132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[17:20]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður þarf ekkert að kenna mér í þessum efnum og ekkert vera að skamma mig hvað þetta varðar. Ég er ekki hér í neinni vörn fyrir netaveiði. Ég álít hins vegar, og hef farið yfir það, að það væri mjög flókið mál lagalega, og er það að mati færustu prófessora þessa lands, að setja löggjöf sem bannar öll net. Það mundi ekki einu sinni henta öllum ám því að þá yrði ekki veitt þar lengur, þar sem eru notuð eingöngu net. Ég hef farið yfir að það gæti líka þýtt mikið fyrir þær ár sem búið er að taka netin upp úr og semja, þá væri komið þar skaðabótamál. Þess vegna finnst mér þessi umræða fara út um víðan völl og ekki vera marktæk.

Ég minni hv. þingmann á að á því vatnasvæði sem hann er að tala um, Hvítá/Ölfusá, er mjög víða og í vaxandi mæli stangveiði á jörðum. Netin eru örfá eftir í ánum, þannig að þetta er fyrst og fremst samningamál á svæðinu en ekki löggjafarmál hér á Alþingi. Það er miklu betra að gera þetta í þeim friði.