132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[22:02]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi umræða um vatnalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er búin að standa nokkuð lengi og auðvitað hefur verið fjallað um fjölmargt í þeirri umræðu.

Ég ætla að byrja á að rifja upp að það eru tvær höfuðástæður fyrir því að við samfylkingarmenn erum á móti þessu máli. Í fyrsta lagi fellum við okkur alls ekki við hina nýja skilgreiningu á eignarhaldi á vatni sem er í þessu frumvarpi og ég mun fjalla um það á eftir. Og í öðru lagi að endurskoðun vatnalaga er hluti af endurskoðun fjölmargra laga sem hafa gilt í landinu og fjalla um auðlindir og nýtingu á auðlindum.

Það er skoðun mín að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki staðið vel að þessari endurskoðun og að sá andi sem svifið hefur yfir vötnunum við þá endurskoðun sé ekki sá andi sem Samfylkingin getur sætt sig við, vegna þess að það er svo greinilegt að fingraför frjálshyggjunnar eru út um allt í þeirri endurskoðun á auðlindalögum sem verið hefur í gangi á undanförnum árum. Varðandi það sem hér er á ferðinni finnst mér þó gengið lengra en mönnum hefði nokkurn tíma áður komið til hugar vegna þess að eignarhald á einhverju því um líku sem vatni hafa menn aldrei fest í lög. Það að menn geti átt vatnsdropana um stundarsakir og þeir skipt um eigendur án þess að viðskipti fari fram er alveg ný aðferð við að setja séreignarhald á eitthvað. Auðvitað hljóta menn að stöðvast einhvers staðar við því það er ekki mikill eðlismunur á loftinu sem svífur yfir húsunum og vatninu hvað þetta varðar eða fuglum himinsins eða fiskum sem synda um vötnin. Mér finnst því komið yfir þau endimörk sem ættu að vera til staðar þar sem menn geta talað um einkaeignarrétt. Afnotaréttur á það að heita eða veiðiréttur þar sem um slík verðmæti er að ræða eins og að mega nýta vatn á landi sínu, veiða í ám eða veiða fugla. Það er kannski ekki verið að leggja til einkaeignarrétt á veiðirétt í ám eins og er en það hlýtur að hvarfla að manni sú hugsun að þessi leiðangur, að koma séreignarhaldi á vatnið sem slíkt, sé til einhvers gerður.

Þrotlausar deilur um eignarhald og eignarrétt hafa staðið yfir hér á landi og þær hafa verið hatrammastar um veiðirétt, um nýtingarrétt á fiskstofnum við landið. Þar er svolítið erfitt að fást við séreignarréttarhugtakið vegna þess að veiðiréttur manna samkvæmt kvótakerfinu sem gildir hér á landi, aflamarkskerfinu eða hvað menn vilja kalla það, er ekki bundinn við tiltekna torfu eða fjölda fiska heldur eiga menn einhvers konar sameiginlegan eignarrétt á því að fá að veiða úr tilteknum fiskstofnum. Það má eiginlega segja að haldi menn sig við þau lög í framtíðinni sem sett hafa verið um veiðar úr fiskstofnunum þá hafi menn komið þar á einhvers konar sameign útgerðarmanna á veiðiréttinum, ekki séreign, það er varla hægt að kalla það séreign þegar enginn veit hver á hvað í hjörðinni.

Það er margt sem er mikið umhugsunarefni í þeirri eignarréttardeilu sem verið hefur í gangi hvað varðar sjávarútveginn en ég staðnæmist svolítið við þá hugsun að það sé einhvers konar útfærsla á eignarréttinum sem menn telja svona mikilvæga úr því að leggja þurfti í þann leiðangur að koma einkaeignarhaldi á vatn í landinu.

Ég er á þeirri skoðun að vatnið geti ekki verið eign eins eða neins og að vatnið eigi að vera í forsjá ríkisvaldsins. Það eigi að vera á ábyrgð ríkisvaldsins að vernda vatn og hafa forsjá þess á sinni könnu, ekki eigi að halda því fram að vatnið sé í eigu eins eða neins, enda er það auðlind sem er í raun og veru sameiginleg öllum jarðarbúum og ekki á að fara með hana eins og hún lúti einhvers konar séreignarfyrirkomulagi.

Við höfum leitað talsvert að orsökunum fyrir því að málið er með þeim hætti sem það er og okkur hefur fundist vanta skýringar. Þegar menn finna ekki skýringarnar, þegar þær eru ekki augljósar og þegar þeir sem standa fyrir málum eru ekki tilbúnir að segja skýrt og ákveðið hvað sé á bak við ákvarðanir um tiltekið ferðalag eins og þetta, þá fara menn að geta í eyðurnar, eins og ég er að gera hér, og velta fyrir sér hvað geti rekið menn áfram. Ég hallast að því að hluti af skýringunum sé sá að frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum reki á eftir þessu. Einhverjir framsóknarmenn hafa sömu skoðun og virðast vera frjálshyggjumenn. (JBjarn: Forsætisráðherra.) Forsætisráðherra landsins er a.m.k. einn af þeim mönnum sem hafa talið það sjálfsagt að útgerðarmenn eða atvinnurekendur í sjávarútvegi eigi veiðiréttinn við landið, alla fiskstofna. En ég taldi að framsóknarmenn væru ekki frjálshyggjumenn eins og við skilgreinum þá. Það er hins vegar svolítið merkilegt hve hæstv. iðnaðarráðherra virðist vera tilbúin til að ganga undir merkjum af þessu tagi og þetta er ekki eina dæmið um að hæstv. iðnaðarráðherra fylgi eignarréttarhugmyndum fast eftir. Ég hef tekið eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra er ákaflega hörð í stuðningi sínum við séreignarhald á auðlindum sjávar. Hæstv. iðnaðarráðherra er líka ákaflega dugleg að þræla fyrir þeim atvinnuvegum sem henni finnst ástæða til að liðsinna og telur, eins og hæstv. forsætisráðherra, að það sé eiginlega sjálfsagt að sækja ráðin til þeirra sem eru í atvinnulífinu og að það sé jafnvel ástæða til að þeir segi til um hvernig koma eigi fyrir málum á Alþingi.

Síðasta dæmið um þetta er sú nefnd sem hæstv. iðnaðarráðherra ætlar að skipa á næstunni til að fara yfir það hvernig fara eigi með auðlindir. Niðurstaða hæstv. iðnaðarráðherra var sú og það er niðurstaða ríkisstjórnarinnar — hún var kynnt mjög fyrir okkur og var hluti af því sem við urðum að samþykkja á sínum tíma þegar við náðum samkomulagi um að leggja til nefndarskipun til að koma með tillögur um hvernig fara eigi með auðlindir og úthluta þeim — niðurstaðan var sú að hafa yrði fulltrúa þar fyrir hönd þeirra sem hefðu með auðlindirnar að gera. Þrír fulltrúar frá Samorku eru í nefndinni sem hæstv. ráðherra skipaði og það segir sína sögu um hvernig menn vilja hafa þessa hluti.

