132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður Kristján L. Möller segist ekki hafa verið hræddur við, eins og hann orðaði það, að breyta opinberum stofnunum í hlutafélög. En jafnframt kom fram í máli hans að hann telur mjög mikilvægt að Rafmagnsveitur ríkisins hf. verði eftir sem áður alfarið í eigu ríkisins.

Við þessa umræðu hefur komið fram að talsmenn Sjálfstæðisflokksins eru mjög eindregið á því að það komi vel til greina að selja hluti í Rarik hf. Margir tala beinlínis fyrir því. Við höfum heyrt hæstv. iðnaðarráðherra tala um markaðsvæðingu og einkavæðingu raforkugeirans. Hún hefur vísað í lífeyrissjóði og til þess að úrelt sé að ríkið eigi þessa starfsemi. Við höfum heyrt um það rætt af hálfu annarra talsmanna Framsóknarflokksins að þeir sjái það eitt fyrir sér sem handfast að meiri hlutinn í Rarik hf. verði í eigu ríkisins þegar fram líða stundir. Um það er ekkert staðhæft en sú framtíðarsýn er máluð upp þrátt fyrir 3. gr. frumvarpsins.

Ég spyr hv. þingmann, í ljósi alls þessa, af því að hann gerði hræðsluna að umtalsefni: Er ekki ástæða til að óttast að þegar búið er að færa Rarik í söluform, búið að markaðsvæða það að öllu formi til, að skrefið verði stigið til fulls eins og gert hefur verið með nánast allar (Forseti hringir.) stofnanir sem hafa verið gerðar að hlutafélögum, að þær hafa verið seldar?