132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Lækkun raforkuverðs.

618. mál
[14:47]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Árið 1996 skipaði iðnaðarráðherra, að fengnum tillögum borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjórans á Akureyri, viðræðunefnd eignaraðila að Landsvirkjun til þess að ræða eignarhald, rekstrarform og hlutverk fyrirtækisins. Hlutverk nefndarinnar var að kanna hvort tímabært væri að breyta rekstrarformi, eignaraðild og hlutverki Landsvirkjunar frá því sem þá var og ef svo væri hversu langt skyldi ganga í þeim efnum.

Viðræðunefndin komst að þeirri niðurstöðu að rekstrarform Landsvirkjunar skyldi vera óbreytt fram til ársins 2004 en eigendaframlög, sem komi í stað eiginfjárframlaga og stofnframlaga, yrðu endurmetin miðað við árslok 1995. Þá var lagt til að sett yrði arðgjafargjaldskrár og arðgreiðslumarkmið fyrir Landsvirkjun og breytingar yrðu gerðar á stjórnskipulagi fyrirtækisins. Í niðurstöðum nefndarinnar segir varðandi þetta að fyrir liggi áætlanir um rekstur Landsvirkjunar byggðar á ákveðnum forsendum, þar á meðal að gjaldskrárverð verði óbreytt að raungildi til ársins 2000 og lækki síðan árlega um 2–3% á árunum 2001–2010. Þá segir að þessar forsendur eigi að tryggja ákveðna arðsemi en þær kunni þó að breytast sem gæti haft í för með sér röskun á fyrrgreindum forsendum um þróun gjaldskrár.

Í samræmi við niðurstöður viðræðunefndarinnar gerðu fulltrúar eigenda breytingar á sameignarsamningi um Landsvirkjun. Í fylgiskjali S með samningnum er fjallað um arðgjafargjaldskrár og arðgreiðslumarkmið Landsvirkjunar. Í 2. tölulið fylgiskjalsins segir að stefnt skuli að því að gjaldskrá Landsvirkjunar til almenningsrafveitna verði í meginatriðum óbreytt að raungildi til ársins 2000 en lækki síðan að raungildi um 2–3% á ári á árunum 2001–2010.

Í þessu sambandi verður að hafa í huga að þegar samkomulagið var gert hvíldu samkvæmt lögum víðtækar skyldur á Landsvirkjun umfram það sem nú er. Þannig var tilgangur fyrirtækisins m.a. að vinna, flytja og selja í heildsölu raforku til almenningsrafveitna svo og til iðjufyrirtækja og að byggja og reka raforkuver og meginstofnlínukerfi landsins. Þá var í lögum um fyrirtækið kveðið á um að sama gjaldskrá skyldi gilda um afhendingu rafmagns til almenningsrafveitna á afhendingarstöðum fyrirtækisins.

Þegar samkomulagið var gert voru öll orkufyrirtæki landsins að auki að stærstum hluta undanþegin skattskyldu sem er ekki raunin nú. Með tilkomu nýrra raforkulaga, og þá sérstaklega stofnun Landsnets hf., breyttist hlutverk Landsvirkjunar auk þess í grundvallaratriðum í það að verða eingöngu raforkuframleiðandi og heildsali á raforku. Við þetta breyttust allar forsendur verulega, m.a. tók ný heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar gildi þar sem orkuverð var fest bæði til lengri og skemmri tíma.

Í fyrirspurn hv. þingmanns er vikið að þeim þætti samkomulags sameigenda Landsvirkjunar sem varðar gjaldskrármarkmið. Er í fyrsta lagi rétt að fram komi að um er að ræða sameiginlegt markmið eigenda Landsvirkjunar og ekki á færi ríkisstjórnarinnar einnar að fylgja eftir þeirri stefnumörkun umfram aðra eigendur. Við gjaldskrárákvarðanir stjórnar fyrirtækisins horfði stjórnin þó að sjálfsögðu m.a. til þessarar ákvörðunar.

Í annan stað ber að hafa í huga að samkomulagið gekk út á að gjaldskrárverð Landsvirkjunar til almenningsrafveitna skyldi haldast óbreytt að raungildi til ársins 2000 en lækka síðan að raungildi um 2–3% á ári á árunum 2001–2010.

Í þriðja lagi verður að hafa í huga að gríðarlegar breytingar hafa orðið á skipulagi raforkumála sem ekki lágu ljósar fyrir árið 1996. Ef hins vegar er horft til fyrrgreinds markmiðs hækkaði gjaldskrá Landsvirkjunar, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu, um alls 16,1% á tímabilinu frá janúar 2001 til janúar 2006. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs hins vegar öllu meira eða um 23,4%. Raunlækkun gjaldskrár Landsvirkjunar, ef miðað er við vísitölu neysluverðs, var því á tímabilinu u.þ.b. 31%. Til samanburðar hefur rafmagnshluti vísitölu neysluverðs, sem nær að vísu eingöngu til einstaklinga en ekki fyrirtækja, hækkað á þessu sama tímabili úr 105,8 stigum í 123,7 stig eða um 16,9%. Raunlækkun rafmagnsverðs á tímabilinu, ef miðað er við vísitölu neysluverðs, er því tæplega 28% ef miðað er við þetta fimm ára tímabil.

Það er því óhætt að segja að verðskrá Landsvirkjunar hefur ekki hækkað í takt við almenna verðlagsþróun hér á landi hin síðustu ár og virðist það að mestu hafa skilað sér til neytenda því að hækkanir á rafmagnshluta vísitölu neysluverðs eru umtalsvert lægri en verðlagsþróunin. Eins og ég hef þó áður vikið að í mínu máli eru forsendur allar aðrar í dag en þegar fyrrgreint markmið var sett. Nú hefur verið innleidd samkeppni á raforkumarkaði sem hefur þegar skilað sér í verðlækkunum til neytenda. Ég hef fulla trú á því að svo muni áfram verða og að skipulagsbreytingar sem gerðar voru á raforkumarkaði verði því til góðs.