Ég tel að Alþingi standi ekki nógu fast í fæturna hvað varðar skyldur sínar og þó svo að auðvitað eigi að hlusta á atvinnurekendur í þessum málum tel ég að ekki eigi að ganga svo langt sem raun ber vitni hvað þau mál varðar.

Hæstv. forseti. Mig langar til að velta upp í þessari ræðu hvaða ástæður gætu hugsanlega verið fyrir því að menn reka þetta mál svo fast áfram sem raun ber vitni. Sumir hafa nefnt að það gæti hugsanlega tengst Kárahnjúkavirkjun með einhverjum hætti. Ég átta mig ekki nákvæmlega á hvort svo geti verið en þó er eitt sem mér finnst ástæða til að benda á en það er að í 3. mgr. 9. gr. vatnalaga frá 1923 stendur:

„Nú verður breyting á farvegi eða vatnsmagni af völdum náttúrunnar eða þriðja manns, og verður þeim mein að, sem land eiga að, og skal þeim þá rétt að færa vatnið í samt lag, en gera skal það innan árs frá lokum þess árs, er breytingin varð, enda sé tjón það, er af verkinu hlýst, bætt eftir mati, nema samkomulag verði.“

Hvað þýðir þetta? Það þýðir að breyti á farvegi sínum af náttúrulegum ástæðum þá hefur sá sem verður fyrir því að tapa einhverju af þeim sökum rétt til að færa ána til baka. Hann verður hins vegar að bæta öðrum tjón sem hugsanlega gæti skapast vegna þeirra framkvæmda sem hann færi í.

Þetta þýðir líka að ef einhver þriðji aðili breytir farvegi árinnar þá hefur sá sem fyrir því verður rétt til að færa ána til baka. Í frumvarpinu sem hér um ræðir er ákvæði, þ.e. í 14. gr. Þar er tekist á við sama verkefni og leyst er úr í 9. gr. laganna. En þar stendur, með leyfi forseta:

„Heimild til að fella vatnsfall í fornan farveg eða koma honum í samt lag. Nú breytist farvegur af náttúrulegum ástæðum og er þá fasteignareiganda hverjum sem bagi verður að breytingunni rétt að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag.“

Hið athyglisverða við þetta er að nú er orðalagið „eða þriðja manns“ ekki með lengur. Það er einungis gert ráð fyrir því að farvegur geti breyst af náttúrulegum ástæðum en ekki að farvegur geti breyst af því að þriðji aðili hafi breytt honum. Þetta er afar athyglisvert vegna þess sem ég nefndi áðan möguleikann á því að þetta geti af einhverjum ástæðum átt upptök sín í vandamálum út af Kárahnjúkavirkjun. Þar er það þannig að þriðji aðili ætlar að færa eitt fljót í farveg annars, það er þriðji aðili samkvæmt 9. gr. vatnalaganna frá 1923.

Það væri ástæða til að velta fyrir sér rétti þeirra bænda sem fá á sig aukið vatn vegna þess að fljótið hefur verið fært í nýjan farveg eða bænda sem missa frá sér vatn af því að þeirra fljót hefur verið fært í annan vatnsfarveg. Hver og einn þessara bænda á samkvæmt 3. mgr. 9. greinar vatnalaga skýlausan rétt á að snúa þeim vatnsflaumi í sitt fyrra horf.

Nú er ég ekki nógu mikill spekingur í lögum til að geta fullyrt nokkuð um hvernig með svona mál yrði farið. En þessi lagagrein virðist alveg skýr. Það væri gaman ef hinn mikli lagaspekingur, sem ég á eftir að ræða svolítið um á eftir og framlag hans til þessarar umræðu, þ.e. hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, mundi útskýra fyrir okkur gildi þessarar lagagreinar og rétt manna til að nýta sér hana til að beina straumi fallvatns í sinn fyrri farveg hafi vatnsflaumi verið breytt og hann færður í annan farveg en að fornu rann.

Þarna gæti hugsanlega verið eitthvert vandamál. Ekki hefur það samt komið upp á yfirborðið. Menn hafa ekki rætt um það enda hafa þeir ekki haft fyrir því að útskýra hvers vegna mönnum liggur svo mikið á að ljúka umræðum um þetta mál. Öllum er óskiljanlegt að það skuli gerast eins og raun ber vitni, í ljósi þess að hér hafa þeir sem fyrir málinu tala fullyrt hver um annan þveran að hér sé einungis formbreyting. Ég mun koma betur að því síðar en ég er á þeirri skoðun að öllum mönnum ætti að vera ljóst að þar eru ekki bara formbreytingar á ferðinni. Þar er m.a. þetta sem ég var að nefna, að réttur manna, sem þeir höfðu samkvæmt vatnalögum til að færa vatnsflaum í hinn fyrri farveg, er felldur í brott samkvæmt þessu.

Með frumvarpinu, verði það að lögum, verður breytt ferli eignarnáms. Ég veit ekki betur en að það sé nokkuð ljóst, þótt menn hafi ekki talað skýrt um það í ræðustól, að hluti af framkvæmdum við Kárahnjúkaverkefnið mun falla undir nýju lögin, verði þau staðfest á Alþingi eins og gert er ráð fyrir. Þá mundi koma til eignarnám eða skaðabætur, ef ekki næst samkomulag um bætur við bændur á því svæði sem vatnið rennur um eða rennur ekki um eftir atvikum. Auðvitað verður fjallað um þær eignarnámsbætur samkvæmt þeim lögum sem gilda um eignarnám á þeim tíma. Ég tel ástæðu til að gera ráð fyrir að orðið geti einhver breyting á réttarstöðu þeirra sem þar eiga hlut að máli. Ég fullyrði ekki neitt í þessu efni. En um þetta var spurt á fundum iðnaðarnefndar og fengust ekki skýr svör um þetta atriði.

En það er margt sem ræða mætti um í þessu samhengi. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði úr ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar vegna þess að hv. þingmaður fjallaði mikið um ræðu mína í þeirri ræðu sinni. Hann taldi sig hafa fundið sannleikann víða í þeirri ræðu. Hann taldi að margt af því sem ég hefði þar fært fram væri hin mesta firra og rökstuddi það með sínum hætti. Ég ætla að fara yfir það á eftir. En áður en ég geri það langar mig að fjalla eilítið um verktakastarfsemi á Íslandi.

Verktakar eru afar virðingarverð stétt, hvaða verktöku sem þeir stunda. Ég hef verið verktaki. Ég var það í fjöldamörg ár og er mjög stoltur af þeim tíma í minni starfsævi. Verktakar á sviði lögfræði eru ekkert merkilegri verktakar en aðrir verktakar. Orðið verktaki þýðir að viðkomandi taki að sér verkefni og vinni það. En sá sem fær verktaka til að vinna verkefni fyrir sig hefur yfirleitt nokkuð um það að segja hvaða verkefni viðkomandi verktaki fær í hendur. Ég var ekki að óvirða þá lögfræðinga sem hafa samið vatnalagafrumvarpið þegar ég sagði að það hefði verið gert í verktöku. Ég benti á þá staðreynd að hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin réðu menn í vinnu til að semja vatnalagafrumvarpið og fóru aðra leið en farin var á vegum Alþingis á sínum tíma þegar lögin voru sett 1923.

