132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:37]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg skýrt í því lagafrumvarpi sem við ræðum hér að öll hlutabréf í hlutafélaginu skulu vera eign ríkissjóðs og að sjálfsögðu þarf að gera einhverja lagabreytingu ef menn ætla að breyta því grunnstefi. Ég styð þetta frumvarp af heilum hug og árétta að það er skoðun mín að það sé mikilvægt að ríkið hafi meiri hluta og afgerandi yfirráð yfir þessari dýrmætu þjóðarauðlind okkar. Við búum við það, Íslendingar, að vera með eitt lægsta raforkuverð í heiminum og mesta afhendingaröryggi og ég vil ekki raska því.

Það er alveg ljóst að ef við ætlum að selja meiri hlutann í þessari auðlind okkar verður gerð arðsemiskrafa á það hlutafé. Það þýðir bara eitt í mínum huga og það er að raforkuverð mundi hækka. Mér finnst mjög mikilvægt að við sem þjóð höfum meirihlutayfirráð yfir þessari dýrmætu auðlind. Það er mín bjargfasta skoðun. En hvort ég vilji útiloka um alla framtíð að mögulega komi einhver inn með minni hlut treysti ég mér ekki til og minni á að Norðmenn hafa farið þá leið. Þar hafa aðrir aðilar komið að olíuauðlindinni og þeirri miklu vinnu sem snertir hana og þann mikla auð sem í kringum olíuauðlind Norðmanna er en samt sem áður er meirihlutaforræði Norðmanna á þeirri auðlind tryggt. Ég tel að um það sé þverpólitísk samstaða í Noregi hvað það varðar.

Ég legg áherslu á við glutrum ekki meirihlutaeign íslensku þjóðarinnar á þessari auðlind úr höndum okkar. Það er útgangspunktur minn í þessari umræðu. Ég tel að við hv. þm. Jóhann Ársælsson og Samfylkingin séum sammála í þeim efnum.