132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:29]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur við að maður segi að kominn sé svefngalsi í menn á Alþingi þegar maður hlustar á hv. þm. Sigurjón Þórðarson fara yfir þetta mál eftir að hafa setið með honum í iðnaðarnefnd og farið yfir málin. Hann hefur nefnt aðkomu Bændasamtakanna. Ég minni á að þrátt fyrir umsögn Bændasamtakanna, sem var gagnvart fyrra frumvarpinu jafnframt, áttu þeir fulltrúa við að semja þetta frumvarp. Sá aðili hefur náttúrlega verið með í smíði frumvarpsins og framlagningu þess. Þetta er ekki alslæmt gagnvart Bændasamtökunum eins og hv. þingmaður vill vera láta.

Hv. þingmaður segir í öðru orðinu að hann vilji styrkja eignarrétt bænda. Hann talar í hinu orðinu um að verið sé að hlunnfara bændur og rýra aðstöðu landsbyggðarinnar. Mér finnst að það verði að vera einhver samsvörun í því sem hv. þingmaður segir.

Í ræðu hv. þingmanns áðan líkti hann þessu frumvarpi, vatnalagafrumvarpinu, við útvarpslög … (SigurjÞ: Fjölmiðlalögin.) … við fjölmiðlalög, já. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji hugsanlegt að forseti Íslands muni ekki skrifa upp á þessi lög líkt og fjölmiðlalögin? Er þetta álíka alvarlegt mál að mati hv. þingmanns?