Þá var fyrst sett þingnefnd í málið. Hún náði ekki saman um það, klofnaði og fram komu tvö frumvörp. Í framhaldi af því var síðan samið um niðurstöðu sem menn kölluðu Bræðinginn. Það eru vatnalögin sem menn hafa búið við síðan. Þetta var aðferðin. Núna fóru menn hina leiðina. Hæstv. iðnaðarráðherra réð menn til starfans, ágæta menn. Ég hef ekkert út á þá ágætu lögfræðinga sem tóku þetta verkefni að sér að setja. En ég þykist vita að þeir hafi tekið að sér þetta verkefni eins og fyrir þá var lagt. Unnið það samviskusamlega eins og þeir voru beðnir um. Ef maður fær verktaka til að byggja hús og ætlar að hafa það eina hæð þá byggir ekki verktakinn hús með tveimur hæðum. Hann fer eftir því sem um er samið, (JBjarn: Nákvæmri verklýsingu.) nákvæmri verklýsingu og því verki sem hann er beðinn um. Hann gerir það vel og vandlega. Hann gæti komið með hugsanlegar tillögur að útfærslu verksins, nýjar hugmyndir um það og allt gott um það að segja. En í aðalatriðum stjórnar því sá sem ræður verktakann til starfans hvað er byggt, hvernig unnið og hvað er framkvæmt.

Það er munur á þessum tveimur leiðum sem ég sé ástæðu til að gagnrýna. Við erum að tala um gríðarlega mikilvæg málefni í vatnalögum. Menn hafa tekist á við þessa lagasetningu áður með góðum árangri. Ég tel að full ástæða væri til að sækja sér þekkingu í söguna. En í sögunni um hvernig vatnalögin urðu til er að mínu viti fólginn mikill lærdómur, um hvernig Alþingi getur leyst úr mjög erfiðum og miklum deilum með slíkum glæsibrag að dugir í marga áratugi. Í á níunda áratug hafa þessi lög gilt sem urðu niðurstaðan eftir erfiðar deilur.

Vatnalögin hafa verið til fyrirmyndar. Hvers vegna dugðu þau svona vel? Ég held að það sé vegna þess að menn náðu samkomulagi. Menn réðu ekki bara verktaka til starfans og tróðu niðurstöðunni í kokið á minni hlutanum heldur sóttu menn sér þekkingu. Þeir gengu fram í að ná samkomulagi sem tæki mið af þeim sjónarmiðum sem uppi voru. Þótt ekki hafi allir verið kátir með niðurstöðuna og sumir hafi mótmælt hástöfum þá var niðurstaðan þó studd af stórum hluta þingheims. Árangurinn segir okkur að þar hafi verið vel að verki staðið. En menn tóku ekki þetta verklag til fyrirmyndar þegar var farið í þá endurskoðun sem núna er til umfjöllunar á Alþingi.

Til gamans, áður en ég fer að fást við að fara yfir ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, langar mig að nefna aðeins Framsóknarflokkinn. Hann hefur það hlutverk að koma þessu málefni í gegnum Alþingi. Mér hefur fundist að frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum þeystu Framsóknarflokknum nokkuð glatt yfir foröðin hvað varðar helstu áhugamál þeirra í frjálshyggjunni. Mér finnst þó að í þessu hafi þeir komist lengst, að láta sér detta það í hug að setja einkaeignarrétt á vatnið, á hvern vatnsdropa í þessu landi. Það er eitthvað sem mér hefði ekki komið til hugar að mönnum dytti í hug að gera. En það er samt niðurstaðan. Ég held að það verði lengi í minnum haft þegar lengra líður vegna þess að ég hef ekki trú á að svona lagasetning haldi til framtíðar. Ég held að þingmenn muni finna samkomulagsleið með svipuðum aðferðum og þegar vatnalögin voru sett.

Að mínu viti ber alls ekki óskaplega mikið í milli manna hvað varðar réttindi þeirra sem fasteignir eiga í þessu landi. Það kom í ljós þegar vatnalögin urðu til á sínum tíma að menn töldu rétt að telja upp þau réttindi sem sjálfsagt væri að hafa inni í lögunum. Ég held að finnast mundi samkomulag um hvað ætti að hafa inni í þessum lögum. Ef menn færu þá leiðina að setja lögin með jákvæðum hætti yrði ekki óskaplega erfitt að skera úr um hvaða réttindi ættu að vera þar inni. Eignarhald á sjálfu vatninu er ekki nauðsynlegt til þess. Vatnalögin segja okkur að ekki sé þörf á því heldur nægi að telja upp þá nýtingarmöguleika sem viðkomandi fasteignareigendur hafa.

Hæstv. forseti. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseti, að fá að vitna í áðurnefnda ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Hann talar undir frjálshyggjustefi sem hann hefur að lífsmottói og er einn þeirra sem stjórnar Framsóknarflokknum í þessum frjálshyggjuleiðangri flokksins. Ég óska eftir leyfi forseta til þess að vitna í þessa ræðu og fer fram á að þurfa ekki að biðja um leyfi í hvert skipti sem ég vitna til hennar. Mér finnst að það ætti að duga að óska eftir að fá að vitna í ræðuna því annars verður það æði oft að ég þarf að biðja hæstv. forseta um leyfi til að vitna í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar.

Hann segir hér:

„Ef maður reynir að draga saman í upphafi aðalatriðin í þeim ágreiningi sem uppi er, annars vegar milli þingmanna stjórnarflokkanna og hins vegar fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna, tel ég að grundvallarágreiningurinn snúist um það hvort þetta frumvarp til vatnalaga sem við ræðum hér feli í sér formbreytingu eða efnisbreytingu á réttarástandinu.“

Þetta er í upphafi ræðu hv. þingmanns og hann heldur síðan áfram:

„Í ræðu hv. þingmanns, formanns iðnaðarnefndar, kom skýrt fram að löggjöfin væri með þessum hætti. Vatnsréttindin væru undirorpin eignarrétti, einkaeignarrétti eins og hann hefur verið skilgreindur, og það kæmi fram í íslenskri löggjöf, bæði í vatnalögum og öðrum lögum.“

Ég byrja að mótmæla hér. Hvar í vatnalögum er einkaeignarréttur á vatni skilgreindur? Hvergi. Það var í upphafi ákveðið að svo skyldi ekki vera. Þetta er sem sagt alfarið rangt. Síðar í ræðunni koma endalausar tilvitnanir í lögmenn sem fjalla um að réttindi manna til að nýta vatn hafi verið til staðar. Það að tala um eignarhald á vatni er að mínu viti fráleitt í því samhengi. Menn tala að vísu um vatn sums staðar, jafnvel lögmenn, en þá er ævinlega átt við hagnýtingarrétt, einhvern tiltekinn hagnýtingarrétt á vatni.

