132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fjölgun starfa hjá ríkinu.

[15:31]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég get tekið undir það sem hæstv. byggðamálaráðherra nefnir hér, hún ber ekki ein ábyrgð á ástandinu. Það er stefna ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í þessu svari sem sýnir svart á hvítu að öll fjölgun opinberra starfa, þ.e. starfa ríkisins, hefur orðið í Reykjavík. Störfum ríkisins hefur fækkað eða þau staðið í stað á landsbyggðinni.

Þetta eru staðreyndir málsins sem liggja frammi í svörum ráðuneytisins og það segir náttúrlega sína sögu að hæstv. ráðherrar fara ætíð út á land og halda einhverjar opnunarhátíðir en þegar dæmið er gert upp af sjálfum ráðherranum, hæstv. fjármálaráðherra, kemur það heim og saman í bókhaldinu að störfin hafa einfaldlega staðið í stað eða dregist saman nema á Reykjavíkursvæðinu þar sem þeim hefur fjölgað um tæplega þrjú þúsund — og það ekki á 10 árum, frú forseti.