugleiki í Evrópu en í þróunarheiminum og efnahagslegar forsendur eru allt aðrar. „Þau hafa enn fulla trú á því að einkavæðing vatns geti verið arðbær iðnaður,“ segir David og nefnir þreifingar sem hafa þegar átt sér stað í Rússlandi því til stuðnings. Hann segir það klárt mál að þessi fyrirtæki horfi hýrum augum til hinnar stöðugu Evrópu velsældar og allsnægta þegar þau eru að skoða viðskiptatækifæri framtíðarinnar. „Öll pólitískt stöðug ríki í Evrópu sem eru efnahagslega farsæl eru skotmörk þessarar einkavæðingar.“ David segir að þetta sé helst vegna þess að lagakerfi Evrópulanda mundu án efa viðurkenna rétt fyrirtækjanna til skaðabóta því eignarréttur er nánast án undantekninga gífurlega vel varinn innan lagabálka þeirra.

Sem pólitískt stöðugt og efnahagslega farsælt land hlýtur Ísland að vera eitt þessara ríkja. Hér á landi er eignarréttur landeigenda líka niðurnegldur í auðlindalögum, hér ríkir því alger eignarréttur á vatni. Það þýðir að aðgengi að vatni er ekki tryggt heldur er vatn eign einstaklinga eða stofnana. Vissulega eru vatnsveitur enn sem komið er í eigu sveitarfélaga á Íslandi en það er ekkert því til fyrirstöðu að þær verði seldar einkaaðilum í framtíðinni. Reyndar virðist það vera yfirlýst stefna núverandi stjórnvalda að halda áfram með það einkavæðingarferli sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og ef heilbrigðis- og menntamál eru undanskilin þá virðist fátt vera eftir til að einkavæða utan þeirrar almannaþjónustu sem sér landanum fyrir rafmagni, hita og auðvitað vatni. Raunar sagði Geir H. Haarde í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í síðasta mánuði,“ — þ.e. í október 2005 — „að honum þætti „mikilvægt að gefa einkarekstrinum tækifæri til að koma víðar að þeirri þjónustu sem er fjármögnuð af hinu opinbera,“ og kom þar fram að hann hafi einna helst horft í átt til Landsvirkjunar í þeim efnum.

Ef Landsvirkjun er gjaldgeng til einkavæðingar þá virðist fátt því til fyrirstöðu að hægt verði að einkavæða vatn líka. Iðnaðarráðherra hefur vissulega leyfi samkvæmt auðlindalögum til að nýta auðlindir hvar sem þær finnast og eftir hentugleika samkvæmt auðlindalögum frá 1998. Þessi nýting er hins vegar háð því að ríkið nái samkomulagi við jarðeigendur um greiðslu fyrir ómakið eða sérstakri skaðabótagreiðslu til hans ef slíkir samningar nást ekki. Það er því ljóst að það fylgir því aukinn kostnaður fyrir ríkið að tryggja aðgengi þegna sinna að vatni ef það getur mögulega verið skilgreint sem markaðsvara og einkavæðingarhugsjónir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga. Það mætti ætla að sá kostnaður mundi aukast eftir því sem vatn verður mikilvægara sem verslunarvara. Þar sem þegnarnir eru þeir sem standa straum af kostnaði ríkisrekstrarins er ljóst að sá aukni kostnaður mundi lenda á okkur. Því er krafa BSRB og annarra félagasamtaka um að eignarhald á neysluvatni til almennings verði gert félagslegt í stað þess að vera sértækt og réttur þegnanna til aðgengis á því verði settur í stjórnarskrá afar skiljanleg. Ef svo verður ekki þá er alltaf vafamál hvort þjóðinni verði tryggt nægjanlegt framboð, öryggi og aðgengi að vatni á hóflegu verði.“

Þetta var úr fréttaskýringu Blaðsins frá því 19. nóvember 2005. Þórður S. Júlíusson skrifaði hana.

Lokaorðin eru afar mikilvæg og sú staðreynd að nefndin sem fjallar um endurskoðun á stjórnarskránni er einmitt að fjalla um þessi mál núna, segir okkur að það liggur alls ekkert á og gæti jafnvel skaðað þá vinnu að samþykkja eða hleypa í gegn þessum lögum sem iðnaðarráðuneytið kallar frumvarp til vatnalaga. Það er reyndar mjög mikilvægt að velta þessu fyrir sér í miklu stærra samhengi. Áhrif vatns á okkur öll og mikilvægi vatns — og það er ítrekað í umsögn þessara fjölmörgu samtaka að vatn er ekkert venjulegt efni. Í þessu frumvarpi segir að sá sem eigi landið eigi ekki einungis yfirborðsvatn eða grunnvatn heldur einnig vatn sem rennur fram hjá. Þetta er nýr skilningur í vatnalögum. Þetta eru mun víðtækari heimildir og skilgreiningar en við höfum hingað til búið við.

Inn í þessa umræðu hafa blandast vangaveltur um aðra hluti sem eru að gerast í þjóðfélaginu, þ.e. risavirkjunina uppi á Kárahnjúkum, álverin sem verið er að reisa, stækka eða reisa ný. Á því ágæta vefriti Múrnum birtist mjög áhugaverð grein eftir Steinþór Heiðarsson hinn 14. ágúst 2004 þar sem hann fjallar aðeins um vatnsmál í Bólivíu og það tengist einmitt því fyrirtæki sem er að reisa álverið á Reyðarfirði, nefnilega fyrirtækinu Bechtel. Ég ætla að lesa aðeins úr þessari grein. Hún heitir Úr afrekaskrá Bechtel, Vatnið í Bólivíu. Hér segir, með leyfi forseta:

„Forusta samtaka fjármálafyrirtækja á Íslandi grætur nú sárar en nokkru sinni yfir því að enn eimi örlítið eftir af félagslegri hugsun í húsnæðismálum landsmanna þar sem Íbúðalánasjóður er. Kæra sem samtökin sendu Eftirlitsstofnun Fríverslunarbandalags Evrópu (ESA) skilaði ekki tilætlaðri niðurstöðu en fjármálafyrirtækin munu líkast til halda málarekstri áfram. Þau eru enda búin með Ísland, allir fjárfestingarmöguleikar eru uppurnir. Vöxturinn getur ekki allur orðið í áhættufjárfestingum erlendis og þá er ekki um annað að ræða en að brjóta sér leið inn í almannaþjónustu.

Fyrir skömmu voru stigin fyrstu skrefin í átt að því að færa vatnsveitur á Íslandi frá almenningi yfir í einkaeigu. Líkt og með fleira sem til vandræða horfir í veröldinni þrýsta Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á um slíka breytingu þar sem því verður við komið. Þau lönd sem eiga erfitt með að standa í skilum hafa mörg hver verið neydd til að einkavæða vatnsveitur eins og ýmsa aðra almannaþjónustu.

Sumarið 1999 fór ríkisstjórn Bólivíu að „ráðum“ Alþjóðabankans og hóf að einkavæða vatnsveitur í landinu. Íslandsvinirnir í Bechtel brugðust skjótt við og stofnuðu fyrirtækið Aguas de Tunari ásamt nokkrum öðrum kapítalistum. Það keypti upp allar vatnsveitur í Cochabamba,“ — ég vona að ég beri þetta rétt fram. Ég er nú ekki sleipur í spænsku. — „þriðju stærstu borg Bólivíu, og fékk einkarétt á vatnsdreifingu þar. Það þýddi að m.a.s. þeir sem áttu brunna við sín eigin hús urðu annaðhvort að eyðileggja þá eða borga Aguas de Tunari fyrir að nýta brunnana.

Þegar þessari fullkomnu einokunaraðstöðu var náð hófst vinna við að tryggja hinum nýju eigendum umsaminn 16% arð af vatnsveitunni ár hvert. Gjald fyrir neysluvatn hækkaði um allt að 400% þar sem fólk varð harðast úti. Sums staðar kom þó ekki dropi úr krönunum nema í tvo klukkutíma á dag. Engu að síður sýndu reikningar frá fyrirtækinu mjög aukna vatnsnotkun hjá öllum almenningi og voru upphæðirnar í samræmi við það.

Nútímavæðing vatnsveitukerfisins í Bólivíu leiddi til gríðarlegra fjöldamótmæla sem náðu hámarki 28. desember þegar óeirðalögregla var send á vettvang til að dreifa mannfjöldanum með táragasi. Það var í fyrsta sinn í 18 ár sem táragas var notað gegn almenningi í landinu. En mótmælin héldu áfram og yfirvöld neyddust til að gefa eftir. Gefið var opinbert loforð um að endurskoða lög um vatnsveitur til að koma til móts við kröfur almennings.

Svo lítið var um efndirnar að fólk hætti að borga reikningana frá Aguas de Tunari og í byrjun febrúar kom aftur til mótmæla. Þegar þrjátíu þúsund manns höfðu lagt undir sig miðbæ Cochabamba kom lögreglan á vettvang og hóf að skjóta á mannfjöldann. Þar með hófust götubardagar sem stóðu í tvo daga.

Málalok urðu þau að Bechtel og félagar yfirgáfu Bólivíu með skottið á milli lappanna. En það gerðist auðvitað ekki fyrr en allt hafði verið reynt til að vernda hagsmuni Aguas de Tunari í landinu. Búið var að setja herlög í landinu og reyna að beita hernum gegn mótmælendum en allt kom fyrir ekki.“

Þessi grein eftir Steinþór Heiðarsson segir okkur dálítið um ástandið í Bólivíu og það er áhugavert að einmitt nú skuli nágrannaland Bólivíu, Úrúgvæ, vera að setja lög sem banna einkavæðingu á vatninu, og er það auðvitað mjög skiljanlegt í ljósi ástandsins sem skapaðist í Bólivíu. Það er allrosalegt þegar lönd þar sem vatnsskortur er lenda í því að einhver alþjóðabanki knýr þau til þess að einkavæða einkavæðingarinnar vegna og síðan fer allt í kaldakol.