Ég set jafnframt stóran fyrirvara við að menn telji að það sé lögfræðinga eða lögmanna að ákveða hvað eigi að vera lög á Íslandi. Ég kalla til vitnis með mér í því efni, t.d. Halldór Ásgrímsson, hæstv. forsætisráðherra og Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sem margsinnis mótmæltu því að Hæstiréttur segði mönnum hvað ættu að vera lög í landinu. Auðvitað á Hæstiréttur ekki að segja mönnum hvaða lög eru í landinu. Það eru þingmenn sem bera ábyrgð á að setja lög í þessu landi. Þeir eiga að hafa burði til að mynda sér skoðanir á því hvað eigi að vera í lögum. Það dugir ekki, til að reka mínar skoðanir ofan í mig, að einhverjir lögmenn hafi aðrar. Ég tel mig hafa rétt til þess og ekki bara rétt heldur líka skyldu, að hafa skoðun á því hvað eigi að vera í lögum. Ég tel ekki að lögmenn eigi að hafa lögsögu um hvað skuli vera í lögum á Íslandi. (Gripið fram í: Þótt þeir séu verktakar.) Það er bara ekki þeirra. Þeir mega hafa skoðun á því hvað sé eðlilegt að hafa í lögum en þingmenn, hæstv. forseti, eiga ekki að taka það sem forskrift, að þeir eigi að hafa sömu skoðun. Þingmenn eiga fyrst og fremst að styðjast við samvisku sína og það vit sem guð þeim gaf.

Áfram með þetta. Hér segir hv. þingmaður:

„Stjórnarandstaðan hefur á hinn bóginn haldið því fram — það hefur komið skýrast fram í andsvörum og sérstaklega andsvari hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem er talsmaður Samfylkingarinnar í iðnaðarnefnd og talsmaður Samfylkingarinnar í þessu máli. Ég lít þannig á að þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið í ræðustól Alþingis endurspegli stefnu Samfylkingarinnar í málinu. Hann sagði m.a. hér í andsvari:

„Við viljum að eignarréttarhugtakið í núgildandi vatnalögum verði látið gilda, þ.e. að ekki sé um séreign að ræða.““

Það er rétt, ég sagði þetta og stend við það. Ég held að þetta lýsi þeirri skoðun sem Samfylkingin og stjórnarandstaðan hafa haldið á lofti í umræðunni. Hv. þingmaður les síðan upp úr yfirlýsingu sem þingflokkur Samfylkingarinnar sendi frá sér. Hv. þingmaður heldur síðan áfram:

„Í þessu hlýtur að felast að hv. þm. Jóhann Ársælsson og Samfylkingin telji að eins og núgildandi vatnalög hafa verið túlkuð felist ekki í þeim einkaeignarréttur á vatnsréttindum eins og við hinir höfum haldið fram.“

Þarna bætir hv. þingmaður inn túlkun sinni á því hvað Samfylkingin telji, þ.e. að það sé ekki einkaeignarréttur á vatnsréttindum. Það höfum við aldrei sagt, hæstv. forseti. Við höfum aldrei sagt að ekki geti verið um að ræða einkaeignarrétt á vatnsréttindum. Þvert á móti höfum við talið að í vatnalögum séu ákvæði sem hafi tryggt aðilum einkaeignarrétt á vatnsréttindum eins og vatnalög mæla fyrir um. Um það er ekki deila frá okkar hendi. Ég verð að segja að mér finnst þetta eiginlega svona svolítið skrýtið, að hv. þingmaður sem er sjálfur lögmaður, skuli ekki hafa áttað sig á þessu. Hann segir síðan:

„Það er alveg ljóst og það kom fram í ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Hann sagði í umræðunni að það væri engin séreign á vatni, Ísland ætti ekki einu sinni vatnið. Það ætti að líta á vatnið sem einskis manns eign eða eign alls mannkyns.“

Það er í aðalatriðum rétt, hæstv. forseti, sem hv. þingmaður segir hérna en svo heldur hann áfram:

„Um þetta snýst náttúrlega ágreiningur þessa máls og ég ætla að fjalla um þetta. Ég ætla að fjalla um það hvernig eignarréttur á vatni hefur verið skilgreindur samkvæmt núgildandi vatnalögum.“

Svo ætla ég að sleppa því að vitna í það sem hann segir þar til kemur að því er að hann segir, með leyfi forseta:

„… ég get ekki betur skilið hv. þm. Jóhann Ársælsson og aðra fulltrúa Samfylkingarinnar en svo að þeir séu þeirrar skoðunar að vatnið og vatnsréttindin eigi að vera í sameign þjóðarinnar.“

Nú er hv. þingmaður allt í einu farinn að tala um að við teljum að vatnið eigi að vera í sameign þjóðarinnar. Rétt á undan hélt hv. þingmaður því fram, með réttu, að ég hefði sagt að vatnið ætti ekki að vera í eigu neins.

Nú skal ég útskýra svolítið nánar hvaða skoðanir ég hef á þessu. Ég tel að vatnið eigi ekki að vera í eigu neins. Það á að vera í umsjá almannavaldsins í landinu. Almannavaldið í landinu á að bera ábyrgð á vatninu. En vatnið á ekki að vera í eigu almannavaldsins. Þess vegna tel ég það mikilvægt að vatnið verði áfram skilgreint með jákvæðum hætti í löggjöfinni. Vatnið á að vera í umsjá almannavaldsins og þarf að vera hægt að setja nýjar reglur um vatnið án þess að það valdi miklum erfiðleikum að koma þeim á. Það verður erfiðara ef menn skilgreina vatnið sem séreign, eins og frjálshyggjumenn vilja og Framsóknarflokkurinn gengur fram í að koma því á.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vitnar í nefndarálit sem við, fulltrúar Samfylkingar í iðnaðarnefnd, lögðum fram varðandi þetta frumvarp:

„… skuli minnt á að „grundvöll skorti til allrar þessarar lagasetningar þar til pólitísk sátt er fundin um það hvernig ráðstafa beri auðlindum í þjóðareign, hvort og hvernig þeim verði fundinn staður í stjórnarskránni og hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir nýtingu þeirra“. “

Þarna er verið að vitna í nefndarálit okkar um þetta frumvarp. Svo segir hv. þingmaður, í framhaldi af þessu:

„Hérna er talað um að koma þessu í þjóðareign. Ég skil ekki hv. þingmann öðruvísi en svo að hann sé þeirrar skoðunar að vatnið eigi að vera í sameign þjóðarinnar eins og hefur verið stefna hans varðandi margar aðrar náttúruauðlindir.“

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson leyfir sér að lesa það sem stendur í nefndaráliti okkar með einhverjum gleraugum sem engin leið er að átta sig á hvernig eru á litinn. Við segjum í nefndaráliti okkar, og ég vil þá endurtaka það:

„… niðurstaða þessara mála fæst svo ekki fyrr en pólitísk sátt er fundin um það hvernig ráðstafa beri auðlindum í þjóðareign …“

Þá erum við að tala um auðlindir af ýmsu tagi. Þar inni eru t.d. sjávarauðlindir og margar aðrar auðlindir sem við teljum ástæðu til að verði settar í þjóðareign. En hv. þingmaður ályktar í framhaldi af því sem þarna er upp lesið að við viljum að vatnið verði líka í þjóðareign. Engin ástæða er til að álykta á þann hátt vegna þess að við erum að tala um fleiri auðlindir en vatnið og auðvitað alls ekki rétt að álykta svona vegna þess að það liggur alveg skýrt fyrir hvað við viljum í þessu efni.

