132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:35]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta síðasta að það sé formsatriði að iðnaðarráðherra fari með eignarhald í Rarik finnst mér skrýtið. Ég hef reyndar ekki góða reynslu af því að ræða um það sem menn kalla formsatriði hér vegna þess að við tókum svolitla skorpu um það í umræðunni um vatnið. Það er ekki formsatriði í mínum augum að iðnaðarráðherra hafi yfirráðin þarna. Þetta snýst um það hvort um sé að ræða góða eða slæma stjórnsýslu. Iðnaðarráðherra er með mörg hlutverk hvað varðar þau fyrirtæki sem eru á þessum markaði. Menn þurfa að átta sig á því að ef búa á til eitthvert samkeppnisumhverfi þar sem traust ríkir þá má ekki hátta þannig til að sami aðili, sem er yfirmaður ríkisfyrirtækjanna, sé að velja á milli þeirra og annarra fyrirtækja á markaðnum. Það er þetta sem ég á við og ég álít alls ekki um neitt formsatriði að ræða.

Hitt sem ég spurði um var um eignarhaldið. Ég þóttist nokkuð vita hvað hv. þingmaður var að fara, mér fannst hann taka þannig til orða í þeim andsvörum sem ég var að vísa til að hann teldi að þetta eignarhald gæti breyst og ef það væri bara lítið væri það allt í lagi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir algerlega skýru eignarhaldi ríkisins og þess vegna taldi ég ástæðu til að spyrja betur eftir afstöðu hv. þingmanns.

Ég tel reyndar, eins og ég lét koma fram í ræðu minni á undan, að áður en menn geti farið að ræða þetta í alvöru þurfi að afgreiða hin stóru mál sem varða eignarhald á auðlindum og hvernig með það skuli fara, en ég kem betur að því í seinna andsvari mínu hvað ég á við þar.