Við höfum aðeins rætt það hér að vatn sé sameiginleg arfleifð okkar og kveðið er á um það í vatnatilskipun Evrópusambandsins. Um þá sameiginlegu arfleifð er sagt í bókinni Alternatives to economic globalization. A better world is possible:

„Til er sameiginleg arfleifð sem varðar sameiginlegan tilverurétt allra tegunda. Greina má þrjá flokka sameiginlegrar arfleifðar:

1. Vatn, land, loft, skógar og fiskimið sem líf allra er háð.“

Þetta eru einmitt þessi náttúrulegu efni, loftið sem við lifum á og vatnið ekki síður og nota bene fiskimiðin. Það er dálítið merkilegt og í þessari umræðu hefur margoft verið bent á það að vatnið er sameiginleg auðlind okkar ekki síður en fiskurinn í sjónum ætti að vera.

„2. Menning og þekking sem er sameiginleg sköpun allra.

3. Nýrri sameiginleg arfleifð, almannaþjónusta sem stjórnvöld bera ábyrgð á í þágu alls almennings til að mæta þörfum, svo sem heilbrigðismál, menntun, öryggi almennings, félagslegt öryggi o.s.frv. Allri þessari sameiginlegu arfleifð er ógnað af stórfyrirtækjum sem sækjast eftir einkavæðingu hennar í því skyni að geta verslað með hana og hagnast á henni.

Saman mynda þessir þrír flokkar grundvöll alls virkilegs auðs. Þegar allt kemur til alls er hvorki líf né siðmenning án þeirra. Mikilvægt er að viðurkenna framlag einstaklinga til aukins afraksturs auðlinda og sameiginlegs sjóðs menningar og þekkingar en jafnframt er nauðsynlegt að horfast í augu við að enginn einstaklingur hefur skapað náttúrulegan auð jarðarinnar eða undirstöðu hinnar sameiginlegu þekkingar. Nýting þessarar sameiginlegu arfleifðar felur í sér ábyrgð gagnvart henni.“ — Það skyldi því ekki gera lítið úr þessu hlutverki okkar, þetta er sameiginleg ábyrgð okkar allra.

Bent hefur verið á að vatn verður í framtíðinni svo mikilvægt efni að sennilega verða stríð 21. aldarinnar háð út af því en ekki olíu eins og við höfum dæmi um. Persaflóastríðið er t.d. augljóst dæmi um stríð sem er háð út af yfirráðum yfir náttúruauðlindum, náttúruauðlindum sem eru til í mjög ríkum mæli í Írak. Bandaríkjamenn vildu ná yfirráðum yfir þessari náttúruauðlind vegna þess að þeir þurfa á mikilli olíu að halda. Þó að þeir framleiði sjálfir eða dæli upp mjög mikilli olíu þá dugar það hvergi til fyrir þá sjálfa. Það var því mjög mikilvægt fyrir þá að ná yfirráðum yfir þessum auðlindum.

Nú þegar er vatnið líka farið að skipta máli. Við þekkjum það t.d. að Ísraelsmenn neita t.d. Palestínumönnum um aðgang að hreinu vatni. Það er vissulega alvarlegt brot á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar skilgreina vatn sem mannréttindi.

Í tilefni þessara orða ætla ég að vitna aðeins í Nóbelsverðlaunahafann Harold Pinter og ræðu sem hann flutti við móttöku bókmenntaverðlauna Nóbels árið 2005. Það var Silja Aðalsteinsdóttir sem þýddi ræðuna. Yfirskrift ræðu Harolds Pinters er List, sannleikur og stjórnmál. Harold Pinter segir, með leyfi forseta:

„Árið 1958 skrifaði ég eftirfarandi: „Það eru engin skörp skil milli þess sem er raunverulegt og þess sem er óraunverulegt. Ekkert er endilega annaðhvort satt eða logið; það getur verið hvort tveggja.“

Ég held að enn sé vit í þessum fullyrðingum og þær séru enn nothæfar við rannsókn á veruleikanum gegnum listina. Ég get því staðið við þær sem rithöfundur, en ekki sem þjóðfélagsþegn. Sem þegn hlýt ég að spyrja: Hvað er satt? Hvað er logið?

Sannleikurin hörfar sífellt undan í dramatískum texta. Maður finnur hann aldrei fyrir víst en verður að leita hans. Leitin knýr leikinn áfram. Leitin er ykkar verk. Oftar en ekki rekist þið á sannleikann í myrkrinu, dettið um hann eða sjáið í sjónhending ímynd eða skuggamynd sem virðist samsvara sannleikanum, oft án þess að átta ykkur á því. En sannleikurinn er sá að sannleikurinn er aldrei einn og einhlítur í dramatísku verki. Hann er margur. Þessir sannleikar bjóða hver öðrum byrginn, hrökkva hver undan öðrum, spegla hver annan, hundsa hver annan, stríða hver öðrum og eru blindir hver á annan. Stundum finnst ykkur við hafa gripið sannleika augnabliksins, svo rennur hann milli fingra ykkar og týnist.

Ég hef oft verið spurður hvernig leikritin mín verða til. Ég get ekki sagt. Ekki get ég heldur tekið verk mín saman efnislega, bara rakið atburðarásina. Þetta sögðu þau. Þetta gerðu þau.

Flest leikritin verða til út frá setningu, orði eða mynd. Gefnu orði fylgir iðulega mynd. Ég skal nefna tvö dæmi um setningar sem skaut niður í huga minn, svo fylgdi mynd, svo ég sjálfur.

Leikritin eru Heimkoman og Liðin tíð. Fyrsta setningin í Heimkomunni er „Hvað gerðirðu við skærin?“ Fyrsta línan í Liðinni tíð er „Dökkt“. Í báðum tilvikum hafði ég engar frekari upplýsingar.

Í fyrra tilvikinu var einhver greinilega að leita að skærum og spurði einhvern annan um þau sem hann grunaði um að hafa stolið þeim. En ég vissi að sá sem var ávarpaður hafði engan áhuga á þessum skærum og ekki heldur á þeim sem spurði um þau.

„Dökkt“ hélt ég að ætti við hárið á einhverjum, líklega konu, og væri svar við spurningu. Í báðum tilfellum varð ég að rannsaka málið. Það gerðist sjónrænt, mjög hægt, úr skugga yfir í birtu.

Ég byrja alltaf á því að nefna persónurnar A, B og C.

Í leikritinu sem varð Heimkoman sá ég mann ganga inn í tómlegt herbergi og spyrja yngri mann þessarar spurningar þar sem hann sat í ljótum sófa og las blað um veiðreiðar. Einhvern veginn grunaði mig að A væri faðir og B sonur hans, en ég hafði enga sönnun fyrir því. Hún kom skömmu seinna þegar B (sem seinna varð Lenny) segir við A (sem seinna varð Max): „Er þér sama þótt ég skipti um umræðuefni, pabbi? Ég þarf að spyrja þig að dálitlu. Hvað heitir maturinn sem við fengum, hvað kallarðu hann? Af hverju kaupirðu ekki hundaket. Þú er hundlélegur kokkur. Alveg satt. Þú heldur að þú sért að elda fyrir hunda.“ Úr því að B kallar A „pabba“ virðist einsýnt að líta á þá sem feðga. A var líka greinilega kokkur en ekki var eldamennska hans mikils metin. Þýddi þetta að þarna væri engin mamma? Ég vissi það ekki. En, eins og ég sagði við sjálfan mig, þá vitum við ekki endinn í byrjun.

„Dökkt.“ Stór gluggi. Kvöldhiminn. Maður, A (sem seinna varð Deely) og kona, B (sem seinna varð Kate), sitja og staupa sig. „Feit eða mögur?“ spyr maðurinn. Hvern eru þau að tala um? Þá sé ég konu, C (sem seinna varð Anna) standa við gluggann í öðru ljósi, snúa baki í þau, dökkhærð.

Það er einkennilegt augnablik þegar persónur fæðast sem fram að því hafa ekki verið til. Það sem fylgir er slitrótt, ótryggt, minnir jafnvel á ofsjónir þó að stundum geti það verið óstöðvandi snjóflóð. Staða höfundarins er einkennileg. Að sumu leyti taka persónurnar honum illa. Þær streitast á móti honum, þær eru ekki auðveldar í sambúð, það er engin leið að skilgreina þær. Maður getur sannarlega ekki skipað þeim fyrir. Að sumu leyti er maður í endalausum leik við þær, leik kattarins að músinni, skollaleik, feluleik. En að lokum er maður kominn með fólk af holdi og blóði í hendurnar, fólk með vilja og einstaklingsbundnar tilfinningar, sett saman úr einingum sem maður getur ekki breytt, fiktað við eða afskræmt.

Tungumál listarinnar er afar margslungið, kviksyndi, trampólín, tjörn lögð ísi sem gæti látið undan þunga höfundarins hvenær sem er.

En eins og ég sagði linnir aldrei leitinni að sannleikanum. Og henni er engin leið að slá á frest. Það verður að horfast í augu við hana hér og nú.