„Við hinir“ — segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson — „erum þeirrar pólitísku skoðunar að einkaeignarrétturinn eigi að gilda um þessi réttindi og hafi gert það allt frá árinu 1923 þegar núgildandi vatnalög voru sett.

Ég og hv. þm. Birkir J. Jónsson höfum reynt að skýra þetta sjónarmið okkar í umræðum í þinginu og sömuleiðis í hv. iðnaðarnefnd en hv. þm. Jóhann Ársælsson og aðrir fulltrúar minni hlutans hafa ekki fallist á skýringar okkar. Þeir fallast ekki á það sem við höfum haldið fram varðandi inntak eignarréttarins, að vatnsréttindi séu undirorpin einstaklingseignarrétti. Á það hafa þeir ekki fallist og þeir hafa margoft bent á það í störfum nefndarinnar. Þeir hafa leyft sér að efast um að vatnalögin, eins og þau eru nú, feli í sér einkaeignarrétt yfir vatni og vatnsréttindum.“

Allt er þetta rétt. Við höfum efast um þetta og ekki bara efast, við höfum fullyrt að ekki væri einkaeignarréttur á vatni þarna á ferðinni, heldur væri þarna á ferðinni rétturinn til nýtingar, hagnýtingar á landareignum á því vatni sem væri á landareignunum og hagnýting sem væri sagt fyrir um í lögunum.

Það kann vel að vera, hæstv. forseti, að mönnum finnist þetta svolítið mikil og löng yfirferð en ég sé ástæðu til þess þegar hv. þingmaður hefur nefnt mig með fjögurra, fimm lína millibili í allri sinni ræðu, að fara yfir það hvernig hann fjallaði um skoðanir mínar. (Gripið fram í: … er hann ekki í vinnu?)

„Úr því að þeir hafa ekki viljað fallast á sjónarmið okkar veltir maður fyrir sér hvert maður geti leitað til að reyna að greina hvað felist í núgildandi vatnalögum. Hv. þingmenn vilja ekki hlusta á okkur og aðra stjórnarþingmenn þannig að við hljótum að leita í fræðin. Eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson fór yfir í sinni fimm tíma löngu ræðu var unnið hér gríðarlegt löggjafarstarf snemma á síðustu öld sem leiddi til þess að vatnalögin, eins og þau eru núna, urðu að lögum. Frá þeim tíma hafa eignarréttindi samkvæmt vatnalögunum verið skýrð í fræðiskrifum, í dómaframkvæmd og í öðrum lögum. Þá liggur beinast við að fara yfir það hvað okkar helstu fræðimenn á sviðum eignarréttarins á síðustu öld hafa talið að felist í eignarréttinum, fasteignaréttinum, vatnsréttindum og hver eigi vatnið. Allt þetta hangir saman.“ — Segir hv. þingmaður.

Svo kemur:

„Víkjum þá að því hvernig Þorgeir Örlygsson sem er einhver helsti fræðimaður á síðari hluta aldarinnar á sviði eignarréttar hefur litið á eignarhald á landi og náttúruauðlindum. Árið 1994 skrifaði Þorgeir Örlygsson, sem þá var farsæll prófessor í eignarrétti við Háskóla Íslands og deildarforseti lagadeildar, grein í afmælisrit Gauks Jörundssonar, sem varð sextugur þann 24. september það ár, sem ber yfirskriftina: Um eignarhald á landi og náttúruauðlindum. Þetta er lykilgrein um það hvað felst í eignarréttinum, hvað telst vera fasteign og, ekki síður, hvernig hagnýtingu náttúruauðlinda í eignarlöndum skuli háttað og hver eigi þau réttindi sem þar eru. Í grein sinni segir Þorgeir Örlygsson“ — með leyfi forseta — „og nú beini ég orðum mínum“ — segir hv. þingmaður — „fyrst og fremst til hv. þm. Jóhanns Ársælssonar …“

(Forseti (JBjart): Forseti óskar eftir því að hv. þm. Jóhann Ársælsson fylgi þingsköpum og hefð þannig að málflutningur hann sé gleggri og óski leyfis forseta í hvert skipti sem hann les orðrétt upp úr gögnum, hvort sem það eru ræður annarra hv. þingmanna eða fræðigögn.)

Hæstv. forseti. Ég verð að sjálfsögðu við þessari ósk hæstv. forseta.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson segir hér:

„Þetta er lykilgrein um það hvað felst í eignarréttinum, hvað telst vera fasteign og, ekki síður, hvernig hagnýtingu náttúruauðlinda í eignarlöndum skuli háttað og hver eigi þau réttindi sem þar eru. Í grein sinni segir Þorgeir Örlygsson“ — með leyfi hæstv. forseta segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, og óska ég leyfis forseta til að lesa þessa tilvitnun: „og nú beini ég orðum mínum fyrst og fremst til hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem hefur fjallað mikið um þetta mál, lagt úr frá 1. gr. frumvarpsins og talið að þau orð sem þar koma fram,“ — með leyfi forseta: — „Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni“, sem er í raun og veru það sama og menn ætluðu sér að gera þegar þeir settu vatnalögin 1923, þ.e. að skýra eignarhald á vatni — um hugtakið eignarrétt, með leyfi forseta:“ — Segir Þorgeir Örlygsson í riti sínu.

Hæstv. forseti. Ég endurtek hér þessa tilvitnun, með leyfi hæstv. forseta: „sem er í raun og veru það sama og menn ætluðu sér að gera þegar þeir settu vatnalögin 1923.“

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þessi umfjöllun vera röng um það hvað menn ætluðu að gera með setningu vatnalaganna frá 1923. Það var algjörlega skýrt að niðurstaða þeirra sem settu vatnalögin 1923 var sú að það skyldi ekki vera einkaeignarréttur á vatni heldur skyldi í lögunum vera kveðið á um hvaða rétt menn hefðu til að nýta vatn. Það var aðalniðurstaðan og allt annað er í raun og veru rangt. Það verður að líta þannig á að það sem var og er svo skýrt ef menn lesa bæði lögin sjálf og líka aðdragandann, sem allur er til og menn geta skoðað, að þarna voru þingmenn sem urðu ásáttir um að í lögunum skyldi telja upp öll þau réttindi sem landeigendur ættu að fá.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson heldur áfram að vitna í Þorgeir Örlygsson og ég vil, með leyfi forseta, vitna í það sem hv. þingmaður hefur eftir Þorgeiri Örlygssyni, sem er svona, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þessu“ — segir Þorgeir Örlygsson — „er eignarréttur skilgreindur á þá leið, að um sé að ræða einkarétt ákveðins aðila (eigandans), til að ráða yfir tilteknum líkamlegum hlut innan þeirra marka, sem þessum rétti eru sett í lögum og af takmörkuðum eignarréttindum annarra aðila, sem stofnað hefur verið til yfir hlutnum.“

Tilteknum líkamlegum hlut. Á fundi iðnaðarnefndar reyndi ég að fá útskýringar á því hvað væri átt við með þessu, hvað ættu lögfræðingar við þegar þeir töluðu um líkamlegan hlut, að ráða yfir tilteknum líkamlegum hlut, eignarréttur skilgreindur á þá leið sem „um sé að ræða einkarétt ákveðins aðila (eigandans), til að ráða yfir tilteknum líkamlegum hlut“. Ég tel að þarna sé nú verið að tala um einhverja hlutkennda eign. Íslenskutilfinning mín segir mér að verið séð tala um einhverja hlutkennda eign, það sé ekki verið að tala um vatn, vatn geti varla talist hlutkennd eign og erfitt að átta sig á því að menn tali um vatn og telji það einhvers konar líkamlegan hlut, eins og hér er lýst.

