132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Þjóðlendur.

630. mál
[14:40]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir orð hæstv. forsætisráðherra um að hér er ekki um stóra breytingu að ræða. Hann er búinn að gera grein fyrir því að þetta frumvarp lýtur að tvenns konar breytingum og báðar breytingarnar eru smávægilegar.

Þar sem fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra og kemur einnig fram í umsögn um frumvarp til laga frá Fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að verkefni óbyggðanefndar hafi reynst mun tímafrekara og kostnaðarsamara en reiknað var með í upphafi, þá langaði mig aðeins að spyrja hvort hæstv. forsætisráðherra hefði á takteinum — en ég skil vel að hann hafi það ekki — þá tölu hvað þetta starf hefur kostað hingað til og hvort það sé einhver möguleiki að áætla hvað þetta muni kosta til loka verkefnisins árið 2011. Mig langar bara að forvitnast um þetta þar sem minnst er á þetta í greinargerðinni, hvort einhver möguleiki sé að meta það hvað öll þessi vinna óbyggðanefndar muni kosta.