Allt önnur vandamál fylgja pólitísku leikhúsi. Þar verður umfram allt að forðast predikanir. Hlutlægni er nauðsyn. Persónurnar verða að fá að draga andann sjálfar. Höfundurinn getur ekki takmarkað þær og þrengt að þeim til að laga þær að eigin smekk, geðslagi eða fordómum. Hann verður að geta nálgast þær frá ýmsum sjónarhornum, jafnvel komið þeim á óvart við og við, en gefið þeim samt frelsi til að fara þangað sem þær vilja fara. Þetta tekst ekki alltaf. Og pólitískar háðsádeilur hirða ekki um neina af þessum reglum, ganga reyndar þvert á þær eins og vera ber.

Í leikriti mínu Afmælisveislunni held ég að ég leyfi mörgum möguleikum að reyna sig í þéttum skógi tækifæra áður en ég einbeiti mér að kúgunarþættinum.

Mountain Language þykist ekki gefa neina valmöguleika, það er grimmt, stutt og ljótt verk. En hermennirnir í því fá nokkra skemmtun út úr því. Manni gleymist stundum hvað pyndingamönnum fer fljótt að leiðast. Þeir þurfa svolítið grín til að halda í góða skapið. Þetta kom í ljós í Abu Ghraib fangelsinu í Bagdad. Mountain Language tekur aðeins 20 mínútur en það væri hægt að leika það klukkutímum saman, áfram og áfram með því að endurtaka sama munstrið aftur og aftur, áfram og áfram, klukkutíma eftir klukkutíma.

Ashes to Ashes gerist hins vegar ofan í vatni, held ég. Kona er að drukkna, hönd er rétt upp úr öldunum, svo hverfur hún aftur, teygir sig eftir öðrum en finnur engan, hvorki fyrir ofan né neðan vatnsyfirborðið, bara skugga, speglanir á floti. Konan er týnd vera í drekkjandi landslagi, kemst ekki hjá dómi sem virtist aðeins eiga við aðra.

En eins og þeir dóu hlýtur hún að deyja líka.

Pólitískt málfar eins og stjórnmálamenn beita því hættir sér ekki inn á þessi svið vegna þess að meiri hluti stjórnmálamanna hefur, eftir því sem heimildir okkar sýna, engan áhuga á sannleikanum heldur á völdum og varðveislu þeirra. Ef halda á völdum er nauðsynlegt að halda fólki fáfróðu, láta það lifa óvitandi um sannleikann, jafnvel sannleika eigin lífs. Þess vegna erum við umkringd miklu neti af lygum sem við nærumst á.

Eins og hver einasta manneskja hér veit voru rökin fyrir því að ráðast inn í Írak þau að Saddam Hussein réði yfir háskalegum gereyðingarvopnum sem jafnvel mætti beita með 45 mínútn fyrirvara og valda ómældum skaða. Við vorum fullvissuð um sannleiksgildi þessa. Þetta var ósatt. Okkur var líka sagt að Írak ætti samskipti við Al Qaeda og bæri hluta af ábyrgðinni á hryðjuverkunum í New York 11. september 2001. Við vorum fullvissuð um sannleiksgildi þessa. Þetta var ósatt. Okkur var sagt að Írak ógnaði öryggi heimsins. Við vorum fullvissuð um sannleiksgildi þessa. Þetta var ósatt.

Sannleikurinn er allt annar. Sannleikurinn snertir skilning Bandaríkjanna á hlutverki sínu í heiminum og hvernig þau kjósa að rækja það.

En áður en ég sný mér aftur að nútíðinni langar mig til að líta á nýliðna fortíð, nefnilega utanríkisstefnu Bandaríkjanna frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Ég tel brýnt að skoða þetta tímabil þó ekki sé nema lauslega, enda leyfir tíminn ekki meira.

Allir vita hvað gerðist í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu eftir stríð: kerfibundið ofbeldið, víðtæk grimmdarverkin, miskunnarlaus kúgun á sjálfstæðri hugsun. Allt þetta hefur verið skráð og sannað.

En ég vil halda því fram hér að glæpir Bandaríkjanna á þessu sama tímabili hafi ekki verið kannaðir nema yfirborðslega, hvað þá skjalfestir, hvað þá viðurkenndir, hvað þá taldir til glæpa yfirleitt. Ég tel að þetta þurfi að ræða og sannleikurinn hafi verulega mikið að segja fyrir ástandið í heiminum eins og það er. Þó að Sovétríkin héldu að nokkru leyti aftur af Bandaríkjunum þá hefur framferði Bandaríkjanna um allan heim sýnt það glögglega að þeim fannst þau geta gert það sem þeim sýndist.

Það hefur reyndar aldrei verið eftirlætisaðferð Bandaríkjanna að ráðast beint inn í fullvalda ríki. Yfirleitt hafa þau fremur kosið „minni háttar átök“. Það þýðir að þúsundir manna deyja en ekki eins hratt og ef sprengju væri varpað á þá beint. Það þýðir að hjarta landsins er sýkt, illkynja æxli er komið fyrir og svo er fylgst með drepinu breiða úr sér. Þegar þjóðin hefur verið kúguð — eða barin til dauðs — það kemur út á eitt — og einkavinir manns, herinn og stórfyrirtækin, sitja í makindum við völd, þá stillir maður sér upp fyrir framan myndavélarnar og segir að lýðræðið hafi sigrað. Þetta var algengt í utanríkispólitík Bandaríkjanna á árunum sem ég er að tala um.

Harmleikurinn í Nikaragva er stórmál í þessu samhengi. Ég legg það fram hér sem áhrifamikið dæmi um sýn Bandaríkjanna á hlutverk sitt í heiminum, bæði þá og nú.

Ég sótti fund í bandaríska sendiráðinu í London seint á núnda áratugnum.

Bandaríkjaþing var í þann veginn að ákveða hvort það ætti að veita Kontraskæruliðum meiri fjárstuðning til að berjast gegn stjórninni í Nikaragva Ég var í sendinefnd á vegum stjórnar Nikaragva en fremstur í þeim flokki var séra John Metcalf. Fyrirliði nefndar Bandaríkjastjórnar var Raymond Seitz (þá varasendiherra, síðar sendiherra). Séra Metcalf sagði: „Herra minn, prestakall mitt er í Norður-Nikaragva. Sóknarbörn mín reistu skóla, heilsuverndarstöð, menningarmiðstöð. Við höfum lifað í friði. Fyrir nokkrum mánuðum réðist flokkur Kontraskæruliða á héraðið. Þeir eyðilögðu allt, skólann, heilsuverndarstöðina, menningarmiðstöðina. Þeir nauðguðu hjúkrunarkonum og kennurum, drápu lækna með hinum svívirðilegustu aðferðum. Þeir höguðu sér eins og villimenn. Vinsamlegast biðjið Bandaríkjastjórn að hætta að styðja þessa hryðjuverkamenn.“

Raymond Seitz hafði orð fyrir að vera skynsamur, ábyrgur og afar fágaður maður. Hann naut mikillar virðingar í utanríkisþjónustunni. Hann hlustaði, þagði við en sagði síðan með nokkrum þunga: „Faðir“, sagði hann, „leyfið mér að segja yður nokkuð. Í stríði þjást hinir saklausu ævinlega.“ Þögnin var ísköld. Við störðum á hann. Hann deplaði ekki auga.

Hinir saklausu þjást vissulega, alltaf.

Loks sagði einhver: „En í þessu tilfelli eru hinir saklausu fórnarlömb grimmdar sem stjórn yðar styrkir, og meðal margra slíkra. Ef þingið veitir Kontraskæruliðum meira fé verða fleiri slík grimmdarverk framin. Er það ekki rétt? Er þá ekki stjórn yðar sek um að styðja morð og tortímingu þegna í fullvalda ríki?“

Seitz var óhagganlegur. „Ég samþykki ekki að staðreyndirnar styðji fullyrðingar yðar,“ sagði hann.

Þegar við vorum að fara út úr sendiráðinu sagði starfsmaður þess að hann héldi upp á leikritin mín. Ég ansaði ekki.

Ég ætti að minna á að á þessum tíma gaf Reagen forseti eftirfarandi yfirlýsingu: „Kontraskæruliðar eru siðferðileg hliðstæða við feður Bandaríkjanna, okkar Founding Fathers.“

Bandaríkjastjórn studdi grimmdarstjórn einræðisherrans Somoza í Nikaragva í yfir 40 ár. Þjóðin steypti ógnarstjórninni árið 1979 í grasrótarbyltingu sem Sandinistar leiddu.

Sandinistar voru ekki fullkomnir. Þeir áttu til sinn hroka, og stjórnmálaheimspeki þeirra var þversagnakennd. En þeir voru greindir, skynsamir og siðmenntaðir. Þeir hófust handa við að skapa tryggt, gott og fjölbreytilegt samfélag. Dauðarefsing var afnumin. Hundruðum þúsunda fátækra bænda var bjargað frá bana. Yfir hundrað þúsund fjölskyldum var gefið land. Tvö þúsund skólar voru byggðir. Merkileg lestrarherferð minnkaði ólæsi í landinu í einn sjöunda. Menntun varð ókeypis og heilsugæsla líka. Barnadauði minnkaði um þriðjung. Lömunarveiki var útrýmt.

Bandaríkin fordæmdu þennan árangur sem marxísk-leníníska niðurrifsstarfsemi. Í augum Bandaríkjastjórnar var verið að gefa háskalegt fordæmi. Ef Nikaragva yrði leyft að koma á lágmarksréttlæti í félagslegu og efnahagslegu tilliti, ef þjóðinni yrði leyft að bæta heilsufar og menntun og koma á félagslegri eindrægni og almennri sjálfsvirðingu þá mundu nágrannaríkin spyrja sömu spurninga og gera eins. Á þessum tíma var auðvitað mikil ólga í El Salvador.