Hér heldur hv. þingmaður áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta er sú skilgreining sem aðrir fræðimenn á sviði eignarréttar, eins og dr. Gaukur Jörundsson heitinn, einhver allra mesti sérfræðingur á þessu sviði, hafa komist að.“

Síðan vitnar hv. þingmaður í annan fræðimann, Sigurð Líndal, og þá bregður svo við að þar koma upp svipuð hugtök, sömu hugtök. Hv. þingmaður segir frá því að Sigurður Líndal hafi skrifað grein um þessar skilgreiningar á eignarréttinum, séreignarréttinum.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vitna í það sem hv. þingmaður segir um þetta efni:

„Sigurður Líndal“ — með leyfi hæstv. forseta — „skrifaði einmitt grein um þessar skilgreiningar í afmælisrit Davíðs Oddssonar sem kom út þann 17. janúar 1998, grein sem heitir Nytjastofnar á Íslandsmiðum, sameign þjóðarinnar. Þar fjallar hann um þessa skilgreiningu á eignarrétti. Mér finnst rétt að víkja að henni vegna þess að hún er dálítið upplýsandi um það hvort rétt sé að taka upp hina jákvæðu skilgreiningu á eignarrétti eða hina neikvæðu. Um þetta hafa verið miklar umræður í nefndinni og m.a. taldi formaður laganefndar Lögmannafélagsins rétt að taka upp neikvæðu skilgreininguna vegna þess að hún væri í samræmi við góðar lagasetningahefðir, gegn reyndar andmælum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem hefur farið mikinn í þessu máli. Sigurður Líndal segir um þessar skilgreiningar, með leyfi forseta:

„Tvær leiðir má fara til að skilgreina eignarrétt. Hin fyrri er sú að telja upp allar heimildir sem eignarrétti fylgja. Sú upptalning verður þó aldrei tæmandi og þar af leiðandi allt of viðamikil, jafnvel villandi. Þetta er stundum kölluð jákvæð skilgreining. Sú síðari felur í sér að gengið er að því vísu að eigandinn njóti allra heimilda annarra en þeirra sem eru berum orðum undan skildar eignarráðum hans, hvort heldur það gerist með lögum eða samningi. Þetta er kölluð neikvæð skilgreining. Samkvæmt henni felur hugtakið í sér einkarétt“ — ég endurtek einkarétt — „ákveðins aðila, eiganda, til þess að ráða yfir tilteknum líkamlegum hlut innan þeirra marka sem þeim rétti er sett með lögum og stofnun takmarkaðra (óbeinna) eignarréttinda annarra manna yfir hlutnum.““

Enn kemur þessi skilgreining og nú eru tveir fræðimenn kallaðir til. Það er þessi yfirráðaréttur yfir tilteknum líkamlegum hlut. Hvernig sem menn geta nú fundið það út að þetta geti átt við vatn er ofvaxið a.m.k. mínum málskilningi, þ.e. að vatn geti verið líkamlegur hlutur og loftið ætti ekki heldur að geta verið það. En ég hef áður haldið því fram að menn gætu alveg eins ákveðið að einkaeignarréttur gilti um loftið eins og vatnið, það er ekki slíkur eðlismunur á þessu tvennu.

Ég vil mótmæla því að það sé endilega — og nú er ástæða til að gefa gaum að því að Sigurður Líndal er í rauninni ekki að segja að ekki megi nota báðar skilgreiningar, annaðhvort jákvæða eða neikvæða skilgreiningu á eignarrétti. Hann er einungis að segja að sú neikvæða sé venjulegri og að það geti verið að það þurfi að telja upp meira ef menn noti hina jákvæðu skilgreiningu. En vatnsréttindi og umfjöllun um vatn, það er ekki hægt að jafna því við einhver venjuleg eignarréttindi eða nýtingarrétt. Ég sé ástæðu til að nefna að hin jákvæða skilgreining sem hefur verið í vatnalögum hefur verið ákaflega farsæl í þeirri lagasetningu.

Það hlýtur líka að vera umhugsunarefni að skoða ný vatnalög, sem hér er til umræðu, í samhengi við önnur lög því að það er ekki einungis um að ræða að menn setji þessi lög á grundvelli vatnalaga heldur eru fjölmörg önnur lög þegar til og eiga eftir að verða til á þessu sviði. Þess vegna eru vatnalögin í raun að skreppa saman og sú lagasetning hlutuð niður í hina ýmsu lagabálka. Ef vatnalög hefðu verið samin undir sömu formerkjum og hin gömlu vatnalög hefðu þau að öllum líkindum samt orðið töluvert mikið styttri en hin fyrri lög, þau sem eru í gildi núna. Það er einfaldlega búið að taka úr vatnalögum margt af því sem var þar upphaflega. Þau styttast því af eðlilegum ástæðum.

Ég held því líka fram að heppilegt sé að hafa þessa jákvæðu skilgreiningu, einfaldlega vegna þess að vatnið er viðfangsefni framtíðarinnar, fortíðarinnar og nútíðarinnar. Menn þurfa að fást við lagasetningu á þessu sviði í framtíðinni, það þarf örugglega að setja alls konar reglur og ný lög um vatn á Íslandi, breyta lögum og laga að nútímanum á hverjum tíma. Þá er miklu betra að menn geri það með jákvæðum hætti en að eiga við lagasetningu á þeim grundvelli að vatnið sé séreign fasteignareigenda. Þeir munu þá rísa upp á afturfæturna við hverja lagasetningu og heimta bætur vegna þess að það sé gengið á eignarrétt þeirra.

Hæstv. forseti. Enn vitna ég í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Hann vitnar þar í grein sem Þorgeir Örlygsson prófessor skrifaði:

„Í fræðiritum er hugtakið fasteign venjulega skilgreint á þá leið, að fasteign sé afmarkað land ásamt eðlilegum hlutum landsins, lífrænum og ólífrænum, og þeim mannvirkjum, sem varanlega eru við landið skeytt.“

Síðan segir hv. þingmaður í framhaldi af þessu:

„Í þessu felst náttúrlega að vatnsréttindi eru hluti af fasteign, vatnið sem á því er. Ég kem nánar að því á eftir og vitna þá enn og aftur til þessarar merku ritgerðar Þorgeirs Örlygssonar.“

Hv. þingmaður segir að það eigi að skilja orð prófessorsins, þegar hann segir „þeim mannvirkjum, sem varanlega eru við landið skeytt“, þannig að þetta eigi við um vatnsréttindi. Vatnsréttindi eru sem sagt varanlega við landið skeytt samkvæmt málskilningi hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar.

