132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[14:07]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum á svipuðum slóðum þegar við skoðum kjarna málsins, þ.e. rekstrarformið á Rafmagnsveitum ríkisins til framtíðar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, t.d. með upplýsingalögum um hlutafélög í opinberri eigu o.s.frv. Ég er algerlega sannfærður um að orkufyrirtæki í landinu eiga að vera í félagslegri eigu í einni eða annarri mynd. Um það er ég sannfærður. Ég held að það væri t.d. óheillaskref að einkavæða eða selja Landsvirkjun að hluta eða öllu leyti.

Ég spurði hæstv. forsætisráðherra þeirrar spurningar í umræðum á dögunum um skyld málefni, um eignarhald á landi í kringum Búrfellsvirkjun. Það var ekki hægt að skilja hæstv. forsætisráðherra öðruvísi en svo að hann væri afgerandi andvígur því að einkavæða og selja Landsvirkjun, að það stæði ekki til í hans stjórnartíð. Ég fagnaði því mjög af því að skilja mátti aðra forustumenn í ríkisstjórninni á annan veg, sérstaklega fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Það sjónarmið hefur kannski ekki heyrst í ríkisstjórninni en hjá mörgum þingmönnum og forustumönnum flokksins, þ.e. að Landsvirkjun væri eitt af fórnarlömbum einkavæðingarinnar á næstu missirum. Ég tek undir að við eigum að fara varlega í þeim málum. Orkufyrirtækin á ekki að einkavæða í þeim skilningi, alls ekki.

En félagslegt eignarhald, í þeirri mynd sem völ er á, kemur ekki bara til greina heldur er það eftirsóknarvert. Þá á ég við eignarhalds ríkisvaldsins, sveitarfélaga og lífeyrissjóða. Ég held að þetta frumvarp geti verið ágætt skref ef horft er fram hjá vantrú og vantrausti stjórnarandstæðinga og Íslendinga á stjórnarflokkunum, m.a. hv. þingmanns sem ég er í andsvörum við, Sigurjóns Þórðarsonar. Óbeit hans á Framsóknarflokknum er mjög mikil en mig langar að vita hvort málið geti samt ekki verið skref í rétta átt að stofnun hlutafélags um Rafmagnsveiturnar til að ná þessum framtíðarmarkmiðum um félagslegt eignarhald með ýmsum hætti.