Ég nefndi áðan lyganetið sem umlykur okkar. Reagan forseti lýsti Nikaragva opinberlega sem dýflissu alræðisins. Þetta þótti flestum fjölmiðlum og bresku ríkisstjórninni nákvæm og sanngjörn lýsing. En það eru engar skýrslur til um dauðasveitir Sandinistastjórnar. Engar skýrslur um pyndingar. Engar skýrslur um kerfisbundið ofbeldi hersins. Engir prestar voru myrtir í Nikaragva. Reyndar voru þrír prestar í stjórninni, tveir Jesúítar og Maryknoll-trúboði. Dýflissur alræðisins voru á næstu bæjum, El Salvador og Gvatemala. Bandaríkin höfðu steypt lýðræðislega kosinni stjórn í Gvatemala 1954 og talið er að yfir 200.000 manns hafi orðið herforingjastjórninni að bráð þar síðan.

Sex fremstu Jesúítar í heimi voru myrtir á grimmilegan hátt í Miðameríska háskólanum í San Salvador 1989 af flokki úr Alcatl-hersveitinni sem var þjálfuð í Fort Benning í Georgíu í Bandaríkjunum. Sá hugrakki maður Romero erkibiskup var myrtur meðan hann söng messu. Talið er að 75.000 manns hafi dáið. Af hverju var þetta fólk drepið? Það var drepið af því það trúði að það gæti öðlast betra líf. Þessi trú gerði það umsvifalaust að kommúnistum. Það dó af því það þorði að andmæla ástandinu, endalausri fátækt, sjúkdómum, niðurlægingu og kúgun sem það hafði þurft að þola frá fæðingu.

Bandaríkin komu stjórn Sandinista frá að lokum. Það tók nokkur ár og talsverða mótspyrnu en hlífðarlausar efnahagsþvinganir og 30.000 lík drógu að lokum kraftinn úr þjóð Nikaragva. Hún var buguð og örsnauð á ný. Spilavítin fluttust inn í landið aftur. Ókeypis heilsugæsla og menntun heyrðu sögunni til. Stórfyrirtækin komu aftur og létu til sín taka. „Lýðræðið“ hafði sigrað.

Þessi stefna var hreint ekki bundin við Mið-Ameríku. Henni var fylgt um allan heim. Hún var endalaus. Þó var eins og hún hefði aldrei verið til.

Bandaríkin studdu og komu iðulega á hægri sinnuðum herforingjastjórnum víðs vegar um heim eftir síðari heimsstyrjöld. Þá er ég að vísa til Indónesíu, Grikklands og Úrúgvæ, Brasilíu, Paragvæ, Haíti, Tyrklands Filippseyja, Gvatemala, El Salvador og Chile — síðast en ekki síst. Hryllingurinn sem Bandaríkjamenn kölluðu yfir Chile árið 1973 verður aldrei afmáður og aldrei fyrirgefinn.

Hundruð þúsunda manna dóu í þessum löndum. Dó það fólk í raun og veru? Og er hægt að kenna utanríkisstefnu Bandaríkjanna um allan þann dauða? Svarið er já, þetta fólk dó og utanríkisstefnu Bandaríkjanna er um að kenna. En það er ekki von að þið vitið það.

Þetta gerðist aldrei. Ekkert gerðist. Jafnvel meðan það gerðist þá gerðist það ekki. Það skipti ekki máli. Það var ekki áhugavert. Glæpir Bandaríkjanna hafa verið kerfisbundnir, stöðugir, grimmilegir, miskunnarlausir, en sárafáir hafa talað um þá. Við verðum að gefa Bandaríkjunum það. Þau hafa beitt valdi sína af kulda um allan heim um leið og þau hafa leikið hin góðu öfl. Þau hafa dáleitt heiminn af mikilli snerpu og jafnvel snilld.

Ég sting upp á því við okkur að Bandaríkin reki flottasta sjóið sem í boði er. Grimmt, tilfinningalaust, fullt fyrirlitningar og miskunnarlaust er það ef til vill, en það er líka rosalega sniðugt. Í sölumennsku kemst enginn í hálfkvisti við Bandaríkin og vinsælasta söluvaran er sjálfselska. Hún slær í gegn. Hlustið á alla Bandaríkjaforseta segja „fólkið í Ameríku“ í sjónvarpið, til dæmis í setningunni „ég segi við fólkið í Ameríku að nú er tími til að biðja og verja rétt bandarískra þegna og ég bið fólkið í Ameríku að treysta forseta sínum og þeim aðgerðum sem hann er í þann mund að grípa til á vegum fólksins í Ameríku.“

Þetta er æðislega snjallt bragð. Tungumálið er beinlínis notað til að halda hugsuninni í skefjum. Orðin „fólkið í Ameríku“ búa til ótrúlega loftmikinn huggunarkodda. Þú þarft ekkert að hugsa. Hallaðu þér bara aftur á koddann. Koddinn kæfir kannski alla skynsemi þína og gagnrýna hugsun en hann er afskaplega þægilegur. Að vísu á þetta ekki við um þær 40 milljónir sem lifa undir fátæktarmörkum og þær tvær milljónir karla og kvenna sem gista hið víðáttumikla gúlag fangelsa sem teygir sig um Bandaríkin þver og endilöng.

Bandaríkin hirða ekki lengur um að halda átökum í lágmarki. Þau sjá enga ástæðu til að halda sig til hlés né vera út undir sig. Þau leggja spil sín á borðið án þess að skeyta um skömm eða heiður. Þeim er fjandans sama um Sameinuðu þjóðirnar, alþjóðalög eða gagnrýnin andmæli sem þau líta á sem ástæðulaus og gagnslaus. Svo eiga þau líka sitt eigið litla lamb sem þau teyma á eftir sér, hið auma og framtakslausa Stóra-Bretland.

Hvað er orðið um siðferðiskennd okkar? Höfum við hana einhvern tíma? Hvað þýðir þetta orð? Vísar það til hugtaks sem afar sjaldan heyrist nú um stundir — samvisku? Samvisku nær ekki aðeins til okkar eigin gerða heldur samábyrgðar okkar með gerðum annarra? Er þetta allt dautt? Sjáið Gvantanamoflóann. Hundruðum manna haldið án ákæru í rúm þrjú ár, enga lögfræðiaðstoð fá þeir né aðra eðlilega málsmeðferð, tæknilega í haldi til eilífðarnóns. Þessum fullkomlega ólögmætu aðgerðum er haldið áfram þvert á Genfarsáttmálann. Það er ekki aðeins þolað heldur lítur hið svokallaða „alþjóðasamfélag“ nánast algerlega fram hjá því. Þetta óhæfuverk er framið af þjóð sem kallar sig „leiðtoga hins frjálsa heims“. Hugsum við um mennina í Gvantanamoflóa? Hvað segja fjölmiðlar um þá? Einstaka sinnum skjóta þeir upp kollinum — smáfrétt á síðu sex. Þeim hefur verið komið fyrir á einskismannslandi og þaðan komast þeir kannski aldrei aftur. Á þessari stundu eru margir í hungurverkfalli og fæðunni er neytt ofan í þá, þeirra á meðal eru breskir þegnar. Það er ekkert verið að vanda sig við að troða ofan í þá. Engin róandi lyf eða deyfing. Slöngunni er einfaldlega troðið ofan í nefið á manni ofan í hálsinn. Þú ælir blóði. Þetta eru pyndingar. Hvað hefur utanríkisráðherra Breta sagt um þetta? Ekkert. Hvað hefur forsætisráðherra Breta sagt um þetta? Ekkert. Hvers vegna ekki? Af því að Bandaríkin hafa sagt: Að gagnrýna hegðun okkar við Gvantanamoflóa jafngildir fjandskap. Þeir eruð annaðhvort með okkur eða móti okkur. Svo Blair heldur kjafti.

Innrásin í Írak var glæpsamleg, blygðunarlaust hryðjuverk ríkis sem gaf skít í hugtakið alþjóðalög. Innrásin var hernaðarleg geðþóttaaðferð, fædd af lygum á lygar ofan og grófri misbeitingu fjölmiðla og þar af leiðandi almennings. Aðgerð sem ætlað var að sameina hernaðarleg og efnahagsleg yfirráð Bandaríkjanna yfir Miðausturlöndum undir fölsku flaggi frelsunar — þegar öll önnur ráð til að réttlæta hana höfðu brugðist. Gríðarleg beiting hernaðarvalds sem leiddi til dauða og limlestingar þúsunda og aftur þúsunda saklausra manna.

Við höfum fært Írökum pyndingar, klasasprengjur, skert úran, óteljandi tilviljanakenndar morðárásir, eymd, niðurlægingu og dauða, og köllum það „að flytja frelsi og lýðræði til Miðausturlanda“.

Hvað þarf maður að drepa marga áður en hægt er að kalla mann fjöldamorðingja og stríðsglæpamann? Hundrað þúsund? Það teldi ég meira en nóg. Því er réttlátt að Bush og Blair verði leiddir fyrir Alþjóðastríðsglæpadómstólinn. En Bush er snjall. Hann hefur ekki viðurkennt Alþjóðastríðsglæpadómstólinn. Því er það að ef bandarískur hermaður eða jafnvel stjórnmálamaður er leiddur fyrir rétt þá hótar Bush að senda sjóherinn á vettvang. En Tony Blair hefur viðurkennt dómstólinn og þess vegna má kæra hann. Við getum gefið dómstólnum heimilisfangið hans ef hann vill. Það er Downingstræti númer 10 í London.

