132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Sjúkrahústengd heimaþjónusta fyrir aldraða.

484. mál
[13:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og umræðuna um þessa þjónustu. Ég er sammála hæstv. ráðherra að við eigum ekki að vera með tvöfalt kerfi. Við þurfum að samhæfa þessa þjónustu. Í dag er sjúkrahústengd heimaþjónusta frá Landspítalanum. Það er fyrir sjúklinga sem þurfa t.d. lyfjagjöf í æð og sáraskipti. Sú þjónusta er veitt af spítalanum. Ekki er veitt aðhlynning eins og t.d. fyrir aldraða sem þurfa að fara heim og ég velti því fyrir mér hvort ekki þyrfti að vera svoleiðis þjónusta á meðan fólk fær ekki heimahjúkrun eða heimaþjónustu frá öðrum aðilum eins og heilsugæslunni. Ég held að þetta þurfi að skoða betur því það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að festast inni á spítala, eins og ég er margoft búin að segja hér, vegna þess að þjónusta er ekki í boði.

Ég er ekki sammála hv. þm. Ástu Möller um að sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingar eigi að taka að sér þá heimahjúkrun sem Landspítalinn veitir í dag. Mér finnst eðlilegra að hún sé veitt beint frá spítalanum af hjúkrunarfræðingum sem þekkja vel sjúklinginn og þarfir hans. Það er a.m.k. mín tilfinning. En ég held að þessi umræða sýni að það þarf að ráða bót á þeirri stöðu sem heimaþjónustan og heimahjúkrunin er í. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að annaðhvort þurfi að sjá til þess að þjónustan sé veitt eins og hún er í dag, þ.e. heimahjúkrunin, eða að koma á sjúkrahústengdri heimaþjónustu þangað til að ástandið lagast. Við getum ekki látið aldraða líða fyrir það að ekki (Forseti hringir.) sé þjónusta til staðar fyrir þá.