132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[17:20]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

Í nefndaráliti segir:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti.

Umsagnir bárust frá óbyggðanefnd, Orkustofnun, Akureyrarbæ, lögfræðiskrifstofu stjórnsýslu- og starfsmannasviðs Reykjavíkurborgar, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóla Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að forsætisráðherra sé heimilt að afsala tilteknum réttindum til Landsvirkjunar sem ætlun ríkisins var að leggja til fyrirtækisins við stofnun þess árið 1965, en samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar um eignarréttindi á Gnúpverjaafrétti og Landmannaafrétti var framsal þessara réttinda þá byggt á vanheimild. Var niðurstaða óbyggðanefndar sú að umrætt landsvæði væri þjóðlenda í skilningi laga og fer ríkið þar með eignarrétt.

Réttindin sem um ræðir eru annars vegar vatnsréttindi í Þjórsá að því marki sem þarf til að reka 210 megavatta virkjun og hins vegar með sama áskilnaði viðeigandi landskiki í Búrfells- og Skeljafellslandi sem teygir sig að óverulegu leyti inn á Landmannaafrétt.

Með frumvarpinu er verið að skjóta lagastoð undir samning ríkisins sem gerður var við stofnun Landsvirkjunar og leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt.

Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita aðrir nefndarmenn í hv. allsherjarnefnd en Ágúst Ólafur Ágústsson, Sigurjón Þórðarson, Guðrún Ögmundsdóttir og Kjartan Ólafsson gera fyrirvara við álitið.