Dauðinn skiptir ekki máli í þessu sambandi. Bæði Bush og Blair ýta dauðanum vandlega frá sér. Að minnsta kosti 100.000 Írakar voru drepnir af amerískum sprengjum og flugskeytum áður en uppreisnin hófst. Það fólk skiptir engu máli. Dauði þeirra var aldrei. Það er eyða. Það eru ekki einu sinni til skýrslur um dauða þeirra. „Við teljum ekki lík,“ sagði bandaríski hershöfðinginn Tommy Franks.

Fljótlega eftir innrásina birtist framan á bresku dagblaði mynd af Tony Blair að kyssa lítinn írakskan dreng á kinnina. „Þakklátt barn,“ sagði í myndartexta. Nokkrum dögum seinna var saga með mynd inni í blaði af öðrum fjögurra ára dreng með enga handleggi. Fjölskylda hans hafði verið sprengd í loft upp af flugskeyti. Hann einn lifði af. „Hvenær fæ ég handleggina mína aftur?“ spurði hann. Það varð ekki framhald á sögunni. Nú, Tony Blair hélt ekki á honum í fanginu, né neinu öðru limlestu barni, né nokkru blóðugu líki. Blóð er óhreint. Það óhreinkar skyrtuna þína og bindið þitt meðan þú flytur hjartnæma ræðu í sjónvarpið.

Bandaríkjamennirnir 2.000 sem hafa látist eru feimnismál. Þeir eru lagðir í gröf sína í myrkri. Jarðarfarirnar eru haldnar í kyrrþey og á afskekktum stöðum. Hinir limlestu rotna í rúmum sínum, sumir alla ævi. Þannig að þeir dauðu og þeir limlestu rotna báðir, hvor í sinni gröf, þótt ólíkar séu.

Mig langar núna til að vitna í ljóð eftir Pablo Neruda sem heitir [í íslenskri þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur] „Nokkur atriði útskýrð“:

Og morgun einn logaði allt

og morgun einn stóðu bálin

út úr jörðinni

og gleyptu fólkið

og síðan eldur

púður síðan þá

og síðan blóð.

Stigamenn með flugvélar og Mára,

stigamenn með fingurgull og greifynjur,

stigamenn með svartmunka blessandi

fóru um himininn að drepa börn,

og blóð barnanna rann um strætin,

einfaldlega, eins og barnablóð.

Sjakalar fyrirlitnir af sjakölum,

steinar sem þurr þistillinn skyrpir út úr sér,

nöðrur hataðar af nöðrum!

Andspænis ykkur hef ég séð blóð

Spánar rísa

að drekkja ykkur í einni bylgju

af stolti og hnífum!

Hershöfðingjar

svikarar:

Lítið á dautt hús mitt,

lítið á brotinn Spán.

En úr hverju dauðu húsi kemur logandi málmur

í stað blóma,

og úr hverju Spánarbroti

kemur Spánn,

og úr hverju dauðu barni kemur riffill með augu

og hver glæpur fæðir byssukúlur

sem með tíð og tíma hæfa ykkur

í hjartastað.

Þið munuð spyrja: Hví fjalla ekki ljóð hans

um drauminn, um laufið,

um eldfjöllin miklu í landi hans?

Komið og sjáið blóðið á götunum

komið og sjáið

blóðið á götunum

komið og sjáið blóðið

á götunum!

Leyfið mér að gera alveg ljóst að þegar ég vitna í ljóð Neruda þá er ég alls ekki að bera saman lýðveldið Spán og Írak undir stjórn Saddams Husseins. Ég vitna í Neruda af því að ég hef hvergi lesið eins magnaða myndræna lýsingu á því þegar sprengjum er kastað á almenna borgara.

Ég sagði áðan að Bandaríkin séu nú órög við að leggja spil sín á borðið. Það er satt. Yfirlýst stefna þeirra er alger yfirráð — „full spectrum dominance“. Það eru ekki mín orð heldur þeirra. Alger yfirráð þýðir yfirráð yfir landi, sjó, lofti og himingeimi, gögnum öllum og gæðum.

Bandaríkin halda nú úti 702 hernaðarlegum stöðvum í 132 löndum um allan heim, með Svíþjóð sem virðulega undantekningu, að sjálfsögðu. Við vitum ekki hvernig þeir fóru að þessu en þeim tókst það.

Bandaríkin eiga 8.000 virka kjarnaodda. Tvö þúsund þeirra eru í viðbragðsstöðu, þeim má skjóta með 15 mínútna fyrirvara. Bandaríkin eru að þróa nýtt kerfi kjarnavopna sem gengur undir nafninu „bunker busters“ af því þau komast að skotmörkum ofan í jörðinni og springa þar. Bretar, ævinlega samvinnuþýðir, ætla að skipta út sínum eigin kjarnavopnum, Trident. Hvern skyldu þeir hafa í sigti? Osama bin Laden? Þig? Mig? Jóa Jóns? Kína? París? Hver veit? Það sem við vitum er að þessi barnaskapur og brjálsemi — að ráða fyrir kjarnavopnum og að hóta að nota þau — eru meginatriði bandarískrar stjórnmálaheimspeki. Við verðum að minna okkur á að Bandaríkin eru sífellt í árásarhug og ekkert útlit fyrir að því linni.

Þúsundir — ef ekki milljónir — Bandaríkjamanna eru miður sín, skömmustufullir og reiðir framferði stjórnar sinnar, en eins og er mynda þeir ekki samhent pólitískt afl — ekki enn. En kvíðinn, öryggisleysið og óttinn sem við sjáum vaxa dag frá degi í Bandaríkjunum, er kominn til að vera.

Ég veit að Bush hefur marga prýðilega ræðuhöfunda, þó langar mig til að bjóða mig fram í starfið. Ég sting upp á eftirfarandi ávarpi sem hann gæti flutt þjóð sinni í sjónvarpi. Ég sé hann fyrir mér alvarlegan, vandlega greiddan, alúðlegan, einlægan, oft tælandi, stundum brosandi beisklega, sérkennilega aðlaðandi, karlmann karlmanna.

„Guð er góður. Guð er mikill. Guð er góður. Guð minn er góður. Guð bin Ladens er vondur. Guð hans er vondur. Guð Saddams var vondur nema hvað hann átti aldrei neinn. Hann var villimaður. Við erum ekki villimenn. Við höggvum ekki hausinn af fólki. Við trúum á frelsið. Það gerir Guð líka. Ég er ekki villimaður. Ég er lýðræðislega kosinn leiðtogi frelsiselskandi lýðveldis. Við erum samúðarfull þjóð. Við gefum samúðarfull raflost og samúðarfullar banvænar sprautur. Við erum mikil þjóð. Ég er ekki einræðisherra. Hann er það. Ég er ekki villimaður. Hann er það. Og hann er það. Þeir eru það allir. Ég hef siðferðislegt vald. Sérðu þennan hnefa? Þetta er siðferðislegt vald mitt. Og því skaltu ekki gleyma.“

Líf rithöfundar er afar viðkvæmt, svo að segja berskjaldað. Óþarfi að skæla yfir því. Rithöfundur velur og stendur við val sitt. En það er satt að hann er óvarinn gegn öllum vindum, og sumir þeirra eru ískaldir. Maður er á eigin vegum, á ystu brún. Það er ekkert skjól, engin vörn — nema maður ljúgi — og þá hefur maður auðvitað skapað sér sína eigin vörn og gæti, hugsanlega, orðið stjórnmálamaður.

Ég hef talað nokkrum sinnum um dauðann í kvöld. Nú ætla ég að lesa ljóð eftir sjálfan mig, sem heitir „Dauði“. [Það er Harold Pinter sem yrkir.]

Hvar fannst líkið?

Hver fann líkið?

Var líkið liðið þegar það fannst?

Hvernig fannst líkið?

Hver var hinn dauði?

Hver var faðir eða dóttir eða bróðir

eða frændi eða systir eða móðir eða sonur

líksins liðna og yfirgefna?

Var líkið liðið þegar það var yfirgefið?

Var líkið yfirgefið?

Hver hafði yfirgefið það?

Var líkið nakið eða búið til ferðar?

Hver vegna lýstirðu yfir að líkið væri liðið?

Lýstirðu yfir að líkið væri liðið?

Hve vel þekktirðu líkið?

Hvernig vissirðu að líkið var liðið lík?

Þvoðirðu líkið?

Lokaðirðu báðum augum þess?

Grófstu líkið?

Yfirgafstu það?

Kysstirðu líkið?

Þegar við horfum í spegil þá höldum við að myndin í honum sé nákvæm. En örlítil hreyfing breytir henni. Í raun og veru erum við að horfa á endalausa röð spegilmynda. En stundum verður rithöfundur að brjóta spegilinn — því það er handan spegilsins sem sannleikurinn starir á okkur.

Ég trúi því að þrátt fyrir gríðarlegan aflsmun sé það grundvallarskylda okkar sem manna að sameinast um óhagganlega, staðfasta, eldheita, vitsmunalega ákvörðun um að skilgreina raunverulegan sannleika lífs okkar og samfélags. Það er í raun og veru kvöð á okkur.

Ef slík ákvörðun verður ekki hluti af pólitískri sýn okkar þá er engin von til að við getum endurheimt það sem nú er nærri því glatað — mannlega reisn.“

Þetta var ræða Harolds Pinters sem hann flutti við móttöku bókmenntaverðlauna Nóbels 2005. Silja Aðalsteinsdóttir þýddi ræðuna. Ljóðið eftir Pablo Neruda á íslensku er að finna í heild sinni í Ljóðum Ingibjargar Haraldsdóttur frá 1991. Þessi ræða Harolds Pinters birtist í tímariti Máls og menningar. Og hún á heldur betur erindi, sérstaklega kannski við stjórnarliða á þinginu. Ekki bara fyrir það að hún sé snilldarvel skrifuð heldur er hún afar gagnrýnin á þátttöku Breta, sem er auðvitað líka þátttaka okkar, í stríðinu um olíuna. En eins og ég minntist á áðan er það einmitt þannig að stríð 21. aldarinnar verða sennilega háð um vatn en ekki olíu.

