132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun sæstrengs.

509. mál
[12:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um hvað líði vinnu við endurnýjun á sæstreng til að tryggja netsamband við útlönd. Eins og við vitum skiptir stöðugleiki í samgöngu- og samskiptamálum öllu máli í nútímasamfélagi. Það er eitt af forgangsatriðum stjórnvalda að tryggja slíkan stöðugleika og hefur ítrekað verið kallað eftir umbótum á þessu sviði og má til þess nefna skýrslu Viðskiptaráðs Íslands. Það urðu vissulega ákveðin straumhvörf með tilkomu Farice-sæstrengsins á sínum tíma sem býður upp á 720 gígabætaflutning en einungis eru notuð rúm tvö af þeim og má segja að það sé flöskuháls í gagnaflutningum til landsins, flöskuháls á meðan um er að ræða prýðilegan háhraða innan lands en ekki við útlönd. Þetta útilokar t.d. rannsóknarfyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki í klasasamstarf ýmiss konar vegna þess að það skortir öflugri tengingu við umheiminn og samkeppnisstaða þeirra við sambærileg fyrirtæki erlendis er hróplega slæm þar sem kostnaðurinn hér er 8–11 sinnum dýrari en hjá erlendum samkeppnisfyrirtækjum með sambærilega þjónustu og má segja að þetta grafi undan samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja. Lélegt netsamband vegna bresta í kringum Farice-strenginn og sérstaklega eins og var í kringum landtenginguna inn á Bretlandseyjar hamlar starfsemi í hátækninni og fjármálaþjónustu hvers konar en engin ákvörðun hefur heldur verið tekin um annan streng. Almenna reglan er að leggja hlið við hlið sinn hvorn strenginn þannig að um sé að ræða varastreng einnig. Það má segja að ef sæstrengnum Farice sé líkt við veg og hraðbraut að ein braut sé opin af 72 þar sem einungis er verið að nota 2 gígabæt af 720.

Þá má sérstaklega nefna RH-netið þar sem um er að ræða háskólana, framhaldsskólana, spítalana, sjúkrastofnanir og rannsóknastofnanir, opinbera aðila sem versla við Cantat-strenginn sem er í eigu erlendra aðila og býður mun lægra verð þannig að það sem þarf að gerast einnig til að skjóta stoðum undir rekstur Farice-strengsins, sem er hlutafélag, er að opinberir aðilar á borð við það versli við hann og fjárhagslegum stoðum sé skotið undir strenginn þannig að netsamband til og frá Íslandi sé tryggt, öruggt netsamband í I. flokki sem gefur okkar þekkingar-, hátækni- og menntafyrirtækjum forsendur til að keppa við erlend fyrirtæki af sama toga. Það er beðið eftir pólitískri ákvörðun frá hæstv. samgönguráðherra í þessu máli. Hið opinbera þarf að koma að þjónusta Farice og rekstur er allt of dýr og óstöðugur að mörgu leyti. Netsamband rofnaði t.d. 14 sinnum árið 2005. Kostnaður er allt of hár, óöryggi of mikið, það er beðið eftir að hæstv. samgönguráðherra grípi inn í og komi til leiks við rekstur Farice.