132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Staða efnahagsmála.

[14:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að ástæða væri til að benda á í upphafi að stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar væri jafnvitlaus innan Evrópusambandsins sem utan þess. Annars er í sjálfu sér ekki mörgu við að bæta frá því að umræða um efnahagsvandann var síðast tekin til umræðu utan dagskrár á Alþingi. Hins vegar er þessi umræða mjög þörf og mætti verða að föstum lið í störfum þingsins á meðan ekki verður gerð grundvallarbreyting á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Úrræðin sem grípa þarf til eru jafnaugljós og áður og við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs höfum hamrað á því um margra missira skeið, nú síðast í mjög ítarlegu þingmáli sem lagt var fyrir þingið í upphafi þessa þings.

Allt sem er að gerast núna í efnahagsmálum og í fjármálakerfinu var fyrirsjáanlegt, alveg jafnfyrirsjáanlegt og brottför hersins frá Miðnesheiði var fyrirsjáanleg, en í báðum tilvikum þverskallast ríkisstjórnin við og neitar að viðurkenna staðreyndir og grípa til viðeigandi ráðstafana. Sumt af því sem við lögðum til í haust er að gerast núna, t.d. varðandi aðhald að fjármálafyrirtækjum og ýmsu sem er að gerast á fjármálamarkaði, en nú er það að gerast af illri nauðsyn en ekki af fyrirhyggju eins og við lögðum til. Það var fyrirsjáanlegt að með óbreyttri efnahagsstefnu, fyrst og fremst í stóriðjumálum, mátti búast við miklum og viðvarandi viðskiptahalla. Það var fyrirsjáanlegt að búast mátti við þenslu með tilheyrandi verðbólgu. Það var fyrirsjáanlegt að búast mætti við háu gengi krónunnar og háum vöxtum með tilheyrandi erfiðleikum fyrir útflutningsgreinar. Og það var fyrirsjáanlegt að búast mátti við flótta hátæknifyrirtækja frá landinu. Við vöruðum við þessum ruðningsáhrifum af völdum stóriðjustefnunnar. Nú talar hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar í véfréttastíl, talar nánast eins og (Forseti hringir.) þetta séu hugarórar og tilbúningur í fjölmiðlum. (Forseti hringir.) Staðreyndin er sú að þetta eru ekki aðeins varnaðarorð sem eru að birtast (Forseti hringir.) í skýrslum matsfyrirtækja, þetta er sá veruleiki (Forseti hringir.) sem við horfum upp á núna í íslensku efnahagslífi.