Í þessu frumvarpi til vatnalaga hefur verið farið nokkuð vel yfir fjölmargar umsagnir sem hv. iðnaðarnefnd bárust. Margar þeirra voru mjög gagnrýnar á frumvarpið. Við í stjórnarandstöðunni tökum undir þessar umsagnir og förum fram á að frumvarpinu verði vísað frá.

Í yfirlýsingu fjölmargra samtaka, eins og þjóðkirkjunnar, BSRB, Kennarasambandsins og Öryrkjabandalagsins, UNIFEM á Íslandi, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna, Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Landssambands eldri borgara, Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja, Ungmennafélags Íslands og Landverndar, sem hafa skrifað upp á yfirlýsinguna Vatn fyrir alla, segir, með leyfi forseta:

„Undirrituð samtök vilja með sameiginlegri yfirlýsingu þessari vekja athygli ríkisstjórnar, sveitarstjórna, stofnana, fyrirtækja og almennings á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir land, þjóð og lífríki. Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.

Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn.

Undirrituð samtök telja að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi, eins og kveðið er á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Sérhver maður á því rétt á aðgengi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og heimilishalds.

Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru.

Nýting vatns skal vera sjálfbær og aðgengi að því tryggt með lögum fyrir núlifandi kynslóð og kynslóðir framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar.

Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja verndun vatns sem náttúruverðmæta sem og að tryggja hollustu og dreifingu vatns til allra þjóðfélagsþegna með fjárfestingu í mannvirkjum og mengunarvörnum. Vatnsveitur verði því reknar á félagslegum grunni, taki mið af almannahagsmunum og tryggi rétt einstaklinga til nægilegs hreins vatns til drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði. Það er jafnframt hlutverk stjórnvalda að tryggja að við nýtingu vatns verði öðrum náttúruverðmætum ekki spillt.

Stjórnvöldum ber að tryggja almenningi aðgengi að öllum upplýsingum er varða verndun og nýtingu vatns og stuðla að aukinni virkni almennings og meðvitund um mikilvægi vatns, náttúru og réttrar umgengni við landið.

Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um nýtingu vatns taki því mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og lögum er varða verndun vatns og náttúru.

Til að tryggja skilvirka verndun og nýtingu vatns ber stjórnvöldum að skipuleggja stjórnsýslu þannig að eðlilegt jafnvægi sé á milli þessara þátta og réttar einstaklinga til aðgengis að vatni.“

Hér hefur aðeins verið fjallað um að hin svokölluðu vatnalög hafi yfirbragð hlutleysis og fagmennsku, gefið er í skyn að verið sé að samræma þau annarri löggjöf. Þetta er mjög falskt. Það er alveg augljóst að markmiðin eru önnur og ákveðnari og þau eru sett annaðhvort í pólitísku skyni eða til að koma til móts við ákveðna hagsmuni sem ekki eru taldir hafa verið nægilega vel tryggðir hingað til. Þá getur maður velt því fyrir sér hvaða hagsmunir það eru.

Það hefur komið fram í umræðunum í dag að á ráðstefnu sem haldin var í gær hefði komið fram að e.t.v. skipti lagaleg staða uppi við Kárahnjúka þarna máli. Þegar slíkar upplýsingar koma fram hjá einum höfunda frumvarpsins, Karli Axelssyni, sem hv. formaður iðnaðarnefndar hefur vitnað til sem eins mesta lagasérfræðings á sviði eignarréttar í landinu, — það væri einkennilegt ef hann mundi ekki verja sitt frumvarp — er mikilvægt að farið verði yfir þetta mál. Það er reyndar dálítið sorglegt að ekki hafi verið fallist á það að iðnaðarnefnd kæmi saman og fengi til viðtals lögfræðinga til að spyrja sérstaklega út í þessa hluti vegna þess að þeir skipta grundvallarmáli. Því hefur jafnvel verið haldið fram að hér sé um blekkingar að ræða og hv. formaður iðnaðarnefndar hefur sagt að það væri ekki hans vilji að ætla að blekkja þingið vísvitandi. Ég tek orð hans fullkomlega trúanleg en þetta verður að skoða mjög nákvæmlega og fara ofan í það áður en lengra er haldið.

Það er reyndar fróðlegt að skoða þá sérfræðinga sem fengnir voru til að semja þetta frumvarp. Karl Axelsson var einn þeirra, eins og komið hefur fram, en þar voru einnig fulltrúi Bændasamtaka Íslands, fulltrúi Orkustofnunar, lögfræðingur Orkuveitunnar, sem fulltrúi Sambands sveitarfélaga, og fulltrúi frá Samorku. En það er enn þá mikilvægara að skoða hverjir voru ekki kallaðir til skrafs og ráðagerða, það er nú dálítið mikilvægt í þessu samhengi.

Enginn fulltrúi var t.d. kallaður til frá náttúruverndar- eða mannréttindasamtökum. Þó hélt ég að það væri nú alveg augljós skilningur, líka ríkisstjórnarinnar, að vatn væri mannréttindi eins og segir í yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og við höfum skrifað undir. En einhvern veginn þóttu fulltrúar orkugeirans miklu mikilvægari og ekki bara einn þeirra heldur margir. Neytendur voru heldur ekki kallaðir til við þessa lagasmíð, ekki fulltrúi Neytendasamtakanna, ekki neinn fulltrúi almannasamtaka eins og verkalýðssamtaka. Þessum aðilum er síðan gert kleift að gera athugasemdir við frumvarpið og þeir gera alvarlegar athugasemdir við marga liði þess og gera góða grein fyrir þeim. Þó að ekki hafi verið mikill tími til stefnu þá brugðust þessir aðilar mjög skjótt við og skrifuðu athugasemdir. En hvað kemur síðan í ljós? Ekkert tillit er tekið til þeirra athugasemda.

Því væri auðvitað rétt að þetta frumvarp til svokallaðra vatnalaga yrði dregið til baka og byrjað yrði upp á nýtt, því fyrr því betra. Þessi mál yrðu skoðuð í samhengi, ekki yrði sett fram eitthvert iðnaðarráðuneytisfrumvarp án þess að fjalla um vatnsvernd og án þess að fjalla um hlutina út frá sjónarmiðum náttúruverndarsamtaka. (LB: Að vatn sé forsenda lífs.) Og að vatn sé forsenda lífs, bendir hv. þm. Lúðvík Bergvinsson á. Það er einmitt málið. Vatn er ekki bara eitthvert efni sem hægt er að virkja til þess að búa til orku. Vatn er svo miklu meira.

Í fréttum í gær var sagt frá því að menn teldu sig hafa fundið einhver ummerki um vatn á Júpíter. Það væru þá fyrstu merkin um að einhvern tíma hefði verið líf á þeirri plánetu, þá er grundvallaratriði að þar hafi verið vatn.

Það hefur verið fjallað dálítið um þetta eignarréttarákvæði. Í II. kafla í frumvarpinu, 4. grein, segir:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Vatn er endurskilgreint með mjög víðtækum hætti, samanber 2. gr. frumvarpsins og þetta er einmitt mál sem við höfum verið að ræða hér:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi.“

Í athugasemdum frá þeim samtökum sem skrifa undir yfirlýsinguna Vatn fyrir alla kemur fram að með því að breyta umráðarétti og hagnýtingarrétti á vatni í kláran eignarrétt er stigið skref í átt til að skilgreina vatn sem einkaeign viðkomandi landeiganda, hvort sem átt er við bændur, einkaaðila eða fyrirtæki, stór eða smá. Þeim er alltaf að fjölga sem ásælast jarðir út um hvippinn og hvappinn. Það gæti verið að einhverjir sjái von í því að hagnast á vatnsréttindum í framtíðinni, það er kannski þess vegna sem menn eru tilbúnir til að borga háar upphæðir og eru að sölsa undir sig landareignir úti um allt land. Það eru kannski framsýnir menn sem sjá fyrir sér að eftir einhverja tugi ára geti vatnsréttindin orðið einkaeign. Ef það næst fram, sem er greinilega tilgangur ríkisstjórnarflokkanna, að skýra þetta eignarhald á vatni þannig að það tilheyri landeigendum algjörlega, er það auðvitað fyrsta skrefið í einkavæðingu á þessari auðlind.

Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Að sumra mati kann það skref“ — að gera þetta að einkaeign — „að vera óafturkræft, þó um það megi deila. Samkvæmt skilgreiningu á eignarrétti í víðtækasta skilningi sbr. Björn Þ. Guðmundsson, er átt við að „rétthafinn hafi einn heimild til umráða og ráðstöfunar verðmæta.““

Svo er bent á að í 1. gr. vatnatilskipunar Evrópusambandsins — nú er búið að staðfesta að samningar hafi náðst um að hún verði tekin upp hér á landi, það á að funda um það einhvern tímann í sumar — segir:

„Vatn er ekki eins og hver önnur verslunarvara, heldur öllu frekar sameiginleg arfleifð sem verður að vernda, verja og meðhöndla sem slíka.“

Hv. formaður iðnaðarnefndar gerði mikið grín að því að því hefði verið haldið hér fram að vatn sé sameiginleg arfleifð mannkyns. Það er nú ekki neitt til að hlæja að. Ég er ekki að segja að vatnatilskipun Evrópusambandsins sé einhver stóri dómur eða Biblía í þessu efni en ég er sannfærður um að fólki finnst þetta almennt. Vatn er einn af þeim grundvallarþáttum sem eiga ekki að vera í einkaeign einhvers eins.