Ég verð að segja eins og er, að ég átta mig ekki á því hvernig menn geta skilið málið með þessum hætti. Ekki geri ég það. Hv. þingmaður segir svo, með leyfi hæstv. forseta, og vitnar í grein Þorgeirs Örlygssonar:

„Er það „meginviðhorf ríkjandi í íslenskum rétti, að heimildin til að ráðstafa og hagnýta náttúruauðlindir í jörðu fer saman við heimildina til ráðstöfunar og hagnýtingar þeirrar fasteignar, þar sem auðlindina er að finna“.“

Svo segir hv. þingmaður frá eigin brjósti, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er af þessum ástæðum sem ég taldi rétt að víkja að fasteignarhugtakinu vegna þess að það verður ekki slitið frá vatnsréttindum eða eignarhaldi á vatni.“

Ég verð að segja það að mér finnst dálítið langt gengið að álykta með þessum hætti, að það sé ekki hægt að slíta fasteignarhugtakið frá eignarhaldi á vatni, einfaldlega vegna þess að eignarhald á vatninu sjálfu hefur aldrei verið séreignarhald. Það er það ekki samkvæmt lögum. Það sem er ekki séreignarhald samkvæmt lögum er ekki séreignarhald.

Áfram segir hv. þingmaður, og vitnar í Þorgeir Örlygsson:

„Í þessu felst, að sá, sem á eignarrétt að tilteknu landi, hefur jafnframt heimild til þess að hagnýta þær náttúruauðlindir, sem þar er að finna og ráðstafa þeim til annarra, með þeim takmörkunum, sem leiðir af löggjöf á hverjum tíma.“

Þetta segir Þorgeir Örlygsson. Ég vil undirstrika þessi orð, hæstv. forseti. Mér finnst þetta afar mikilvægt af því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vitnaði fram og til baka í þennan lagaprófessor. Í raun segir þessi tilvitnun býsna mikið um hvað þessi prófessor er að fara. Hann segir sem sagt, með leyfi forseta:

„Í þessu felst, að sá, sem á eignarrétt að tilteknu landi, hefur jafnframt heimild til þess að hagnýta þær náttúruauðlindir, sem þar er að finna og ráðstafa þeim til annarra, með þeim takmörkunum, sem leiðir af löggjöf á hverjum tíma.“

Auðvitað er þetta þannig að menn hafa þessi réttindi eins og lög segja á hverjum tíma.

Mér hefur, hæstv. forseti, fundist sem hinar miklu tilvitnanir hv. þingmanns í lögmenn og dómaframkvæmd sýni fyrst og fremst að hv. þingmaður hafi ekki áttað á því að hann ber sem þingmaður fyrst og fremst ábyrgð á lagasetningu. Það er ekki lögmanna úti í bæ að hafa forsjá fyrir þingmönnum. Það er sjálfsagt að hlusta á sjónarmið þeirra, velta þeim fyrir sér, en að lokum bera þingmenn ábyrgð á lagasetningu á Íslandi. Lögmenn geta haldið áfram að velta því fyrir sér því hvað lagasetningin hafi í för með sér. Það mun auðvitað verða verkefni þeirra í framtíðina eins og verið hefur. En það tekur ekki réttinn eða skylduna frá þingmönnum, að hafa skoðun og ákveða sjálfir í sölum Alþingis hvað skuli vera lög á Íslandi.

Hæstv. forseti. Þetta er miklu lengri ræða en svo að ég nenni að vitna í hana alla. Hún gengur út á þetta fyrst og fremst, að kalla til nöfn hinna ýmsu fræðimanna. Hér eru líklega nefndir fjórir eða fimm. Þegar menn halda því fram að dómaframkvæmd hafi verið þannig á Íslandi að niðurstaðan segi okkur að vatn sé séreign, að það séu ekki vatnsréttindin eða hagnýtingarrétturinn á vatninu sem sé séreign heldur vatnið sjálft, þá er ég því algjörlega ósammála. Ég tel að menn séu komnir út á ótrúlega undarlegar brautir ef þeir ætla að kalla vatnið séreign nokkurs manns eða fyrirtækis.

Hæstv. forseti. Það mætti velta ýmsu upp í þessari umræðu. Ég talaði lengi í fyrstu ræðu minni og hef möguleika til að ræða málin áfram í þriðju ræðu minni, ef ég kýs svo og ef umræðan gefur tilefni til mun ég gera það. Ég ætla hins vegar ekki að hafa þessa ræðu mjög langa. Ég tel ástæðu til að aðrir fái tækifæri til að komast að og ræða málið. Það eru margir á mælendaskránni. Það er samt ýmislegt sem gaman væri að fara yfir.

Ég ætla að nefna fáein atriði sem ég kom ekki inn á í fyrstu ræðu minni. En í þessu lagafrumvarpi vakti ýmislegt athygli okkar. Við fórum yfir það í nefndinni en meiri hluti nefndarinnar taldi ekki ástæðu til að koma til móts við athugasemdirnar. Svo að ég fari skipulega yfir þetta þá var 1. gr. mjög til umræðu frá 1. umr. í þinginu og síðan í nefndarstarfinu. Ég er bæði að tala um fyrravetur og svo aftur í vetur. Þessi markmiðsgrein í 1. gr. varð tilefni þess að annar höfundanna kom á fund nefndarinnar til að taka það fram að hann hafi verið á móti því að hafa nokkra markmiðsgrein í frumvarpinu. Hann hefur greinilega haft rétt fyrir sér í því, að það hafi ekki verið skynsamlegt að setja markmiðsgreinina inn í frumvarpið. En eins og margoft hefur komið fram er markmið laganna skýrt eignarhald á vatni.

Við gætum velt því fyrir okkur hvort umræðan hefði orðið öðruvísi ef Karl Axelsson hefði fengið að ráða því að hafa ekki markmiðsgrein í frumvarpinu. Hann fékk ekki að ráða því og þetta var sett inn sem markmið í 1. gr. frumvarpsins. En hann var auðvitað að vinna verkefni fyrir hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnina og þegar menn taka að sér verkefni gera þeir það samviskusamlega. Það varð niðurstaðan, en einhverjir fleiri véluðu um þetta. En Karl Axelsson sagði okkur frá því að hann hefði ekki endilega talið rétt að vera með slíka markmiðsgrein í lögum.

Hefði þetta ekki verið í 1. gr. er hugsanlegt að umræðan hefði orðið eitthvað öðruvísi í upphafi. Ég tel reyndar ekki að það hefði breytt neinu um innihald. Menn hefðu auðvitað rætt innihald laganna eftir sem áður en upphafið kynni að hafa orðið eitthvað öðruvísi.

