132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Álit Samkeppniseftirlits um taxta leigubifreiða.

[13:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mikill samhljómur í því sem fram kemur þegar þingmenn lýsa afstöðu til þessa máls, nú síðast í orðum hv. formanns samgöngunefndar Alþingis. Hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson talaði einnig mjög skýrt og afdráttarlaust í þessu máli og ég fagna yfirlýsingum hans en hann segir að í sínum huga sé ekki heppilegt að afnema þá hámarkstaxta sem við búum við. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir leigubílstjóra sem hafa búið við ákveðna óvissu í þessum efnum að fá þá yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra sem hann hefur nú gefið.

En vegna þess að Samkeppniseftirlitið telur sig eflaust hafa verið að fylgja þeim lögum sem því var sett að fylgja, þá stöndum við nú frammi fyrir þeirri spurningu hvort við þurfum að breyta þeim lögum. Við megum náttúrlega ekki búa við slíkar aðstæður að Samkeppniseftirlitið fari að etja okkur út í eitthvert fen sem við viljum ekki fara út í, þröngva okkur til samkeppni á sviðum þar sem samvinna á hugsanlega betur við. Verkefnið sem við horfum fram á hlýtur þá að vera hvort við þurfum að breyta lögum að einhverju leyti til að ná þeim markmiðum sem við virðumst öll vera sammála um, a.m.k. þeir sem hafa tekið þátt í umræðunni hér og nú.