Ríkisstjórnarflokkarnir segja: Bíðið nú við. Er stjórnarandstaðan að reyna að koma í veg fyrir að réttkjörinn meiri hluti hér á Alþingi komi sínum málum í gegn? Nú vitum við öll að það er kosið á fjögurra ára fresti og stundum koma upp mál sem meiri hluti þjóðarinnar er alls ekki samþykkur ríkisstjórnarflokkunum um. Ég er t.d. ekki viss um að kjósendur hafi fyrir næstum þremur árum greitt stjórnarflokkunum atkvæði sitt vegna þess að þeir ætluðu að einkavæða vatnið. Ég efast stórlega um það.

Þannig er reyndar um fleiri mál, t.d. þátttöku okkar í stríði. Það hlýtur því að vera eðlilegt að stjórnarandstaðan slái alla varnagla við vafasöm frumvörp og þessi ríkisstjórn hefur fengið á sig dóma í Hæstarétti fyrir lög sem hún hefur samið. Og það fleiri en einn. Þannig að hún er ekki alvitur jafnvel þótt hún hafi meiri hluta hér á þingi.

Áfram segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Í athugasemdum við frumvarpið er mikil áhersla lögð á rökfærslu fyrir því að skv. vatnalögum 1923 sé umráða- og hagnýtingarréttur á vatni jafngildur hefðbundnum eignarrétti — og því sé hér um formbreytingu að ræða en ekki efnislega. Segir í athugasemdum við nýju vatnalögin að algengt sé að telja einstakar heimildir eða þætti eignarréttar yfir fasteignum sem sérstök réttindi, t.d. vatnsréttindi eða rekaréttindi. Af því leiðir að vatnsréttindi séu flokkuð sem sérstök eignarréttindi að fasteign. Hér má spyrja hvort ekki sé frekar um að ræða takmörkuð afnotaréttindi byggð á eignarrétti á landinu — sem eðli málsins samkvæmt skapar ýmis afnot. Það er ekkert því til fyrirstöðu að sá skilningur sé hafður uppi þegar vatnalögin eru lesin, sem og ef vatn er talið og skilgreint sem sérstakt fyrirbæri, t.d. skv. stjórnarskrá, alþjóðasáttmálum eða samkvæmt skilningi löggjafans á þeim tíma sem lög voru sett. Og við lagasetninguna var tekist á um tvö meginsjónarmið — annars vegar hvort líta ætti á vatn sem einkaeign — hins vegar hvort það ætti að vera í þjóðareign, með afnotum fyrir einstaklinga.

Rökin sem eru notuð í athugasemdunum eru m.a. þau að „um sé að ræða allar helstu hagnýtingarheimildir á vatni sem máli skipta, þar með talinn rétt til orkuvinnslu, sbr. 49. gr.“, og er vitnað í hana með eftirfarandi hætti: „Eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgja, svo og öðrum, sem heimildir hafa á þeim tekið, er rétt að nota það vatn, sem um hana rennur, til að vinna úr því orku …“. Í athugasemdunum er hins vegar sleppt þeim skilyrðum sem koma í beinu framhaldi í sömu setningu sem hljóta að teljast vera á skjön við almenna skilgreiningu á eignarrétti. Þessar takmarkanir eru m.a. að „enda sé engin fyrir það sviptur því vatni sem hann þarf að nota samkvæmt III. og IV. kafla (III. kafli fjallar um vatnsnotkun til heimilis og búsþarfa og IV. kaflinn um áveitur) né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun, né vatni, sem nota þarf með þeim hætti, spillt fyrir neinum, svo til verulegra óþæginda horfi.“

Þá segir í upphaflegu lögunum í 49. gr., 2. lið: „Eigi má umráðamaður vatnsréttinda virkja hluta af fallvatni, sem hefir meira en 500 eðlishestöfl, nema leyfi ráðherra komi til, og í þriðja lagi má binda leyfi þeim skilyrðum um vatnstökuna, gerð og tilhögun mannvirkja, tegund og spennu raforkustraums, sem nauðsynleg þykja til þess að tryggja almenningshagsmuni, þar á meðal sérstaklega það, að unnt verði seinna meir að koma hentugu skipulagi á orkuveitu til almenningsþarfa í héraði því eða landshluta, sem orkuverið eða veitan er í. Enn fremur má setja skilyrði um það, að almenningi í nágrenni við veituna sé veittur kostur á orku úr henni.“

Hér er augljóst að almannahagsmunir voru hafðir í huga við setningu laganna 1923 sem afmarka mjög það sem kalla mætti eignarrétt í hefðbundnum skilningi. Það sem er kannski meira um vert er að þessi tilvitnaði liður var felldur út úr vatnalögum og færður undir raforkulög. Með öðrum orðum þá er raforkuþáttur vatnsréttinda talinn það sértækur að um hann hafa verið samin sérstök lög þar sem kveðið er á um rétt landeiganda og annarra til að reisa orkuver að fengnu leyfi ráðherra. Því má segja að það séu ekki vatnalög sem segi til um þennan afmarkaða hagnýtingarrétt á vatni, heldur raforkulög. Það er því varla hægt að finna í þessari grein vatnalaga réttlætingu á því að telja megi afnotarétt landeiganda að vatni fullgildan eignarrétt.“

Það er auðvitað dálítið merkilegt að með tilliti til þessa ættu hin svokölluðu vatnalög að heita lög um orkunýtingarrétt á vatni eða eitthvað slíkt.

Ég held að það hafi verið Umhverfisstofnun sem var einmitt með ágætistillögur að nafni á þessi lög. Þeim þótti skjóta skökku við að hið gamla nafn, Vatnalög, skyldi notað um svo sértæk lög sem hér væri verið að fjalla um. Hér eru þrjár tillögur um heiti frumvarpsins. Það gæti t.d. heitið:

„Lög um eignarhald, skynsamlega og hagkvæma stjórnun vatnamála og sjálfbæra nýtingu vatns,

Lög um eignarhald og sjálfbæra nýtingu vatns,

Lög um eignarhald og stjórnun vatnsmála.“

Ég held að það síðasttalda væri nú eiginlega besta nafnið á þessum lögum. En langsniðugast væri að sleppa þessum lögum algjörlega og fara í heildarvinnunna, vera ekki að grípa fram fyrir hendur stjórnarskrárnefndar og horfa fram hjá því að á sama tíma hljóta að koma fram lög um verndun vatns. Sumir hafa nú sagt að það sé einmitt miklu mikilvægara mál. Ef ekki er hægt að fjalla um þessi mál samtímis ættu þau lög auðvitað að koma fyrst.

En uppi í iðnaðarráðuneyti liggur mönnum mikið á og ef til vill er það út af einhverjum lagalegum óvissuþáttum uppi við Kárahnjúka og öllum þeim stóru inngripum í náttúruna sem þar eiga sér stað. Þar eru menn að flytja til jökulár og jökulvötn, leiða í stokkum fram og aftur, sem er kannski ástæðan fyrir því að frumvarpið kemur fram aftur núna lítið breytt frá því í fyrra og ofuráhersla er lögð á að það sé kýlt gegnum þingið.

Ég vitnaði áður í vefritið Múrinn sem er alveg ágætissíða. Þar er skemmtileg grein eftir sagnfræðinginn Stefán Pálsson sem hefur fjallað heilmikið um vísindasagnfræði, gott ef hann er ekki starfsmaður hjá Orkuveitunni. Þar fjallar hann um vatn og vatnsveitumál frá því fyrir um rúmlega 100 árum síðan. Þetta er grein sem birtist fyrir nokkrum árum á Múrnum og heitir Verkfræðilegt þrekvirki sem ekki má gleymast. Þar segir, með leyfi forseta:

„Traustur og stöðugur aðgangur að góðu neysluvatni er forsenda þess að samfélag fólks geti þrifist. Þessi sannindi hafa verið mönnum kunn um aldir og árþúsund, eins og mannvistalandafræðin kennir okkur. Í lok nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu tóku skipuleggjendur íslenskra bæja og þorpa að gera sér grein fyrir því að ekki yrði mikið lengur við það unað að sækja vatn í brunna, sem oftar en ekki stóðu óvarðir fyrir yfirborðsmengun — meðal annars af völdum úrgangs manna og dýra. Þess í stað væri það ein af frumskyldum hvers bæjarfélags að koma upp öflugri vatnsveitu, þannig að hvert heimili hefði aðgang að rennandi vatni.

Í vatnsveitumálum, eins og á svo mörgum öðrum sviðum, voru Hafnfirðingar í fararbroddi í upphafi síðustu aldar. Árið 1904 var Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar stofnað af nokkrum framtakssömum einstaklingum í bænum, með héraðslækninn fremstan í flokki. Lét félagið grafa brunn við svonefnt Kaldadý í Jófríðarstaðaholtinu og leggja þaðan vatnsleiðslur um bæinn. Þótti framtak þetta hið besta og göfugasta, en fljótlega varð ljóst að betur mætti ef duga skyldi.

Eflaust kemur einhverjum á óvart að þessi fyrsti vísir að vatnsveitu fyrir stóran hluta bæjarfélags hafi verið framkvæmd af einkaaðilum en ekki bæjarstjórninni. Þetta munstur má þó oft sjá í tæknisögu áranna í kringum aldamót. Afar oft kom frumkvæðið að meiri háttar framkvæmdum frá einkaaðilum sem með því vildu sýna fram á að verkið væri framkvæmanlegt og jafnvel arðbært, með það fyrir augum að ýta við opinberum aðilum að fylgja í kjölfarið. Þannig voru fyrstu vatnsveitur, rafveitur og símakerfi landsins iðulega í höndum einkaaðila, en um leið og tæknin hafði unnið sér þegnrétt þótti rétt að til kasta samfélagsins kæmi.

Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar varð ekki langlíft fyrirtæki. Árið 1909 kaus bæjarstjórnin nefnd til að vinna að gerð stærri vatnsveitu sem þjóna skyldi öllum bæjarbúum, en ekki bara þeim er bjuggu út frá Strandgötunni. Varð úr að Hafnfirðingar keyptu rör til framkvæmdanna í félagi við Reykvíkinga sem um svipað leyti unnu að framkvæmdum við sína vatnsveitu. Ákvað nefndin að vænlegast væri að taka vatnið úr Lækjarbotnum, en þar eru upptök Hamarkotslækjar. Í Hamarkotslæk var einmitt fyrsta vatnsaflsvirkjunin sett upp árið 1904 á vegum Jóhannesar Reykdal, þess merka frumkvöðuls.

Haustið 1909 lauk framkvæmdum við Lækjarbotnaæðina. Var hún einungis þriggja tommu breið og flutningsgetan því takmörkuð. Var hún enda orðin of lítil innan fárra ára. Var þá gripið til ýmissa bráðabirgðaráðstafana, svo sem byggingu vatnsgeymis og lagningu nýrra aðfærsluæða, en ekki var þar tjaldað til margra nátta.

Strax árið 1916 fengu Hafnfirðingar augastað á Kaldá sem framtíðarvatnsbóli bæjarins og ári síðar ákvað bæjarstjórnin að freista þess að veita vatni úr Kaldá yfir á Lækjarbotnasvæðið, með það að markmiði að tryggja vatnsveitunni og vatnsaflsvirkjuninni í Hamarkotslæknum nægilegt vatn. Hér var um geysimetnaðarfullt verkefni að ræða, en það var Jón Ísleifsson verkfræðingur sem átti heiðurinn að tillögunum.

Jón lagði til að veitt yrði 400 sekúndulítrum af vatni úr Kaldá, frá þeim stutta kafla sem hún rennur ofan jarðar (Kaldá rennur að mestu undir hrauni til sjávar). Skyldi vatnið leitt eftir trérennu, eins og hálfs kílómetra leið, til Setbergshlíðar þremur kílómetrum sunnan við Lækjarbotnalindina. Þar yrði vatninu sleppt og það látið renna eftir hraunlögum á áfangastað. Töldu sumir að með áætlun þessari væri djarft spilað, enda var þekking manna á jarðlögum á svæðinu takmörkuð, en þegar framkvæmdum lauk haustið 1918 kom í ljós að áætlanir verkfræðingsins stóðust fullkomlega.

Í Morgunblaðinu, fimmtudaginn 20. desember 2001, er frá því greint að sex verktækninemar við Iðnskólann í Hafnarfirði hafi ásamt kennara sínum farið þess á leit við bæjarstjórn Hafnarfjarðar að vatnsveitustokkurinn frá 1918 verði endurbyggður. Nemendurnir benda á það í rökstuðningi sínum að sennilega finnist þess ekki önnur dæmi í veröldinni að vatn hafi verið leitt að hraunjaðri með þessum hætti og þess svo beðið að það kæmi fram aftur nokkrum kílómetrum neðar. Ber framkvæmdin öll og undirbúningur hennar vitni um mikla verkfræðilega snilli sem rétt og skylt er að halda til haga.

Sjálfsagt er að taka undir tillögur iðnskólanemanna í máli þessu. Íslensk tæknisaga og þá sérstaklega saga íslenskra vatnsveitna er ekki svo rík af minjum að verjandi sé að láta slíkt tækifæri ganga sér úr greipum. Hafnfirðingar eiga að standa myndarlega að varðveislu vatnsveitumannvirkjanna í Kaldárbotnum, jafnvel í samvinnu við granna sína Garðbæinga, og gera sitt besta til að miðla sögunni til gesta og gangandi. Hún er svo sannarlega þess virði að hún sé rifjuð upp.“

Þetta var úr grein á Múrnum sem Stefán Pálsson skrifaði.

Ef við færum okkur út í heim þá skrifaði Steinþór Heiðarsson líka mjög áhugaverða grein á Múrnum, um vatnsveitu í Argentínu og í Kanada. Greinin heitir „Þó líði ár og öld“. Hún birtist 29. nóvember 2005.

„Fyrir 125 árum var ráðist í gerð vatnsveitu í Winnipegbæ í Manitobafylki í Kanada. Þar sem bæjarsjóður stóð heldur illa var ákveðið að semja við einkafyrirtæki að nafni Winnipeg Water Works um að koma veitunni á laggirnar og reka hana fyrstu 20 árin í skiptum fyrir einokunaraðstöðu. Samningurinn hljóðaði upp á tæpan helming þess vatns sem bæjarbúar þurftu á að halda og ekki þurfti að bíða lengi eftir margvíslegum vandræðum sem af því hlutust. En bæjarstjórnin hafði samið svo rækilega af sér að hún gat einungis valið á milli þess að kaupa fyrirtækið upp eða greiða því aukalega fyrir hvern lítra sem Winnipeg Water Works léti í té til viðbótar því sem um var samið. Þess vegna kaus hún að gera ekkert í málinu og bíða eftir að samningurinn rynni út.

Fyrir um það bil 10 árum tók einkafyrirtækið Aguas Argentinas við bæði vatnsveitu og skolpveitukerfi í Santa Fe-fylki í Argentínu en þar býr rétt um ein milljón manna. Franska fyrirtækið Suez á stærstan hlut í Aguas Argentinas, tæplega 40 prósent, en það hafði tveimur árum áður hrammsað til sín vatnsveituna í höfuðborginni Buenos Aires. Á þeim tíma var það langstærsta vatnsveita sem nokkurn tíma hafði verið einkavædd í heiminum en ríkisstjórn Carlos Saúl Menem, sem gegndi forsetaembættinu 1989–1999, var iðin við að setja heimsmet í einkavæðingu á almannaþjónustu samkvæmt forskrift Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri lánastofnana.

Helstu rökin fyrir því að selja vatnsveitufyrirtæki frá almenningi til einkaaðila hafa í seinni tíð verið þau að einkafyrirtækin búi yfir tækni, stjórnunarreynslu, verkþekkingu og fjármagni sem skorti svo tilfinnanlega í opinberu fyrirtækjunum að þau séu ófær um að standa sig í stykkinu. Svipaðar fullyrðingar eru nær daglega hafðar í frammi af fólki sem trúir því að einkavæðing sé nokkurs konar guðlegt verkfæri sem mannkyninu hafi verið fært til að takast á við flest viðfangsefni samfélagsins.

Nú hefur Suez sent frá sér yfirlýsingu um að fyrirtækið hyggist draga sig út úr vatnsveiturekstri í Argentínu þótt aðeins séu liðin 10 ár af 30 ára samningstíma. Ástæðan er einföld: Eftir að pesóinn hríðféll gagnvart dollaranum er arðurinn of lítill til að eigendurnir hafi áhuga á að halda rekstrinum áfram.

Reyndar er það svo að enginn vill kaupa vatnsveituna í Buenos Aires af Suez eða hlut þess í Aguas Argentinas. En stjórnendur Suez virðast ekki ætla að láta það stöðva sig heldur pakka saman og fara fyrir jól, burt séð frá gerðum samningum.

Það er í fullu samræmi við efndir Suez á samningunum til þessa. Þar var meðal annars kveðið á um fjárfestingu upp á fjóra milljarða dollara í vatnsveitu og skolphreinsikerfi Buenos Aires á samningstímanum en ekkert slíkt hefur enn sést. Þegar kom að innheimtu reikninga var frammistaðan mun betri enda leiddu gjaldskrárhækkanir fljótlega til þess að lokað var fyrir vatnið hjá fjölda fátækra borgarbúa. Um 95% af öllu skolpi sem til fellur í höfuðborginni fer óhreinsað í Plata-fljótið.

Ein milljón Argentínumanna í Santa Fe lifir í óvissu um hvort nokkurt vatn kemur úr krönunum þegar dagur rís. En þótt einkavæddar vatnsveitur hafi gefist jafnilla í Argentínu, Bólivíu, Tansaníu, á Puerto Rico og Filippseyjum undir lok 20. aldar og raunin varð í Kanada hundrað árum fyrr, sofna frjálshyggjumennirnir á kvöldin jafnsannfærðir um að einkaaðilarnir geri allt betur en opinberu fyrirtækin, alltaf og alls staðar. Það hefur lengi verið vitað að sumir þurfa lengri tíma en aðrir til að læra — jafnvel einföldustu hluti.“

Þetta sagði Steinþór Heiðarsson í grein á Múrnum.

Auðvitað er hægt að telja ýmislegt fleira til og benda á að einkavæðing á vatni er ekki skynsamleg ákvörðun og þá staðreynd að þetta frumvarp er því miður svo gallað að best væri að vísa því frá í heild sinni. En þar sem ég vil ekki þreyta hv. þingmenn og áheyrendur um of — og ég er nú sennilega búinn að missa hv. þm. Pétur Blöndal úr athyglishópnum vegna þess að ræða mín hefur verið aðeins meira en 15 mínútur — þá held ég að hér komið sé að því að ég pakki saman þó að ég gæti auðvitað haldið lengi áfram og var búinn að undirbúa mig ágætlega til þess. Ég vona að ég verði ekki skammaður fyrir að lesa upp ljóð í ræðustól eftir Pablo Neruda eða hina miklu og góðu ræðu Harolds Pinters. Ég segi þetta þá gott í bili, frú forseti.