132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[12:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér var áðan vísað til afstöðu stóru flokkanna á Alþingi sem stutt hafi NATO-aðild og hersetu á Íslandi um áratugaskeið en ég vil segja fyrir hönd flokks sem er ekki ýkja stór að allir flokkar, stórir og smáir og einnig óháð því hvort þeir eigi stóran eða smáan málstað að verja, eigi að sameinast í þeirri vinnu að skilgreina öryggishagsmuni íslensku þjóðarinnar. Því erum við fylgjandi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og höfum margoft flutt tillögur þess efnis.

Mér hefur heyrst við þessa umræðu að fulltrúar flestra flokka annarra hafi horft til þess hvaða NATO-ríki eigi nú að passa upp á Ísland, hvort við eigum að beina sjónum okkar til einhvers NATO-ríkis í Evrópu ef það verður ekki NATO-ríkið Bandaríkin. Við teljum að ef við ætlum að taka upp alvöruumræður um öryggishagsmuni Íslands þurfi allt að vera undir, einnig sú hugmynd og hugsjón sem við nærum í brjósti í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að Ísland standi utan allra hernaðarbandalaga.

Sú vá sem er alvarlegust og við stöndum frammi fyrir er að sjálfsögðu umhverfisváin. Hvað hernaðarógnina áhrærir steðjar okkur helst hætta af of nánu samstarfi við NATO og ráðandi öfl innan þess hernaðarbandalags og þar er ég að sjálfsögðu að vísa til Bandaríkjanna og fylgispektar íslensku ríkisstjórnarinnar við stefnu þessa herveldis.

Hæstv. forseti. Ég tek undir sitthvað sem fram kom í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra, að nú þurfi Íslendingar að horfa til ýmissa þátta sem varða öryggi okkar. Hann nefndi almannavarnir. Hann nefndi nauðsyn þess að efla Landhelgisgæslu Íslands. Hann nefndi ekki en ég vil nefna Flugmálastjórn og ég vil einnig skjóta því til hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að hverfa frá öllum áformum um að einkavæða eða hlutafélagavæða þessa þjónustu, ekki síst í ljósi þeirrar þróunar sem við nú stöndum frammi fyrir og þess að Íslendingar munu að öllum líkindum, og vonandi, standa meira og í ríkari mæli á eigin fótum í framtíðinni. Þegar liggja fyrir hugmyndir um að hlutafélagavæða Flugmálastjórnina á Íslandi. Einnig hafa verið orðaðar hugmyndir um að gera slíkt hið sama við Landhelgisgæslu Íslands. Ég vek athygli á því að innan hins heilaga NATO í Bandaríkjunum og í Evrópu hafa menn verið að hverfa frá slíkum áformum og vinda ofan af hlutafélaga- og einkavæðingarþróuninni innan þessa geira sem er skilgreindur sem grunnþættir í öryggiskerfi þjóðanna. Þá ætla Íslendingar að halda út á braut einkavæðingar með grunnstoðir af þessu tagi og ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja til þess að slík áform verði nú sett á hilluna.