132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:39]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég get ekki skilið umræðuna og afstöðu hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar það sem af er þessum degi öðruvísi en svo að öldurnar í þessu máli hafi lægt nokkuð. En eins og ég kom að í fyrri ræðu minni um fundarstjórn forseta (Gripið fram í.) var það upplýst á fundi hv. iðnaðarnefndar að vatnatilskipunin, sem mönnum hefur orðið mjög tíðrætt um í umræðunni og kvartað yfir að ekki væri rædd samhliða frumvarpinu, fjallar ekki um náttúruvernd, dýravernd eða auðlindastjórnun og að það frumvarp sem unnið verður á næstu mánuðum eða árum muni ekki taka til þessara atriða. Ég lít því þannig á að við getum lagt þann ágreining í málinu algjörlega til hliðar. (Gripið fram í.)

Síðan virðast aðrir hlutir sem fram komu á þessum fundi iðnaðarnefndar hafa farið eitthvað öfugt ofan í menn, t.d. hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem reyndar var ekki á fundinum. Hann fjallaði hér um Kárahnjúka og spurði hvort þessu frumvarpi til vatnalaga, sem við höfum verið að ræða hér, sé ætlað að leysa einhverja réttaróvissu um Kárahnjúka. Auðvitað er það ekki svo. Þrátt fyrir að Karl Axelsson hafi minnst á Kárahnjúka í fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands þá var það gert í allt öðru samhengi.

Mig langar til þess að biðja hv. þm. Össur Skarphéðinsson að athuga það að um Kárahnjúkavirkjun gilda sérlög og að öllu lögmæltu ferli varðandi Kárahnjúka er lokið. Eins og sjá má af 2. gr. þessa frumvarps ganga sérlög framar almennum lögum, sem frumvarp til vatnalaga er, og þar af leiðandi hefur þetta frumvarp enga þýðingu varðandi Kárahnjúkavirkjun og núgildandi vatnalög ekki heldur. Þetta kom mjög skýrt fram á fundi iðnaðarnefndar í morgun þannig að þetta eru allt saman útúrsnúningar og hátoganir.

Varðandi það að við sjálfstæðismenn séum að falla frá stuðningi við þetta mál þá er það algjör misskilningur hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni. (Gripið fram í.) Ég vil líka taka fram að ekki er verið að fjalla um það í þessu frumvarpi að einkavæða vatn en ef hv. þingmaður fengi að ráða yrðu vatnsréttindin, sem eru séreign landeigenda samkvæmt gildandi lögum, þjóðnýtt. (Forseti hringir.) Og ég veit ekki hvað landeigendur í Gnúpverjahreppi mundu segja ef hv. þingmaður stæði fyrir því að vatnsréttindi þeirra yrðu hirt af þeim.