Í 2. gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Þessi grein er nokkuð altæk þegar maður les hana, að lögin gildi um allt vatn, getum við sagt, í hvaða formi sem það er, að fasteignareiganda er gert skylt, stundum getur það verið skylda eða jafnvel kvöð, að eiga allt vatn. Þá væri það þannig að fasteignareigandi sem talinn væri eigandi þessa húss ætti líklega vatnið sem er hér í karöflunni — og ég fæ mér þá vatn í boði hússins. Það er auðvitað svolítið umhugsunarefni hvernig allt vatn getur verið í eigu fasteignareiganda í hvaða formi sem það er.

Ég hef áður sagt að þessi eignarréttur er mjög undarlegur þegar maður veltir þessu öllu fyrir sér. En samkvæmt þessum lögum verður vatnið að eign þegar vatnsdropinn fellur á fasteignina en ekki fyrr og ef um er að ræða fasteign í merkingunni hús þá eignast fasteignareigandinn vatnsdropann þegar hann fellur á þakið og síðan missir hann eignarhaldið á honum þegar hann lekur af upsinni en eignast svo vatnsdropann aftur þegar hann fellur á gangstéttina eða lóðina við húsið. En það er ekki björgulegt með þennan vatnsdropa því að eignarhaldið hverfur aftur þegar vatnsdropinn er runninn yfir lóðarmörkin þannig að þessi eign er skammgóð.

Ég hef áður haldið því fram að þarna ættu menn að líta á sín endimörk hvað varðar eignarhald, að ekki eigi að koma til greina að menn líti á það sem séreign sem ekki er hægt að skilgreina betur sem séreign en þetta. Ég held að skilgreiningin sem sótt var í tilvitnanir í prófessorana sem ég nefndi áðan, um hlutkenningu í eignarhaldinu, eigi að vísa mönnum svolítið veginn um hve langt er hægt að ganga í því að halda fram að eitthvað geti verið séreign. Þetta kom til umræðu á fundum nefndarinnar og ég gerði tilraun til að spyrja fræðimennina að því hvort til væru dæmi um einhvers konar eign sem væri í átt við það sem menn vilja halda fram með vatnið, að vatnið geti verið séreign. Svörin sem ég fékk voru ákaflega óljós og takmörkuð hvað þetta varðar. Menn nefndu t.d. hugverkaréttindi. Það er fráleitt. Eigi menn eitthvert hugverk þá er hægt að skilgreina það með einhverjum hætti og það er þá eign einhvers aðila. Það hugverk rennur ekki eins og vatnið yfir í eigu annarra manna án þess að viðskipti fari fram. Ég lít svo á að inn í þessa umræðu væri mjög gott að fá einhver dæmi um að menn hafi slegið eign sinni með einhverju betur skilgreindu eignarhaldi betur en þetta á eitthvað sem er sambærilegt við vatn eða loft. Ég get ekki séð að það sé nein ástæða til að gera mun á vatni og lofti. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að vatnið geti verið séreign þá hlýtur loftið líka að geta verið það. Það er ekki mikill munur á því í raun og veru að halda þessu tvennu fram.

Í 3. gr. er farið yfir skilgreiningar á hugtökum í þessari lagasetningu. Ástæða er til að nefna sumt af því sem þar er sagt og ég ætla að gera það, með leyfi forseta:

„Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir:

1. Almenningur: Sá hluti vatns sem liggur fyrir utan netlög fasteignar.“ — Ég ætla ekki að fara út í þá skilgreiningu nánar.

„2. Áveita: Mannvirki sem notað er til þess að veita vatni á land.

3. Búsþarfir: Búsþarfir til kvikfjárræktar.“

Það virðist ekki mikið skilgreint hvað átt er við með búsþarfir. Búsþarfir til kvikfjárræktar eru mjög takmarkaðar búsþarfir. Ég held að þarna sé ástæða til að skoða málin betur.

Ég vek athygli hæstv. forseta á því, vegna þess að þinghald hefur dregist nokkuð og sumar ræður eru langar og stundum kemur fyrir að þeir sem eiga næstu ræðu eru ekki í salnum, að ég óska eftir að hæstv. forseti geri þeim aðila viðvart sem næstur er í röðinni á mælendaskrá. Ég á þó margt eftir að skoða ef ég ætla að fara yfir þetta lagafrumvarp. Ég tel fulla ástæðu til að gera það til upplýsingar þeim sem hugsanlega fylgjast með þessum umræðum á Alþingi en ég hef ekki aðstöðu til þess í þessari ræðu. Ég mun skoða hvort ég geri þessu betri skil í þriðju ræðu minni en ég ætla þó að koma aðeins að 11. gr. en þar er talað um landamerki í stöðuvötnum:

„Nú liggur fasteign að stöðuvatni og fylgir vatnsbotn þá þeim bakka sem hann verður talinn framhald af, 115 metra út í vatn (netlög).

Ef stöðuvatn er merkivatn og er eigi 230 metrar á breidd skal miðlína þess ráða merkjum nema önnur lögmæt skipun hafi verið á gerð.“

Svo kemur, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði og fylgir vatnsbotn þá landi sem þurrt land væri.“

Ég endurtek: „Nú vex gras upp úr landi við lágflæði …“ Þetta eru landamerki. Þarna voru höfundar frumvarpsins að halda í gamalt orðalag. En ekki er þetta nútíminn því að nú eru t.d. fjölmörg sveitarfélög búin að láta hnitsetja öll lönd í bæjum sínum og þessi tækni að hnitsetja og ganga frá merkjum með þeim hætti gefur möguleika á því að hafa mjög nákvæm landamæri milli landareigna manna og auðvitað er það ekki nútíminn að láta gras, eyrar eða sker eða jarðveg sem getur verið á hreyfingu skera úr um hvar landamerki séu milli fasteignareigenda. Við bentum á þetta við umfjöllun í nefndinni en það var engin aðstaða til að fá neinu breytt hvað þetta varðar frekar en öðru sem rætt var um í nefndinni.

Ég nefndi fyrr í ræðu minni að menn hefðu með undarlegum hætti breytt greininni sem gerir ráð fyrir því að „vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið“, eins og stendur í vatnalögunum. Það stendur líka í þessu frumvarpi en ég benti á það í fyrri ræðu minni hvað gert hefur verið hvað þetta varðar, þ.e. að niðurstaða þeirra, sem bera ábyrgð á þessu frumvarpi, var sú að taka út úr vatnalögum þann möguleika sem fasteignareigandi hefur núna til að færa vatn aftur í þann farveg sem það var í. Ég tel að það sé full ástæða til að kalla eftir skýringum á þessu af því að þetta er í raun og veru breyting sem hlýtur að taka rétt frá mönnum. Það virðist sem þeir sem hér ráða húsum hafi talið ástæðu til að taka möguleikana á því að breyta farvegi vatns til baka ef einstaklingur eða fyrirtæki hefur breytt farvegi þess en menn hafi réttinn áfram ef farvegur hefur breyst af náttúrulegum ástæðum. Mér finnst full ástæða til að því verði svarað hér hvernig á því stendur að menn gera þessa breytingu. Ég ætla að ljúka orðum mínum með þessu núna, hæstv. forseti, en áskil mér rétt til að mæta í ræðustólinn síðar.